• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

29
Mar

Samningaviðræður hefjast aftur eftir páskafrí um nýjan kjarasamning Norðuráls

Samningafundur verður haldinn á morgun í kjaraviðræðum við forsvarsmenn Norðuráls, fundað verður í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Á fundinum á morgun munu samningsaðilar taka upp þráðinn þar sem skildu við hann rétt fyrir páska

29
Mar

Fundað var með trúnaðartengiliðum Norðuráls í morgun

Samninganefnd stéttarfélaganna fundaði í morgun með trúnaðartengiliðum starfsmanna Norðuráls.  Tilefni fundarins var að fara yfir stöðuna í kjaraviðræðunum sem átt hafa sér stað við forsvarsmenn Norðuráls á undanförnum vikum og mánuðum.  Það kom mjög skýrt fram hjá trúnaðartengiliðunum í morgun,  að starfsmenn séu almennt búnir að bíða nokkuð lengi eftir því að núverandi kjarasamningur rynnu út.  Því eins og starfsmenn segja réttilega:  ,,ef launakjör og önnur kjaraatriði verða ekki lagfærð nú og samræmd á við sambærilegar verksmiðjur, þá muni það vart gerast í náinni framtíð"  Þetta er skoðun starfsmanna og  Verkalýðsfélag Akraness tekur heilshugar undir þessa skoðun starfsmanna.  Hagfræðingur ASÍ hefur nýlokið við að gera launasamanburð á sambærilegum verksmiðjum og Norðuráli.  Í þessum samanburði kemur alveg skýrt fram að um umtalsverðan launamun er um að ræða.  Þessi mikli launamunur er vandinn í þessum kjaraviðræðum, og þann vanda  verður samningsaðilum að takast að leysa 

23
Mar

Eru samningsforsendur kjarasamnings á hinum almenna markaði kolbrostnar ?

Nú er rétt rúmt ár liðið síðan aðildarfélög innan  Starfsgreinasambands Íslands undirrituðu kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.  Verkalýðsfélag Akraness var eitt af þeim fáu stéttarfélögum innan SGS sem ekki sáu sér fært að undirrita kjarasamninginn 7. mars 2004.  Var það mat Verkalýðsfélag Akraness að þessi samningur væri alltof rýr en heildarkostnaðaráhrif samningsins var 15,7% á samningstímabilinu.  Í kjarasamningum á hinum almenna markaði var gert samkomulag á milli samningsaðila um hver skyldu vera samningsforsendur samningsins.  Orðrétt segir um samningsforsendur samningsins.  ,,Markmið aðila með samningi þessum er að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og jafnvægi á vinnumarkaði, sem hvort tveggja er grundvöllur uppbyggingar og fjölgunar starfa"  Í samræmi við þessi markmið hvílir samningur þessi á eftirfarandi forsendum:

  1. ,,Að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
  1. Að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.”

Einnig segir í ákvæðinu um samningsforsendur.  ,,Fari svo á samningstímanum að ofangreindar forsendur bregðist geta aðilar samningsins skotið málinu til sérstakar forsendunefndar sem sett verður á fót til að stuðla að framgangi markmiða samningsins og festa forsendur hans í sessi" 

,,Forsendunefndin skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af ASÍ og tveimur af SA og skal hún þegar taka til starfa.  Verkefni hennar er að meta hvort ofangreindar forsendur standist og markmið náist .  Nefndin skal jafnframt leita eftir samstarfi við stjórnvöld um það að fylgjast með þróun sem ógnað geti forsendum samningsins og eftir atvikum setja fram tillögur um viðbrögð þar sem við á

Nefndin skal taka samningsforsendur til sérstakrar skoðunar fyrir 15. nóvember árin 2005 og 2006.  Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að marktæk frávik hafi orðið frá annarri eða báðum ofangreindra forsendna getur annað tveggja gerst.  Ef samkomulag næst í nefndinni um viðbrögð getur hún úrskurðað að samningurinn haldi gildi sínu, að teknu tilliti til niðurstöðu nefndarinnar.  Ef ekki næst samkomulag um viðbrögð er samningurinn uppsegjanlegur af hálfu samningsaðila.  Uppsögn skal ákveða fyrir 10. desember og telst samningurinn þá vera laus frá næstkomandi áramótum að telja"

 Það er mat Verkalýðsfélag Akraness að samningsforsendur séu klárlega brostnar og rúmlega það.  Samningsforsendurnar eru eftirfarandi:

  1. Að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands sem er 2,5% verðbólga á ársgrundvelli. 
    • Nú réttu ári eftir samninga er verðbólgan komin í 4,7%  Fátt sem bendir til á þessari stundu að verðbólga sé á undanhaldi því miður.  Þessi samningsforsenda er því klárlega brostin, nema eitthvað verulega óvænt gerist á allra næstu mánuðum.
  1. Seinna markmiðið var að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.  Eins og áður hefur komið fram þá voru heildarkostnaðaráhrif samningsins á samningstímabilinu 15,7%. 

Flest allir hópar sem hafa samið eftir almenna markaðnum hafa fengið meira heldur 15,7%.  Flestir hópar hafa verið að semja frá 18% og upp í rúm 21% þó dæmi séu um eins hærri prósentutölur eins og grunnskólakennar sem fengu 27%.  Síðan hafa allar stóriðjurnar Alcan, Íslenska járnblendifélagið og Sementsverksmiðjan samið um frá 19% upp í 21% við sína starfsmenn.  Það liggur því einnig alveg ljóst fyrir að samningsforsendur kjarasamningsins á hinum almennamarkaði eru kolbrostnar.  Forsendunefndin mun taka samningsforsendurnar til sérstakrar skoðunar fyrir 15. nóvember.  Þegar það verður gert þá verða fulltrúar verkafólks í forsendunefndinni að gera skýlausa kröfu, um að almennt verkafólk fái leiðréttingu á sínum kjarasamningi og taki sú leiðrétting mið af  kjarasamningum sem aðrir hópar  hafa verið að gera,  á undanförnum dögum vikum og mánuðum. Annað er ekkert nema sanngirni.  Það er ekki endalaust hægt að láta þá lægst launuðu axla eina þá ábyrgð að viðhalda stöðugleikanum í þessu þjóðfélagi, nú er nóg komið !

23
Mar

Kjarasamningurinn við Íslenska járnblendifélagið samþykktur með miklum mun

Kjarasamningurinn við Íslenska járnblendifélagið var samþykktur með miklum mun.  Talningu lauk rétt í þessu, talningin fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Niðurstaðan úr kosningunni er eftirfarandi:

  • Á kjörskrá voru 97, það greiddu 75 starfsmenn atkvæði eða 77.3%
  • Já sögðu 56 starfsmenn eða 74.6%
  • Nei sögðu 19 starfsmenn eða 25.4%

Verkalýðsfélag Akraness vill þakka aðaltrúnaðarmanni, trúnaðartengiliðum, samninganefndinni og síðast en ekki síst öllum þeim fjölmörgu starfsmönnum sem lögðu sitt að mörkum til að þessi erfiða kjaradeila myndi leysast.

22
Mar

Niðurstaða mun liggja fyrir í fyrramálið hvort samningurinn við Íslenska járnblendifélagið hafi verið samþykktur eða ekki

Úrslit í kosningu um kjarasamning Íslenska járnbendifélagsins mun liggja fyrir rétt rúmlega tíu í fyrramálið.  Talningin hefst kl 10:00 og talið verður í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gengu kynningarfundirnir mjög vel fyrir sig.   Virtust starfsmenn vera sæmilega sáttir við þann viðauka sem náðist tilviðbótar, kjarasamningum sem var undirritaður 1. febrúar.  Þó vissulega hefðu starfsmenn viljað meira.  Heildarkostnaðaráhrif samnings á samningstímanum er 21%

21
Mar

Starfsmannafélag Norðuráls sendi frá sér ályktun um stuðning við stéttarfélögin í yfirstandandi kjaraviðræðum

Samninganefnd stéttarfélaganna barst ályktun frá aðalfundi starfsmannafélags Norðuráls í morgun, ályktunin hljóðar svona.

"Aðalfundur Starfsmannafélags Norðuráls lýsir yfir fullum stuðningi við samninganefnd stéttarfélaganna í yfirstandandi kjaraviðræðum. Sambærileg laun og vinnutími og sambærilegur iðnaður.  Það er lágmarkskrafa."

  Krafa starfsmanna er skýr sambærileg laun og sambærilegar verksmiðjur og eins oft hefur komið fram hér á heimsíðunni vinnur Verklýðsfélag Akraness eftir þeirri kröfu starfsmanna.   Verklýðsfélag Akraness fagnar þessari ályktun innilega, því það er afar mikilvægt að vita  nákvæmlega hver vilji starfsmanna er í þessari kjarasamningsgerð, og alltaf gott að vita af stuðningi starfsmanna

20
Mar

Verkalýðsfélag Akraness hefur lokið við að kynna nýgerðan viðauka við kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins

Í dag lauk kynningu fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins á þeim viðauka sem gerður var við kjarasamning Íj.  Það var C vaktin sem fékk sína kynningu í dag.  Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hafa allar kynningarnar gengið mjög vel fyrir sig.  Verkalýðsfélag Akraness hvetur alla starfsmenn ÍJ til að nýtta kosningarétt sinn og kjósa um nýgerðan kjarasamning.  Talning mun fara fram hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn kemur og hefst talningin kl 10:00.

18
Mar

Kynningarfundir vegna kjarasamnings Íslenska járnblendifélagsins hafa gengið mjög vel

Tveir kynningarfundir voru haldnir í dag um nýgerðan viðauka við kjarasamning Íslenska járnblendifélagsins. Fyrst voru það E vaktarmenn sem hlýddu á formann félagsins fara yfir samninginn og þann viðauka sem við samninginn var gerður, hófst fyrri kynningin  kl 13:00. Seinni kynningin var kl 16:00 og voru það starfsmenn af  D vaktinni sem þá mættu.  Í gærkveldi voru það dagmennirnir sem fengu sína kynningu.   Allar kynningarnar hafa gengið  mjög vel fyrir sig, og er afar ánægjulegt að sjá hversu  góð mæting starfsmanna er á  kynningarnar.  Síðasta vaktin sem fær kynningu á samningum er C vaktin.   Sú kynning fer fram á sunnudaginn nk, og hefst kl. 16:00.   Talning í kosningunni mun fara fram hjá ríkissáttasemjara á miðvikudaginn kemur og hefst talningin kl.10:00. Niðurstöður úr kosningunni verða birtar hér á heimasíðunni um leið og úrslit verða kunn.   

17
Mar

Í byrjun vikunnar hélt Verkalýðsfélag Akraness námskeið um fjármál heimilanna

Verkalýðsfélag Akraness bauð félagsmönnum sínum upp á námskeið um fjármál heimilanna.  Leiðbeinandi á námskeiðinu var starfsmaður frá Ráðgjafastofu heimilanna.  Námskeiðið þóttist takast í alla staði mjög vel.

17
Mar

Mikill fjöldi félagsmanna nýtti sér þjónustu félagsins við gerð skattaframtala

Mikill fjöldi félagsmanna hefur nýtt sér þjónustu félagsins og fengið aðstoð við gera skattaframtöl sín.  Þessi þjónusta sem núverandi stjórn ákvað að ráðast í hefur mælst mjög vel fyrir hjá félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness.   Hefur stjórn félagsins ákveðið að bjóða uppá þessa þjónustu fyrir fullgilda félagsmenn ár hvert. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image