• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Viðskiptaráðherra styður verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands Björgvin G. Sigurðsson
12
Sep

Viðskiptaráðherra styður verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands

Í gærkvöldi stóð viðskiptaráðuneytið fyrir fundi undir yfirskriftinni "Ný sókn í neytendamálum". Fundurinn var haldinn í Skrúðgarðinum hér á Akranesi og var þriðji fundurinn í fundarherferð viðskiptaráðherra um neytendamál sem hann heldur vítt og breitt um landið þessa dagana.

Fundurinn í gær var afar gagnlegur og forvitnilegur en framsögumenn á fundinum voru Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins og Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingarinnar. Eftir erindi frá áðurnefndum aðilum voru leyfðar fyrirspurnir sem þeir félagar svöruðu og brunnu fjölmargar spurningar á fundargestum.

Til að mynda var spurt um verðtrygginguna og kom fram hjá Jóni að hana eigi að leggja af sem allra fyrst. Hann sagðist samt sem áður gera sér grein fyrir því að það verði erfitt miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi.

Viðskiptaráðherra sagði að erfitt yrði að leggja verðtrygginguna niður á meðan að krónan væri við lýði hér á landi og vart væri hægt að leggja verðtrygginguna niður fyrr en nýr gjaldmiðill væri kominn og stöðugleika í íslensku efnahagslífi náð.

Fyrirspurn kom frá einum fundarmanni um veggjaldið í Hvalfjarðargöngum og fram kom í svari frá Jóni að hann telji það varla standast jafnræðisreglu að greitt sé veggjald í Hvalfjarðargöngum á sama tíma og gjaldtaka eigi sér ekki stað í öðrum jarðgöngum hér á landi.

Viðskiptaráðherra svaraði því til að Guðbjartur Hannesson hefði farið yfir málið á sínum tíma með þingflokki Samfylkingarinnar og á þeim tíma studdi allur þingflokkur Samfylkingarinnar afnám vegatolla um Hvalfjarðargöng. Vonaðist ráðherrann til þess að Samfylkingin gæti uppfyllt þetta kosningaloforð sitt í náinni framtíð.

Formaður félagsins, sem jafnframt var fundarstjóri á fundinum, lagði fyrir þá félaga spurningar um verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands og þær hörðu ásakanir sem fulltrúar verslunarinnar hafa sett fram á verðlagseftirlit ASÍ og félaga þess undanfarið. Einnig var spurt um afstöðu þeirra félaga til þeirra tillagna sem fram hafa komið af hálfu verslunarinnar um að fenginn verði "óháður aðili" til að sinna verðlagseftirliti.

Fram kom í máli Jóns og Guðbjarts Hannessonar að þeir styðji það öfluga starf sem verðlagseftirlit Alþýðusambandsins hefur unnið og Guðbjartur sagðist ekki sjá að neinir hnökrar hafi verið á verðlagseftirliti ASÍ. Ráðherra sagðist búinn að fara vandlega yfir þetta mál og það væri ljóst að engar breytingar yrðu á því ágæta samstarfi sem ríkisvaldið ætti við Alþýðusamband Íslands um verðlagseftirlitið og myndi ASÍ því áfram sinna því hlutverki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image