• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Jul

Norðurál ræðst í 15 milljarða fjárfestingu- 40 ný störf skapast

Það eru gjörsamlega frábærar fréttir fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitunga sem og fyrir þjóðarbúið allt að Norðurál og Landsvirkjun hafi náð nýjum raforkusamningi sem mun leiða til þess að fyrirtækið mun ráðast í 15 milljarða fjárfestingu í nýjum steypuskála.

Það er ekki bara að þessi fjárfesting muni skapa 100 störf á uppbyggingartímanum heldur mun þessi stækkun skapa 40 varanleg störf sem og tryggja framtíð fyrirtækisins um komandi ár. En það er löngu ljóst að framleiðslugeta núverandi steypuskála hefur torveldað fráflæði frá kerskálanum og væntanlega mun þessi stækkun steypuskálans leiða til þess að álagið á bæði kerskála og steypuskála mun verða minna. Einnig mun þessi nýja fjárfesting tryggja framtíð Norðuráls til næstu ára ef ekki áratuga.

Það er morgunljóst að þessi framkvæmd mun auka útflutningstekjur og um leið styrkja rekstrarstöðu fyrirtækisins enn frekar en í nýja steypuskálanum verða framleiddir 150 þúsundtonn af svokölluðum álboltum sem eru mun verðmeiri en sú framleiðsla sem unnin er hjá Norðuráli í dag

Fjárhagslegur ávinningur þjóðarbúsins er ótvíræður en formaður myndi áætla að nýr raforkusamningur og 20 MW viðbót við raforkusamninginn muni skila Landsvirkjun auknum tekjum sem nema á bilinu 2 til 3 milljörðum á ári. Eftir að nýr raforkusamningur við Landsvirkjun má áætla að NA sé að greiða uppundir 7 milljarða til LV á ári fyrir raforkuna. En síðan er Norðurál með raforkusamning við Orkuveitu Reykjavíkur og nemur kostnaður við þann samning milli 7 til 8 milljörðum á ári. Samtals mun Norðurál því greiða uppundir 15 milljarða á ári fyrir raforkuna og ljóst að munar um minna fyrir umrætt orkufyrirtæki sem eru í eigu ríkis og sveitafélaga.

Það er ekki bara að tekjur Landsvirkjunar muni aukast heldur mun staðgreiðsla til ríkis og sveitafélaga aukast um allt að 100 milljónir á ári vegna þess að 40 ný varanleg störf munu skapast.

Það hefur enginn barist eins kröftuglega fyrir atvinnuöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækja eins og Verkalýðsfélag Akraness eins sagan sýnir. Formaður hefur barist fyrir því að bæði Norðurál og Elkem Ísland á Grundartanga næðu samningum við Landsvirkjun sem myndi leiða til þess að rekstarforsendur þessara fyrirtækja myndu ekki ógna atvinnuöryggi starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga. Hefur formaður VLFA m.a. fundað með forstjóra Landsvirkjunar og ráðamönnum vegna þeirra alvarlegu stöðu sem upp var komin um tíma en nú sér loksins fyrir endann á þessari ógn og nú er bara að vona að Elkem nái einnig nýjum raforkusamningi við LV.

Rétt er að geta þess að í dag vinna um 600 manns hjá Norðuráli fyrir utan afleidd störf og um 200 manns hjá Elkem og eru þar einnig afleidd störf undanskilin og því eru þessi fyrirtæki gríðarlega mikilvæg fyrir okkur Akurnesinga og Verkalýðsfélag Akraness en um 80% starfsmanna þessara fyrirtækja tilheyra VLFA.

Eins og áður sagði eru þetta frábærar fréttir enda er þessi fjárfesting í stækkun á steypuskálanum að tryggja og festa atvinnuöryggi minna félagsmanna sem og tryggja búsetuöryggi okkar Akurnesinga og nærsveitunga.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image