• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Nov

Verkalýðsfélögin og Norðurál ætla að kanna hvort þeir verktakar sem vinna að stækkun Norðuráls séu ekki að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði !

Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá óskuðu forsvarsmenn Norðuráls eftir að funda með Verkalýðsfélagi Akraness og öðrum félögum sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.  Forsvarsmenn Norðuráls vildu upplýsa stéttarfélögin um að fyrirtækið krefjist þess að verktakar sem vinni að stækkun álversins fylgi í einu og öllu lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, enda komi þessi krafa skýrt fram í samningum Norðuráls við verktaka sína. Á fundinum kom fram að Norðurál líti það mjög alvarlegum augum ef þeir verktakar sem vinna við stækkun álversins fylgi ekki þessum samningum. Norðurál gaf jafnframt út þá yfirlýsingu að þeir muni, að gefnu tilefni, afla frekari gagna hjá verktökum sínum um þá erlendu starfsmenn sem vinni að stækkun álversins. Formenn stéttarfélaganna og forsvarsmenn Norðuráls munu funda aftur fljótlega til að fara betur yfir málin. 

Verkalýðsfélag Akraness vill taka ofan af fyrir forsvarsmönnum Norðuráls í þessu máli og skorar á aðra vinnuveitendur að taka þá sér til fyrirmyndar í þessu efni.  

04
Nov

Útlit að málefni pólsku starfsmannanna sem starfa á Grundartangasvæðinu muni fá farsælan endi

Rétt í þessu var að ljúka fundi Verkalýðsfélags Akraness með forsvarsmönnum Ístaks.  Tilefni fundarins var að fara yfir málefni pólsku starfsmannanna sem hingað komu til starfa í gegnum starfsmannaleiguna 2b og starfa hjá Ístaki á Grundartanga.  Fundur var afar gagnlegur og einnig ánægjulegur.  Málefni pólsku starfsmannanna er í góðum farvegi og er allt útlit að þeirri óvissu sem ríkt hefur um pólsku starfsmennina muni fá farsælan endi strax á mánudag eða þriðjudag.  En stéttarfélagið vinnur að lausn málsins í fullri samvinnu við forsvarsmenn Ístaks.  

03
Nov

Fundað með forsvarsmönnum Norðuráls á morgun

Forsvarsmenn Norðuráls hafa boðað Verkalýðsfélag Akraness og þau stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál til fundar á  morgun.  Það er hinn nýi starfsmannastjóri Norðuráls  Rakel Heiðmarsdóttir sem boðar til fundarins.  Eitt af þeim málum sem  forsvarsmenn Norðuráls vilja ræða um er um þá erlendu starfsmenn sem eru að vinna við stækkun Norðuráls hjá hinum ýmsu verktökum á Grundartangasvæðinu.  Forsvarsmenn Norðuráls vilja fara yfir málið með stéttarfélögunum því þeir vilja og gera kröfu um að þeir verkatakar sem starfa við stækkun Norðuráls fari í hvívetna eftir lögum og þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.  Og einnig að hinum erlendu starfsmönnum sem starfa við stækkun Norðuráls séu greidd laun eftir íslenskum kjarasamningum.   Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari afstöðu Norðuráls innilega.   þessi afstaða  hjálpar stéttarfélaginu klárlega við að koma í veg fyrir að einstaka verktakar og fyrirtæki komist upp með fara ekki eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

01
Nov

Vinnumálastofnun staðfestir að starfsmannaleigan 2B fari ekki eftir lögum !

Borist hefur yfirlýsing frá Gissuri Péturssyni forstjóra Vinnumálastofnunar um túlkun og framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þar með er staðfest af hálfu Vinnumálastastofnunar að þeir starfsmenn starfsmannaleigunnar 2B sem starfa hér á grundvelli þjónustusamninga eru ólöglegir. Nú er liðin rúm vika  síðan Verkalýðsfélag Akraness og Félag-iðn og tæknigreina fóru með kæru til sýslumannsins í Borgarnesi vegna ólöglegs vinnuafls 2B sem starfar við stækkun Norðuráls á Grundartanga.  Því miður virðist lítið gerast þótt afstaða Vinnumálastofnunar sé hvell skýr í þessu máli.

Yfirlýsing Gissurar er svohljóðandi:

Frá Vinnumálastofnun um túlkun laga um atvinnuréttindi.

Með vísan til fyrirspurnar Alþýðusambands Íslands skal það upplýst að Vinnumálastofnun túlkar og framkvæmir lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 á þann veg að fyrirtæki með staðfestu á Íslandi, sem óskar eftir erlendu vinnuafli frá hinum nýju ríkum Evrópusambandsins eða ríkjum sem standa utan EES verður að sækja um atvinnuleyfi sbr. lög 97/2002 og dvalarleyfi sbr. lög um útlendinga nr. 96/2002.  Breytir þá engu hvort fyrirtækið er starfsmannaleiga eða stundar annars konar starfsemi.  

Virðingarfyllst,

Gissur Pétursson forstjóri

01
Nov

Verkalýðsfélag Akraness fundaði með pólsku starfsmönnunum sem starfa á vegum starfsmennaleigunnar 2b í gærkveldi

Verkalýðsfélag Akraness ásamt fulltrúa ASÍ funduðu með pólsku starfsmönnunum sem hingað komu til starfa í gegnum starfsmannaleiguna 2b.  Umræddir starfsmenn eru að störfum hjá Ístaki og Fagsmíði við stækkun Norðuráls að Grundartanga.  Fundurinn var haldinn að Arnarholti á Kjalarnesi en þar gista pólsku starfsmennirnir.  Þessi fundur var haldinn að ósk pólsku starfsmannanna sjálfra.  Þegar fundurinn átti að hefjast kom eigandi starfsmannaleigunnar 2b og óskaði eftir að fá að sitja fundinn þar sem um starfsmenn 2b væri um að ræða.  Verkalýðsfélag Akraness og fulltrúi ASÍ mótmæltu þessu algerlega og sögðu að fundurinn yrði marklaus ef eigandi 2b myndi sitja fundinn.  Varð það að samkomulagi að starfsmennirnir sjálfir myndu ákveða hvort eigandi 2b  yrði með á  fundinn eða ekki.  Með stéttarfélaginu var pólskur túlkur og bað hún þá starfsmenn sem vildu að eigandi starfsmannaleigunnar 2b yfirgæfi fundinn, að rétta upp hönd.   Allir pólsku starfsmennirnir réttu upp hönd.  Að því loknu yfirgaf eigandi starfsmannaleigunnar fundinn.

Því næst var farið yfir stöðuna með pólsku starfsmönnunum eins og hún er þessa stundina.  Ekki fór á milli mála að pólsku starfsmennirnir eru verulega uggandi um sinn hag og hafa miklar áhyggur af framvindu mála.  Á fundinum afhentu starfsmennirnir tímaskriftir vegna vinnu sinnar frá því þeir komu hingað til lands.  Einnig upplýstu starfsmennirnir hversu mikið þeir hafa fengið greitt frá því þeir hófu störf hjá starfsmannaleigunni 2b.  Kom fram hjá tveimur starfsmönnunum að þeir byrjuðu að starfa hjá starfsmannaleigunni 2b 8 september og hafi einungis fengið 95 þúsund krónur útborgað og engan launaseðil fengið né séð.   Í dag verður farið ítarlega yfir þessi gögn ásamt því að frekari gagna verður aflað.

28
Oct

Fyrirtækjasamningur Fangs samþykktur með öllum greiddum atkvæðum !

Fyrirtækjasamningur við Fang ehf. var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum og virðist starfsmenn vera mjög ánægðir með samning ef marka má kosningu um samning.  En á kjörskrá voru 13 starfsmenn og 10 starfsmenn kusu eða 77%.  Já sögðu 10 starfsmenn eða 100%

Verkalýðsfélag Akraness vill enn og aftur þakka trúnaðarmanni Fangs sem og öllum starfsmönnum fyrir aðstoðina við gerð þessa samnings sem er heilt yfir mjög góður fyrir starfsmenn Fangs.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image