Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | Fax 430 9901 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands
 • Bílar og dekk
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model
 • N1
 • Olís
 • Omnis
 • Pípulagningafélag Lýðveldisins
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
28. september 2016

Hérna er Gylfi Dalmann í viðtali hjá Sigurjóni M. Egilssyni
Síðastliðinn mánudag óskaði Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands sem kennir nú vinnumarkaðsfræði í meistaranámi, eftir því að formaður Verkalýðsfélags Akraness kæmi og hitti nemendur eina kennslustund. Gylfi hefur í gegnum árin nokkrum sinnum óskað eftir slíkum heimsóknum og að sjálfsögðu hefur formaður félagsins tekið jákvætt í það, en þetta er í sjötta sinn á nokkrum árum sem hann hittir nemendur Gylfa í þessum tilgangi.

 

Tilgangur heimsóknarinnar var sá að fara yfir stöðu verkalýðshreyfingarinnar, mikilvægi hennar og hin ýmsu mál er lúta að starfsemi hreyfingarinnar. Formaður fór víða í klukkustundarlöngu erindi sínu og eðli málsins samkvæmt fjallaði hann mikið um svokallað Salek samkomulag sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld reyna nú að koma á hér á landi. 

 

Fram kom í máli formanns að stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness telur að þær hugmyndir sem eru uppi um nýtt vinnumarkaðsmódel að norrænni fyrirmynd séu ein sú mesta ógn sem launafólk og stéttarfélögin hafi staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Fór formaður yfir það að VLFA telur að nýtt vinnumarkaðsmódel muni leiða til mikillar skerðingar á samningsfrelsi launafólks og stéttarfélaganna enda snúast hugmyndir um nýtt vinnumarkaðslíkan um að færa ákvörðunartöku um hámarkslaunabreytingar yfir á miðstýrt apparat sem aðilar Salek samkomulagsins eru að móta og koma sér saman um. 

 

Formaður fór líka yfir að hugmyndir eru uppi um að breyta vinnulöggjöfinni til þess að festa nýtt samningalíkan í sessi. Formaður sagði í erindi sínu að samningsfrelsi launafólks væri hornsteinn íslenskrar verkalýðsbaráttu og það samningsfrelsi megi ekki skerða með nokkrum hætti.

 

Formaðurinn fór líka yfir skýrslu sem Steinar Holden frá Óslóar Háskóla gerði fyrir aðila Salek samkomulagsins og fjallaði um hugmyndir um nýtt vinnumarkaðsmódel. Í skýrslunni kemur skýrt fram að samningsfrelsi verður stórlega skert ef þessar hugmyndir ná fram að ganga enda gengur nýtt samningalíkan útá að festa í sessi samræmda láglaunastefnu þar sem öllum verður skylt að semja um hóflegar launahækkanir og nefndi formaður í erindi sínu að í skýrslu Steinars hefðu orðin "hóflegar launahækkanir" komið 19 sinnum fyrir í 20 blaðsíðna skýrslu!

 

Formaður fór líka yfir það vaxtaokur og verðtryggingarofbeldi sem íslenskur almenningur hefur þurft að þola hér á landi í tugi ára með skelfilegum lífsgæðamissi fyrir neytendur. Hann nefndi að það væri gríðarlega mikilvægt að lækka vexti og afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum neytenda. Hann sagði líka að okurvextir og verðtrygging væru ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem auðvelt væri að breyta. Vilji, kjarkur og þor er allt sem þarf til þess. 

 

Þetta var afar skemmtileg stund að mati formanns enda fékk hann margar spurningar tengdar hinum ýmsu málefnum hreyfingarinnar. Svona tækifæri eru líka ágæt til að koma upplýsingum á framfæri um starfsemi íslenskrar verkalýðshreyfingar. Starfsemi verkalýðshreyfingarinnar er mikilvæg og verður mikilvæg áfram, en það kom fram í máli formanns að það er grundvallaratriði fyrir forystumenn í verkalýðshreyfingunni að hlusta vel á rödd alþýðunnar því það er alveg morgunljóst að hægt er að gera betur í hinum ýmsu baráttumálum er lúta að hagsmunum launafólks og nægir að nefna í því samhengi kjör þeirra sem hvað höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

 

 

 

27. september 2016

Prúðir krakkar úr 3. bekk Grundaskóla fyrir utan skrifstofu félagsins á Sunnubraut Æfing fyrir kjarabaráttu framtíðarinnar, með hnefann á lofti Eitt DAB að lokum

 

Í morgun komu góðir gestir á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness þegar nemendur í 3. bekk Grundaskóla heimsóttu skrifstofu félagsins. Um var að ræða vinnustaðaheimsókn nemenda, en hópurinn ætlaði að heimsækja ýmsa vinnustaði á Akranesi í dag. Tilefnið var þemavinna sem krakkarnir eru að vinna um þessar mundir um Akranes, þar sem þau læra um örnefni og vinna ýmis verkefni í tengslum við heimabæinn sinn.

 

Hópurinn fékk kynningu á starfsemi félagsins og skoðunarferð um húsið hátt og lágt þar sem þau kíktu inn á allar skrifstofur og í fundarsalinn á efri hæðinni og fengu síðan hressingu á eftir. Það var ekki annað að heyra á þeim en þeim litist dável á aðstöðuna og mörg gátu alveg hugsað sér að vinna hjá Verkalýðsfélaginu þegar þau yrðu stór.

 

19. september 2016

Nú er hafin leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um ótímabundið verkfall félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness sem starfa á fiskiskipum samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), en kosningin fer samtímis fram meðal allra aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands. Verði verkfall samþykkt mun vinnustöðvun hefjast kl. 23:00 þann 10. nóvember hafi ekki náðst kjarasamningar milli aðila fyrir þann tíma. Athugið að þessi samningur nær ekki til sjómanna á smábátum.

 

Allir atkvæðisbærir félagsmenn VLFA fá sent bréf um framvindu samningaviðræðna við SFS auk leyniorðs sem nota má við atkvæðagreiðsluna. Einnig er hægt að auðkenna sig með Íslykli eða rafrænum skilríkjum á farsíma þegar atkvæði er greitt og því er hægt að kjósa strax þótt bréfið hafi ekki borist.

 

Hnappur hefur verið tengdur hér hægra megin á heimasíðunni merktur "Sjómenn - atkvæðagreiðsla um verkfall". Þegar smellt er á hann opnast gluggi sem eftir innskráningu opnar leið að atkvæðaseðli. Einungis félagsmenn á kjörskrá hafa aðgang að atkvæðaseðlinum. Telji félagsmaður sig hafa atkvæðisrétt en er ekki inni á kjörskrá skal hann hafa samband við skrifstofu félagsins eða senda tölvupóst til kjörstjórnar Verkalýðsfélags Akraness á netfangið skrifstofa@vlfa.is.

 

16. september 2016

Eins og flestir landsmenn vita þá hafa sjómenn verið kjarasamningslausir í hartnær 6 ár eða nánar til getið frá 1. janúar 2011. Rétt er að geta þess að sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sem og flest önnur sjómannafélög fólu Sjómannasambandi Íslands samningsumboð til kjarasamningsgerðar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þann 24. júní síðastliðinn undirritaði Sjómannasamband Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi nýjan kjarasamning, en því miður var innihald þess samnings afar rýrt enda var samningurinn kolfelldur af sjómönnum í atkvæðagreiðslu sem lauk 8. ágúst síðastliðinn.

 

Í ljósi þeirrar stöðu að sjómenn höfnuðu algerlega þeim kjarasamningi sem undirritaður var 24. júní var reynt til þrautar að ná fram viðbót við samninginn en algerlega án árangurs og því hefur nú slitnað uppúr viðræðum við útgerðarmenn. Það er morgunljóst að reiði kraumar meðal sjómanna vegna þess skeytingarleysis sem þeir finna frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þeirra atriða sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum sanngjörnum kjarasamningi.

 

Þau atriði sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi eru þessi helst:

 • Verðlagsmálin
 • Mönnunarmálin
 • Afnám á nýsmíðaálagi
 • Bætur vegna afnáms á sjómannaafslætti
 • Hækkun á fatapeningum
 • Sjómenn fái orlofs- og desemberuppbætur eins og annað launafólk
 • Tekið sé á miklum kostnaði sjómanna vegna fjarskipta

 

Á þessu sést að það ber töluvert á milli aðila og að sjálfsögðu eru sum þessara mála stærri en önnur eins og verðlagsmálin, en sjómenn vilja að sjálfsögðu að markaðsverð á sjávarafurðum verði látið gilda enda munar allt að 30% á uppgjörsverði til sjómanna og markaðsverði. Sjómenn eru líka afar ósáttir við að þurfa að greiða 10% af sínum launum vegna nýsmíðaálags í 7 ár og það án þess að eignast neitt í viðkomandi skipi.

 

Bara til að benda á óréttlætið sem felst í þessu nýsmíðaálagi þá er ekkert óalgengt að dregið sé af sjómanni vegna nýsmíðaálagsins sem nemur uppundir 7 milljónum á 7 ára tímabili vegna endurnýjunar á fiskiskipi og það án þess að sjómaðurinn eignist neina hlutdeild í viðkomandi skipi! Þetta væri svipað og ef flugstjórar, flugfreyjur og flugvirkjar greiddu 10% af sínum launum til vinnuveitenda sinna Icelandair og Wow air svo fyrirtækin geti endurnýjað flugflota sinn! Eða að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn yrðu látnir greiða 10% af sínum launum vegna byggingar á nýjum Landsspítala. Það sjá allir skynsamir menn að þetta nýsmíðaálag er afar óréttlátt svo ekki sé fastar að orði kveðið.

 

Það er líka rétt að rifja upp að árið 2009 var sjómannaafslátturinn tekinn af sjómönnum í þrepum og er hann nú allur dottinn út en við það varð sjómannastéttin af 1,6 milljarði án þess að nokkrar bætur kæmu til handa sjómönnum vegna þessa.

 

Það er líka rétt að vekja sérstaka athygli á því að sjómönnum hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum. Árið 2009 voru þeir um 6.000 en árið 2014 hafði þeim fækkað niður í 4.400. Það liggur fyrir að útgerðarmenn hafa verið að fækka verulega um borð í fiskiskipaflotanum og tala sjómenn núna um að þessi fækkun sé farin að ógna öryggi þeirra um borð í skipunum. Þess vegna leggja sjómenn mikla áherslu á að fá í kjarasamninginn ákvæði sem kveður á um lágmarksmönnun um borð í fiskiskipum.

 

Að þessu sögðu liggur fyrir að himinn og haf skilur á milli deiluaðila í kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn og hafa aðildarfélög Sjómannasambands Íslands því hafið undirbúning að kosningu um allsherjarverkfall sjómanna. Kosning um verkfall hefst eftir helgi og samþykki sjómenn það mun verkfall hefjast 10. nóvember klukkan 23.00. Rétt er að geta þess að um rafræna kosningu verður að ræða og munu kjörgögn berast sjómönnum eftir helgina með leiðbeiningum um hvernig á að kjósa. Sjómannadeild VLFA vill vekja athygli á því að þeir sjómenn sem telja sig ekki hafa fengið kjörgögn í hendurnar fyrir lok næstu viku skulu setja sig í samband við skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness. Rétt er að taka það fram að smábátasjómenn heyra ekki undir þennan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og eru því ekki að kjósa um verkfall, enda fara kjör þeirra eftir öðrum kjarasamningi.

 

 

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness skorar á alla sjómenn að kjósa og sýna afstöðu sína í verki með því að segja já við verkfalli því við viljum fá sanngjarnan og réttlátan kjarasamnig við útgerðarmenn, en rétt er að geta þess að útgerðin skilar hreinum hagnaði sem nemur einum milljarði í hverri viku!

 

 

2. júní 2016
28. apríl 2016
24. mars 2016
0
0