• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Sep

Lagfæra þarf kjör starfsmanna Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kjarasamningur við launanefnd sveitarfélaganna laus 30. nóvember nk. og er undirbúningur að kröfugerð þegar hafinn. Verkalýðsfélag Akraness hefur sent viðhorfskönnun til þeirra félagsmanna sem vinna hjá Akraneskaupstað og tilheyra VLFA. Þar geta félagsmenn komið á framfæri þeim atriðum sem þeir vilja leggja áherslu á í komandi kjaraviðræðum.

Það liggur fyrir að kjör ófaglærðra starfsmanna hjá Akraneskaupstað þarf að bæta og nægir í því samhengi að nefna að sundlaugarverðir, skólaliðar og starfsmenn á leikskóla sem náð hafa 25 ára aldri eru einungis með 144.789 kr. í grunnlaun auk 6.000 mánaðarlegrar eingreiðslu. Slík laun duga vart til lágmarksframfærslu og greinilegt að lagfæra þarf laun þessara hópa.

Krafan verður að öllum líkindum umtalsverð hækkun á launatöxtum og samningur sem gildir í skamman tíma, því glapræði er að gera langtímasamning í því árferði sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness mun á fundi sínum næstkomandi mánudag fjalla um það hvort samningsumboð vegna komandi kjarasamnings verði fært til Starfsgreinasambands Íslands, en eins og staðan er í dag er allt eins líklegt að það verði ekki gert.

Það er óhætt að segja að annríki verði hjá félaginu við samningsgerð á næstu mánuðum enda eru fjölmargir samningar á vegum félagsins lausir þegar líður á haustið og nægir þar að nefna kjarasamninga Elkem Íslands, Klafa, Sementsverksmiðjunnar, sjómanna og starfsmanna Akraneskaupstaðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image