• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Nov

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með pólsku starfsmönnunum sem starfa á vegum starfsmennaleigunnar 2b í gærkveldi

Verkalýðsfélag Akraness ásamt fulltrúa ASÍ funduðu með pólsku starfsmönnunum sem hingað komu til starfa í gegnum starfsmannaleiguna 2b.  Umræddir starfsmenn eru að störfum hjá Ístaki og Fagsmíði við stækkun Norðuráls að Grundartanga.  Fundurinn var haldinn að Arnarholti á Kjalarnesi en þar gista pólsku starfsmennirnir.  Þessi fundur var haldinn að ósk pólsku starfsmannanna sjálfra.  Þegar fundurinn átti að hefjast kom eigandi starfsmannaleigunnar 2b og óskaði eftir að fá að sitja fundinn þar sem um starfsmenn 2b væri um að ræða.  Verkalýðsfélag Akraness og fulltrúi ASÍ mótmæltu þessu algerlega og sögðu að fundurinn yrði marklaus ef eigandi 2b myndi sitja fundinn.  Varð það að samkomulagi að starfsmennirnir sjálfir myndu ákveða hvort eigandi 2b  yrði með á  fundinn eða ekki.  Með stéttarfélaginu var pólskur túlkur og bað hún þá starfsmenn sem vildu að eigandi starfsmannaleigunnar 2b yfirgæfi fundinn, að rétta upp hönd.   Allir pólsku starfsmennirnir réttu upp hönd.  Að því loknu yfirgaf eigandi starfsmannaleigunnar fundinn.

Því næst var farið yfir stöðuna með pólsku starfsmönnunum eins og hún er þessa stundina.  Ekki fór á milli mála að pólsku starfsmennirnir eru verulega uggandi um sinn hag og hafa miklar áhyggur af framvindu mála.  Á fundinum afhentu starfsmennirnir tímaskriftir vegna vinnu sinnar frá því þeir komu hingað til lands.  Einnig upplýstu starfsmennirnir hversu mikið þeir hafa fengið greitt frá því þeir hófu störf hjá starfsmannaleigunni 2b.  Kom fram hjá tveimur starfsmönnunum að þeir byrjuðu að starfa hjá starfsmannaleigunni 2b 8 september og hafi einungis fengið 95 þúsund krónur útborgað og engan launaseðil fengið né séð.   Í dag verður farið ítarlega yfir þessi gögn ásamt því að frekari gagna verður aflað.

28
Oct

Fyrirtækjasamningur Fangs samþykktur með öllum greiddum atkvæðum !

Fyrirtækjasamningur við Fang ehf. var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum og virðist starfsmenn vera mjög ánægðir með samning ef marka má kosningu um samning.  En á kjörskrá voru 13 starfsmenn og 10 starfsmenn kusu eða 77%.  Já sögðu 10 starfsmenn eða 100%

Verkalýðsfélag Akraness vill enn og aftur þakka trúnaðarmanni Fangs sem og öllum starfsmönnum fyrir aðstoðina við gerð þessa samnings sem er heilt yfir mjög góður fyrir starfsmenn Fangs.

27
Oct

Verkalýðsfélag Akraness vill leysa málefni pólsku verkamannanna með því að Ístak sæki um atvinnuleyfi fyrir starfsmennina

Verkalýðsfélag Akraness  telur að hægt sé að leysa málið er snýr að pólsku starfsmönnum sem koma frá starfsmannaleigunni 2B.  Lausnin felst í því Ístak sæki einfaldlega um atvinnuleyfi fyrir umrædda starfsmenn og þeim verði greidd laun eftir íslenskum kjarasamningum.  Þessi leið var farinn í máli pólski verkamannanna sem nú starfa hjá Spútnik Bátum en þeir komu hingað til starfa  á sínum tíma  á vegum pólskrar starfsmannaleigu og án atvinnuleyfa.  Það mál leystist farsællega og starfa pólsku starfsmennirnir núna eftir íslenskum kjarasamningum og eru einnig með atvinnuleyfi hér á landi.  Hefur félagið nú þegar sett sig í samband við forsvarsmenn Ístaks með þessa hugmynd félagsins og á félagið von á svari frá forsvarsmönnum Ístaks síðar í dag.

27
Oct

Sveini Andra Sveinssyni lögmanni starfsmannaleigunnar 2B svarað !

Í viðtali sem ber yfirskriftina “Óskiljanlegt að verktakafyrirtækin séu kærð” og birtist í Morgunblaðinu í dag segir Sveinn Andri Sveinson lögmaður starfsmannaleigunnar 2b

“Mikið hugmyndaflug þarf til að skilja hvers vegna stéttarfélög tóku ákvörðun um að kæra þau sex fyrirtæki sem eru með starfsmenn á vegum starfsmannaleigunnar 2 B í vinnu, enda ljóst að þeir eru starfsmenn leigunnar, ekki verktakanna. Það er minn umbjóðandi sem borgar þessum mönnum laun og er með þá á launaskrá, en ekki þessi fyrirtæki. Það er óskiljanlegt með öllu hvernig hvarflar að mönnum að leggja inn kæru á þessi verktakafyrirtæki,"

Virðulegum lögfræðingnum virðist erfitt að skilja að við teljum okkur hafa rökstuddan grun um að um sé að ræða brot á lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, hann þarf ekki að gera meira en að skoða skráningu 2b í fyrirtækjaskrá til að sjá að um íslenskt fyrirtæki er að ræða. Þar með er ljóst að starfsmannaleigan 2b getur ekki flutt inn starfsfólk á grundvelli laga nr.54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.  Þetta er nú ekki flóknara.

 Ef um er að ræða brot á lögum nr. 97/2002 segir meðal annars í 17.gr.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður:   “a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur atvinnuleyfi samkvæmt lögunum.” Er einhverjum vafa undirorpið hverjir voru að nýta starfskrafta Pólverjanna sem um ræðir? Voru það ekki notendafyrirtækin?

Síðar segir einnig í 17. gr.  Það varðar sektum eða fangelsi allt að fimm árum að reka skipulagða starfsemi til að aðstoða útlendinga við að starfa hér á landi án atvinnuleyfis samkvæmt lögum þessum. 

Skammtímaminni hefur ekkert með þetta mál að gera og útúrsnúningar Sveins um GT verktaka eiga einfaldlega ekki við. GT verktakar voru sagðir með samning við erlenda starfmannaleigu og féllu því undir lög nr. 54/2001 Það er einnig mjög villandi að halda því fram “að ríkisborgarar nýrra landa Evrópusambandsins hafi leyfi til að dvelja hér og starfa í 3 mánuði án atvinnuleyfis.” eins og haft er eftir Sveini, slíkt er þeim aðeins heimilt ef þeir koma á vegum erlends fyrirtækis.

Verkalýðsfélag Akraness áttar sig alls ekki á þessum útúrsnúningum Sveins Andra Sveinssonar og spyr hvað þessi  blekkingarleikur eigi þýða ?

26
Oct

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir áliti frá lögmanni félagsins um hvort Ístak og Fagsmíði hafi brotið lög með því að vera með ólöglegt vinnuafl í sinni þjónustu !

Verkalýðsfélag Akraness heldur áfram eftirliti með ólöglegu vinnuafli.  Í gær fékk félagið upplýsingar um að fleiri erlendir starfsmenn á vegum starfsmannaleigunnar 2B væru að störfum á Grundartangasvæðinu.  Þessar upplýsingar reyndust réttar, í  þessu tilfelli var um  nokkra pólverja að ræða.   Enginn þeirra er með atvinnuleyfi hér á landi.   Fyrirtækið sem þeir starfa hjá heitir Fagsmíði ehf.  Hefur Verkalýðsfélag Akraness sent sýslumanninum í Borgarnesi kæru vegna þessara ólöglegu starfsmanna.  Einnig hefur félagið sent fyrirtækjunum tveimur Ístaki og Fagsmíði bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um ráðningarkjör þessara erlendu starfsmanna.  Verkalýðsfélag Akraness lítur það mjög alvarlegum augum að Ístak og Fagsmíði séu með ólöglegt vinnuafl í sinni þjónustu. Verkalýðsfélag Akraness hefur því  óskað eftir því við lögmann félagsins að hann skoði hvort umrædd fyrirtæki hafi gerst brotleg við íslensk lög með því að hafa starfsmenn sem ekki hafa tilskilin réttindi til að starfa hér á landi. 

25
Oct

Allt bendir til að allir pólsku starfsmennirnir sem eru á vegum íslenska fyrirtækisins 2b séu að starfa hér ólöglega !

Allt bendir til að allir pólsku starfsmennirnir sem eru á vegum íslenska fyrirtækisins 2b séu  að starfa ólöglega hér á landi.  Ekki bara þeir 10 sem nú starfa hjá Ístaki á grundartanga. Heldur allir þeir erlendu starfsmenn sem  2b hefur útvegað íslenskum fyrirtækjum og eru að störfum víða um landið, t.b á Kárahnjúkum.   Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá kærði Verkalýðsfélag Akraness fyrirtækið 2b til sýslumannsins í Borgarnesi.  Kæran byggist á því að um rökstuddan grun er um að fyrirtækið 2b   sé að brjóta lög nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja.  Fyrirtækið 2B er íslenskt fyrirtæki með lögheimili og starfstöð hér á landi.  Teljum við því ljóst að það uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna og því  óheimilt að gera þjónustusamninga á grundvelli þeirra.  Telur lögfræðingur Vinnumálastofnunar að ljóst sé að umrætt tilvik falli ekki undir lög nr. 54/2001 og  hefur jafnframt upplýst að atvinnuleyfi liggi ekki fyrir og sé því sammála Verkalýðsfélagi Akraness að um ólöglega starfsemi sé um að ræða.  Það er því afar brýnt að Sýslumaðurinn í Borgarnesi bregðist skjótt við og stöðvi vinnu þessara pólsku verkamanna sem starfa hér ólöglega og það án tafar.   Það er verulegt áhyggjuefni fyrir íslensk verkafólk og íslenskan vinnumarkað þegar jafn stórt og virt fyrirtæki eins og Ístak er.   Tekur upp á því  að eiga í viðskiptum við "starfsmannaleigu" sem er afar umdeild og því miður bendir allt til þess núna að hún starfi ólöglega hér á landi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image