• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Sep

Stjórn og trúnaðarráð fundar

Næstkomandi mánudag mun stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar. Fjölmörg mál verða til umfjöllunar á þessum fundi og verður m.a. rætt um endurskoðun kjarasamninga sem mun eiga sér stað í febrúar. En löngu er ljóst að allar forsendur kjarasamningsins sem undirritaður var 17. febrúar sl. eru kolbrostnar og klárt mál að verkafólk mun þurfa að fá einhvers konar viðbót við kjarasamninginn ef ekki á til uppsagnar hans að koma. Það liggur fyrir að greiðslubyrði skuldsettra heimila er að stóraukast þessa dagana vegna gríðarlegs gengisfalls krónunnar og ljóst að mörg heimili munu eiga í vandræðum á næstu misserum. Á þeirri forsendu verður einhver leiðrétting að koma til í endurskoðun kjarasamninga.

Einnig verður fjallað um þá samninga sem lausir verða nú á næstu mánuðum og það hvort Starfsgreinasambandi Íslands verði veitt umboð vegna komandi kjarasamninga við launanefnd sveitarfélaganna en sá samningur rennur út 30. nóvember nk. Þó nokkur félög innan SGS íhuga nú að fela SGS ekki samningsumboðið vegna komandi kjarasamninga og er allt eins líklegt að VLFA geri það ekki heldur.

Á fundinum verður einnig fjallað um komandi kjarasamninga í stóriðjunum, en þar liggur fyrir að þeir fastlaunasamningar sem tilheyra stóriðjunni hafa því miður setið eftir samanborið við það launaskrið sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði.

Einnig verður til umfjöllunar hinn nýi endurhæfingarsjóður, en þessa dagana er verið að móta reglur í kringum þennan nýja sjóð og ljóst að félagið vill sjá ávinning af þessum nýja sjóði til handa okkar félagsmönnum enda rennur umtalsvert fé í þennan sjóð í gegnum þá kjarasamninga sem félagið er aðili að.

Að sjálfsögðu verður á fundinum rætt um atvinnu- og efnahagshorfur í íslensku samfélagi en sem betur fer er atvinnuástandið á Akranesi feikigott um þessar mundir og skýrist það af þeim sterku stoðum sem byggðar hafa verið undir atvinnulífið á okkar félagssvæði með tilkomu stóriðjunnar á Grundartanga. Sem dæmi má nefna að þegar uppsagnir dynja yfir, vítt og breitt í atvinnulífinu þessa dagana þá er auglýst eftir fólki til starfa hjá Elkem Íslandi og samkvæmt upplýsingum sem félagið hefur aflað sér þá er þar um 7-8 störf að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image