• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Sep

Undarleg ákvörðun kjararáðs

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er undirbúningur kröfugerða vegna þeirra kjarasamninga sem félagið á aðild að nú í fullum gangi. Þeir kjarasamningar sem um ræðir eru við launanefnd sveitarfélaganna, Elkem Ísland, Klafa og Sementsverksmiðjuna. Það liggur fyrir að sá samningur sem ljósmæður gerðu við ríkið á dögunum og hljóðaði upp á 22,6% hækkun mun vera hafður til viðmiðunar við mótun kröfugerðar.

Það liggur einnig fyrir að þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið á hinum almenna vinnumarkaði bæði árið 2004 og 17. febrúar sl. höfðu það að markmiði að viðhalda hér stöðugleika og auka kaupmátt okkar fólks. Nú er hins vegar ljóst að forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar og ljóst að sækja þarf viðbætur til handa okkar fólki þegar endurskoðun á sér stað.

Þeir samningar sem gerðir voru á hinum almenna vinnumarkaði beindust fyrst og fremst að þeim sem hvað lægstu höfðu tekjurnar. Nam hækkun á launatöxtum 18.000 krónum en það fengu einungis þeir sem voru að vinna á berstrípuðum töxtum. Þeir sem nutu einhverra yfirborgana fengu 5,5% hækkun. Hins vegar fengu þeir sem nutu launaskriðs umfram 5,5% fyrir gerð samningsins ekki neitt. Því miður var það allt of stór hópur sem lenti í því. Þessu til viðbótar dróst að ganga frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði um rúman einn og hálfan mánuð og var samningurinn eins og áður var komið fram ekki undirritaður fyrr en 17. febrúar. Hins vegar náðist það ekki í gegn að láta samninginn gilda frá 1. janúar 2008 þegar sá eldri rann út.

Á þeirri forsendu er grátlegt að horfa upp á kjararáð ganga frá hækkunum til æðstu stjórnenda ríkisins upp á 20.300 krónur sem er 2.300 krónum meira en almennt verkafólk á berstrípuðum töxtum fékk . Einnig var grátlegt að sjá að æðstu stjórnendur fengu fulla afturvirkni á sínum kjörum eða aftur til 1. maí. Þessi dæmi sýna þá mismunun sem er í gangi í þessu þjóðfélagi og sýna að framvegis á verkalýðshreyfingin ekki að hvika frá því að samningur sem dregst um einhverjar vikur eða mánuði skuli gilda frá þeim tíma sem sá eldri rann út.

Það virðist bara vera þannig að það sé íslenskt verkafólk sem eigi að gefa eftir af sínum kjörum til að viðhalda hér stöðugleika og lágri verðbólgu, en þegar kemur að þeim sem eiga að sýna gott fordæmi þá er slíkt ekki upp á borði. Því verður það að vera skýlaus krafa þegar endurskoðun kjarasamninga á sér stað í febrúar að einhverjar viðbætur komi til handa íslensku verkafólki.

Rætt var við formann um þetta mál í hádegisfréttum RÚV í dag. Hægt er að hlusta á fréttina með því að smella hér.

Einnig var rædd við formann í Reykjavík síðdegis.  Hægt að hlusta hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image