• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Umtalsverðar væntingar vegna komandi kjarasamninga hjá stóriðjum Verksmiðja Elkem Ísland á Grundartanga
15
Sep

Umtalsverðar væntingar vegna komandi kjarasamninga hjá stóriðjum

Fyrsta desember nk. verður kjarasamningur starfsmanna Elkems Íslands laus og á sama tíma verður kjarasamningur starfsmanna Klafa laus, en það eru starfsmenn sem vinna við út- og uppskipun í Grundartangahöfn.

Það er ljóst að kröfur starfsmanna verða umtalsverðar í komandi kjarasamningi, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn hafa setið töluvert á hakanum sé tekið mið af því launaskriði sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði. Starfsmenn hafa haft á orði við formann félagsins að þeir vilji stefna að skammtímasamningi sökum þess efnahagsástands sem nú ríkir.

Formaður hefur verið að skoða hvernig laun starfsmanna stóriðjunnar á Grundartanga hafa þróast samanborið við launavísitölu frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008. Þá kemur í ljós að frá þeim tíma hefur launavísitalan hækkað um 42,4%.

Einnig hefur formaður skoðað hækkun vísitölu neysluverðs (verðbólgu) frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008 og kemur þá í ljós að á þessum tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 34,7%.

Hins vegar hafa laun starfsmanna Elkem Íslands og Klafa hækkað um 29,7% og sést því að kaupmáttarskerðing á umræddu tímabili er 5%. Einnig sést að launavísitalan hefur hækkað um 42,4% sem er 12,7% meira en laun starfsmanna áðurnefndra fyrirtækja.

Á þessari forsendu liggur fyrir að krafa starfsmanna Elkem Íslands og Klafa í komandi samningum verður umtalsverð hækkun á grunntöxtum. Það liggur fyrir að fastlaunasamningar eins og eru í stóriðjunni hafa þá tilhneigingu að sitja eftir á við almenna markaðinn eins og fram kemur þegar launavísitalan er skoðuð, enda þekkist vart launaskrið þegar um fastlaunasamninga er að ræða.

Það er einnig ljóst að starfsmenn stóriðjunnar eru ekki að fara að taka þátt í þjóðarsátt einfaldlega vegna þess að þeir telja sig vera búna að leggja sitt af mörkum í þeim efnum í gegnum tíðina eins og sést þegar að launahækkanir þessara hópa eru skoðaðar og bornar saman við hækkun á launavísitölunni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image