• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
May

Kennsla raskast ennþá í skólum Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið fréttum að undanförnu þá hefur ríkt umtalsverð óánægja hjá kennurum Grundaskóla og Brekkubæjarskóla á Akranesi sem og öðrum starfsmönnum bæjarins í vetur, sem hafa vitnað til þeirra kjarabóta sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi hafa veitt sínum starfsmönnum á undanförnum mánuðum.

23. apríl gripu kennarar til aðgerða og í bréfi sem bæjarstjórn fékk afhent frá trúnaðarmönnum skólanna 22. apríl sl. segir: “Í þessu felst að við sinnum ekki veikindaforföllum, dygðastundum, samkennslu, tilfærslu úr stuðningi í kennslu, gæslu, bekkjarkvöldum, fundum eftir að vinnutímaramma lýkur, ferðalögum sem falla utan vinnutímaramma né öðru því sem fellur undir forföll og/eða óumsamda yfirvinnu.”

 Á aukafundi bæjarstjórnar Akraness sem haldinn var 28. apríl sl. var samþykkt að bjóða kennurum við grunnskóla bæjarins 60 þúsund króna eingreiðslu til að koma til móts við kröfur þeirra að undanförnu. Þessi greiðsla verði borguð þegar búið verður að greiða atkvæði og samþykkja nýgerðan kjarasamning grunnskólakennara.  Bæjarstjórn samþykkti einnig að aðrir starfsmenn fengju ekki sína eingreiðslu fyrr en búið verður að semja við Launanefnd sveitarfélaga en kjarasamningur annarra starfsmanna rennur ekki út fyrr en 30. nóvember. 

Það liggur fyrir að kennarar og aðrir starfsmenn bæjarins eru alls ekki ánægðir með þessa ákvörðun hjá bæjarráði og eru þeir ósáttir við að verið sé að tengja þessa eingreiðslu við þá kjarasamninga sem nú eru lausir og einnig eru starfsmenn ekki sáttir við þá upphæð sem sem bæjarráð samþykkti að láta starfsmenn fá.  Telja starfsmenn að hún sé mun lægri en þær kjarabætur sem nágrannasveitarfélögin hafa verið að greiða sínum starfsmönnum.

Í tölvupósti sem barst frá Sigurði Arnari Sigurðssyni aðstoðarskólastjóra til foreldra Grundaskóla í gær segir: 

"Eins og undanfarið voru forföll í starfsliði Grundaskóla í dag. Kennarar hafa ekki enn náð sáttum við Akraneskaupstað og hafa því ekki aflýst yfirvinnubanni.

Í dag miðvikudag 7. maí tókst okkur ekki að leysa nema hluta af forföllum, og þar af leiðandi féllu niður kennslustundir hjá nokkrum bekkjum".

 

Formaður tekur undir með starfsmönnum bæjarins að það sé óþolandi að verið sé að tengja áðurnefndar kjarabætur við þá kjarasamninga sem nú eru lausir og það er algjörlega óviðunandi að aðrir starfsmenn bæjarins eigi að bíða eftir sínum greiðslum mun lengur en kennarar eða alla vega til 1. desember.  Slík ákvörðun  geri ekkert annað en að valda úlfúð á meðal starfsmanna.

Formaður skorar á bæjaryfirvöld að greiða öllum starfsmönnum Akraneskaupstaðar meðaltal af þeim kjarabótum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi hafa greitt sínum starfsmönnum á undanförnum misserum.  Einnig skorar formaður á bæjaryfirvöld að tengja þessa greiðslur alls ekki þeim kjarasamningum sem nú eru lausir, en slíkt hleypi einungis illu blóði í starfsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image