• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
May

Bæjarstjórn Akraness vill halda ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum síðasta þriðjudag að skoða möguleika á að standa fyrir ráðstefnu á haustdögum um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála í samvinnu við Samband sveitarfélaga.  Það var afar ánægjulegt að sjá að tillagan var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.

Það var Guðmundur Páll Jónsson bæjarfulltrúi sem lagði tillöguna fram.  Í máli Guðmundar Páls kom fram að liðinn vetur sé búinn að vera okkur Akurnesingum sérstaklega erfiður varðandi þróun í fiskvinnslu- og útgerðamálum.  Hann sagði einnig að almenning hér á Akranesi setti algjörlega hljóðan yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í fiskvinnslumálum og átti hann við þann mikla samdrátt og uppsagnir sem átt hafa sér stað hjá HB Granda.

Í máli bæjarfulltrúans kom fram að ráðstefnuna verði að halda í samvinnu eða á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á þessari ráðstefnu vill bæjarfulltrúinn að farið verði yfir leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi og í stjórnun fiskveiðistjórnunarkerfisins með tilliti til þess sem byggðirnar og samfélögin hafa þurft að mæta. 

Guðmundur Páll vill einnig að menn spyrji á þessari ráðstefnu hvort þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi í dag séu barns síns tíma.  Hann vill einnig að menn spyrji sig þeirrar spurningar hvort leikreglunar þurfi ekki að vera með öðrum hætti en þær eru í dag.  Hann vill að sveitarstjórnarstigið skoði á þessari ráðstefnu leikreglur fiskveiðistjórnunarkerfisins á hlutlausan og yfirvegaðan hátt með hagsmuni almennings sem í byggðunum býr og hafa búið að leiðarljósi.

Formaður félagsins fagnar því að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hafi tekið frumkvæðið í því að halda slíka ráðstefnu því það er með öllu óþolandi hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið þetta samfélag hér á Akranesi sem og aðrar byggðir þessa lands. 

Það er full ástæða til að kalla eftir nýjum leikreglum í íslenskum sjávarútvegi í ljósi þess að fjölda byggðarlaga hefur nánast blætt út vegna þess kerfis sem hér hefur verið í hart nær 24 ár.

Hægt er að hlusta á tillögu og ræðu Guðmundar Páls Jónssonar með því að smella hér.  Ræðan hans er þegar 1.09 er liðin á fundinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image