• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Sep

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?

Fall íslensku krónunnar virðist engan enda ætla að taka en nú stendur gengisvísitalan í 183,18. Það er algjörlega ljóst að það ástand sem nú er að skapast í íslensku efnahagslífi er eitthvað sem hvorki fyrirtæki né heimilin munu geta staðist.

Ýmsir aðilar hafa verið að gefa til kynna að bankarnir beri að einhverju leyti ábyrgð á þeirri gengisfellingu sem verið hefur og síðast í gær var Guðni Ágústsson að fjalla um að fall krónunnar þyrfti að rannsaka. Hægt að sjá viðtal hér.

Því spyr formaður, ef getgátur eru uppi um að jafnvel bankarnir beri ábyrgð á gengisfellingu krónunnar, hví í ósköpunum er slíkt ekki rannsakað?

Það er alveg ljóst að það þarf að koma íslenskum heimilum til hjálpar því skuldir heimilanna hafa aukist gríðarlega að undanförnu vegna gengisfellingar krónunnar og hækkunar verðbólgu.

Hvað er til ráða? Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin verður að grípa til einhverra ráða og það tafarlaust. Hún þarf t.d. að flýta þeim aðgerðum sem hún lagði fram í yfirlýsingu hennar samhliða kjarasamningum frá 17. febrúar sl. Hækkun persónuafsláttar taki öll gildi strax en ekki á næstu þremur árum. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að skoðaðar verði frekari lækkanir á tollum og vörugjöldum, ljóst er að þeirri skoðun þarf að hraða sem mest og myndi það klárlega koma neytendum til góða.

Einnig liggur fyrir að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs af eldsneyti hafa hækkað umtalsvert vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Því er nú svigrúm fyrir ríkissjóð að lækka álögur á eldsneyti á meðan á því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi stendur. Það mun klárlega koma íslenskum neytendum til góða.

Þessu til viðbótar verður Seðlabankinn að lækka stýrivextina við fyrsta tækifæri.  Hvorki atvinnulífið né heimilin í landinu geta staðið undir þeim okur vöxtum sem nú í gangi.

Ríkisstjórn Íslands þarf einnig að skoða hvort sú peningamálastefna sem hér er rekin hafi nú gengið sér til húðar.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa haft orð á því hví í ósköpunum ekki er óskað eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kostir og gallar þess að ganga í sambandið skoðaðir. Síðan mætti leggja kostina og gallana sem því fylgja í dóm þjóðarinnar og ákvörðun tekin með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image