• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Sep

Ekki hægt að una við lengur

Nú eru liðnir rúmir sjö mánuðir frá því að gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.  Kjarasamningum sem höfðu það markmið að ná tökum á verðbólgunni, tryggja stöðugleika og auka kaupmátt.  Víðtæk sátt virtist ríkja í samfélaginu þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði um að þeir sem væru með hvað lægstu launin fengu mestu hækkanirnar.

Eins og alltaf þegar kemur að kjarasamningum verkafólks þá heyrðust varnaðarorð úr öllum áttum t.d. frá greiningardeildum bankanna, ráðamönnum þjóðarinnar o.fl.  Þessi varnaðarorð lutu að því að óábyrgt væri að gera miklar kröfur um launahækkanir því slíkt myndi valda óstöðugleika og hækkandi verðbólgu.  Einnig óttuðust þessir aðilar að miklar hækkanir verkafólks myndu hafa víxlverkun á þá hópa sem síðar myndu semja.

Starfsgreinasambandið ákvað að gera hófstillta samninga þar sem einblínt yrði á þá sem starfa á berstrípuðum lágmarkstöxtum.  Þeir sem það gerðu fengu 18 þúsund króna hækkun. Þeir sem nutu yfirborgana umfram launataxta fengu 5,5% hækkun og þeir sem höfðu notið launaskriðs og fengið meira en 5,5% hækkun tólf mánuðum áður en gengið var frá samningum 17. febrúar fengu ekkert. 

Þessi samningur átti að tryggja aukinn kaupmátt verkafólks og var hann framlag SGS til að koma hér á stöðugleika.  Í ávarpi sem forsætisráðherra flutti 17. júní 2008 sagði hann meðal annars "Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að kjarasamningar grundvallist á hóflegum almennum kauphækkunum en jafnframt verulegri hækkun lægstu launa. Slíkt stuðlar í senn að auknum jöfnuði og betra jafnvægi í efnahagsmálum"

Rétt er að minna á að þegar gengið var frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði þá var verðbólgan 5,7% en er í dag 14% og það einungis rúmum sjö mánuðum síðar.  Bullandi kaupmáttarrýrnun blasir við íslensku verkafólki og því til viðbótar hefur greiðslubyrði stóraukist hjá íslenskum launþegum.  Það er kristalskýrt að mörg skuldsett heimili munu ekki ná að lifa þetta ástand af ef það helst óbreytt.  Þetta er að gerast þrátt fyrir að gerðir hafi verið hófstilltir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði.

Sá kjarasamningur sem gerður var 17. febrúar sl. var hálfgerður þjóðarsáttarsamningur þar sem horft var fyrst og fremst til þeirra tekjulægstu, samningur sem átti að tryggja stöðugleika og auka kaupmátt.  Á þeirri forsendu er grátlegt að horfa uppá alla aðra hópa koma og semja um mun hærri samninga heldur en gert var á hinum almenna vinnumarkaði.

Opinberir starfsmenn sömdu um 20.300 kr. hækkun og það á níu mánaða skammtímasamning.  Einnig var það algerlega óháð því hvort um tekjulága hópa væri að ræða, allir fengu þessa upphæð. Nægir að nefna að æðstu ráðmenn þessarar þjóðar fengu 20.300 kr. hækkun á sínum launum samkvæmt úrskurði kjararáðs eða sem nemur 2.300 kr. meira en þeir sem starfa eftir berstrípuðum lágmarkstöxtum á hinum almenna vinnumarkaði.  Rétt er að minna enn og aftur á að þó nokkuð stór hópur okkar fólks fékk enga hækkun eða nánar til getið þeir sem notið höfðu launaskriðs fyrir samninginn. Nú síðast gengu ljósmæður frá kjarasamningi uppá 22,6% sem tryggir þeim hækkun á bilinu 70 til 90 þúsund á mánuði, langt umfram það sem um var samið við verkafólk. 

Það sorglega við þetta er að þetta hefur gerst margoft áður, það er að segja að samið er við verkafólk á hófstilltum nótum og síðan koma allir aðrir hópar og semja um langtum meira en verkafólk samdi um.  Þegar gengið var frá samningum á hinum almenna vinnumarkaði 2004 þá var samið um heildarhækkun uppá 15,8%.  Allir aðrir hópar sem sömdu á eftir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði árið 2004 sömdu um langtum meiri hækkanir í sínum samningum og nægir að nefna samantekt sem hagfræðingur ASÍ gerði í því samhengi.  Sem dæmi þá sömdu kennarar í grunnskólum um 30,0% hækkun, framhaldsskólakennarar um 25,8% og leikskólakennarar um 37,4% hækkun.  Með öðrum orðum langtum meira en verkafólk samdi um árið 2004.  Og nú er það sama að gerast í þessum samningum, allir semja um meira en verkafólk samdi um.

Þetta er hins vegar ekkert nýtt, að verkafólk sé eitt látið sitja eftir hvað varðar launahækkanir til að viðhalda hér stöðugleika og nægir að nefna þær hækkanir sem bankaráð seðlabankans ákvað í janúar á síðasta ári, hækkun uppá 200 þúsund krónur á mánuði sjá frétt hér

Einnig hækkun sem forstjóri Landsspítalans fékk í ágúst á þessu ári uppá 25% sjá frétt hér.  Svo tala "ábyrgir" aðilar í þessu þjóðfélagi um mikilvægi þess að gerðir séu hófstilltir kjarasamningar fyrir verkafólk til að allt fari ekki fjandans til.  Þetta hefur ætíð verið svona þegar kemur að leiðréttingu á kjörum verkafólks og rétt er að minna á pistil sem Jóhanna Sigurðardóttir skrifaði árið 1997 því tengdu. Hægt að lesa hér.

Nei, Verkalýðsfélag Akraness getur ekki og mun ekki horfa lengur uppá það hvernig farið er með íslenskt verkafólk í sínum kjarasamningum.  Ávalt gengið fyrst frá samningum og svo koma allir aðrir hópar og semja um langtum hærri hækkanir handa sínu fólki.  Slíku ætlar VLFA ekki að taka þátt í lengur því nú er komið að öðrum að axla ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. 

Verkalýðsfélag Akraness á eftir að ganga frá þó nokkrum samningum t.d. við launanefnd sveitarfélaga og stóriðjurnar á Grundartanga og þar verður krafist hækkana í samræmi við þær sem ljósmæður fengu í sínum samningi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image