• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

03
Apr

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld að afnema alls ekki takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES 1. maí nk.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness skorar á íslensk stjórnvöld að afnema alls ekki takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES 1. maí nk. eins heimilt verður að gera.  Formaður VLFA mælir eindregið með því að íslensk stjórnvöld nýti sér þar heimildir sem fyrir eru og framlengi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES um þrjú ár til viðbótar, líkt og Þýskaland, Frakkland, Austurríki og Danmörk hafa nú þegar gert.

Það er mat formanns VLFA að íslensk stjórnvöld séu ekki á nokkurn hátt tilbúin að taka við þeim gríðarlega fjölda erlendra starfsmanna sem hingað munu streyma verði frjáls för frá þessum löndum heimiluð.  Það kom einnig fram í útvarpsviðtali við Gissur Pétursson forstjóra Vinnumálastofnunar á dögunum  að hann telji að íslensk stjórnvöld eigi að fara afar varlega í að opna landið alfarið fyrir erlendu vinnuafli vegna þess að stjórnvöld  séu ekki tilbúin með það regluverk sem til þarf.

Það er líka alveg lágmark að íslensk stjórnvöld verði búin að láta þýða íslenska kjarasamninga fyrir launafólk frá þessum nýju aðildarríkum EES áður en takmörkunum verður aflétt.  Reynslan hefur sýnt okkur að til eru atvinnurekendur hér á landi sem víla sér ekki við að misbjóða erlendu vinnuafli bæði hvað varðar aðbúnað og önnur launakjör.    

30
Mar

Starfsmenn Norðuráls munu fá bónus vegna uppstartsins !

Í morgun tilkynntu forsvarsmenn Norðuráls hér á landi að eigendur Norðuráls hefðu ákveðið að greiða starfsmönnum bónus vegna uppsetningar á nýjum bræðslukerjum í álverinu.  Bónusinn verður greiddur starfsmönnum þegar uppstartinu verður lokið, en ekki liggur fyrir á þessari stundu hversu há bónusgreiðslan mun verða.  Árið 2001, þegar uppsetning fór fram á nýjum bræðslukerjum síðast, fékk starfsmaður með þriggja ára starfsreynslu 58.000 þúsund króna greiðslu vegna uppstartsins. 

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari ákvörðun eigenda Norðuráls og vonast til að greiðslan fyrir uppstartið núna verði ekki lakari en hún var árið 2001.   

29
Mar

Verulegrar gremju gætir hjá starfsmönnum Norðuráls

Eins fram kemur í Blaðinu í dag þá gætir verulegrar gremju hjá starfsmönnum Norðuráls með þá ákvörðun eigenda Norðuráls að greiða ekki svokallaðan startup-bónus eins og gert var þegar uppstart átti sér stað árið 1998 og einnig 2001.  Formönnum stéttarfélaganna sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls ásamt aðaltrúnaðarmanni var tilkynnt þessi ákvörðun eigenda fyrirtækisins á fundi sem var haldinn fimmtudaginn 23. mars sl.  Það var framkvæmdastjóri tæknisviðs og starfsmannastjóri Norðuráls sem kynntu þessa ákvörðun eigenda fyrirtækisins.

Í viðtali við Ragnar Guðmundsson  framkvæmdastjóra fjármála-og stjórnunarsviðs í Blaðinu í dag segir hann að málið sé byggt á misskilningi.  Ragnar segir að eigendur Norðuráls hafi ekki tekið ákvörðun ennþá hvort greiddur verði startup-bónus með sambærilegum hætti og gert var 1998 og 2001.  Einnig sagði Ragnar í viðtalinu að einhverjir sem sátu fundinn í síðustu viku hafi rangtúlkað það sem framkvæmdastjóri tæknisviðs hafi sagt.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að hér er ekki um neina mistúlkun að ræða í þessu máli.  Það kom hvell skýrt frá hjá  forsvarsmönnum Norðuráls sem sátu þennan fund 23. mars að eigendur Norðuráls ætluðu ekki að greiða startup-bónus.  Aðaltrúnaðarmaður Norðuráls sem sat umræddan fund lagði nákvæmlega sama skilning og formaður VLFA í orð forsvarsmanna Norðuráls þ.e. að eigendur Norðuráls myndu ekki greiða startup-bónus til starfsmanna.  Þannig að hér er ekki um neinn misskilning um að ræða af hálfu fulltrúa stéttarfélaganna í þessu máli.

Vissulega er það gleðiefni ef eigendur Norðuráls eiga eftir að taka ákvörðun í þessu máli og ef svo er þá hafa stjórnendur Norðuráls hér á landi misskilið eigendur Norðuráls í þessu máli.  Ekki fulltrúar stéttarfélaganna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vonast til að eigendum Norðuráls beri gæfa til að umbuna því frábæra starfsfólki sem það hefur í sinni þjónustu með veglegri bónusgreiðslu vegna þess gríðarlegs álags sem fylgt hefur umræddu uppstarti.

28
Mar

Gengið frá samkomulagi um fría læknisþjónustu fyrir félagsmenn VLFA sem starfa á sjúkrahúsi Akraness

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gekk frá samkomulagi við forsvarsmenn sjúkrahús Akraness í gær.  Félagsmenn VLFA sem starfa á sjúkrahúsi Akraness munu eiga rétt á endurgreiðslu ef þeir þurfa að nýta sér læknisþjónustu sem veitt er innan stofnunarinnar.

Í þessu  samkomulagi sem undirritað var í gær er verið að skerpa á fyrra samkomulagi sem starfsmenn höfðu.  Einnig er verið að fjölga þeirri læknisþjónustu sem SHA mun endurgreiða fyrir ef starfsmenn þurfa á henni að halda.

Hægt er að lesa samkomulagið með því að smella á meira. 

Samkomulag milli Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi - SHA, Merkigerði 9 Akranesi og Verkalýðsfélags Akraness - VLFA, Sunnubraut 13 Akranesi um læknisþjónustu.

 

1. grein.

 

Þeir starfsmenn sem voru í starfi fyrir gildistöku samnings sem gerður var á milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Verkalýðsfélags Akraness og undirritaður var 4.apríl 2004 eiga rétt á endurgreiðslu vegna læknisþjónustu sem veitt er innan stofnunarinnar.  Er hér átt við þá læknisþjónustu sem tilgeind er í 2. grein samkomulagsins og samræmist ákvæðum kjarasamnings.  Samkomulag þetta haldist til og með 31.03 2008 en falli þá niður.

Í grein 6.1 um laun í veikindum segir m.a.:

2. grein.

 

Með samkomulagi þessu fellst SHA á að endurgreiða starfsmönnum innan VLFA útlagðan kostnað þeirra vegna læknisþjónustu sem hér tilgreinir, svo fremi sem ákvæði 1. greinar samkomulagsins sé uppfyllt.

            Viðtöl og skoðanir hjá sérfræðilæknum sjúkrahússins.

            Viðtöl og skoðanir hjá heilsugæslulæknum heilsugæslustöðvarinnar.

            Aðgerðir hjá sérfræðilæknum sjúkrahússins.

Valaðgerðir starfsmanna og lýtalækningar eru undanskilin samkomulagi    þessu.

Komugjöld á Rannsóknadeild, Röntgendeild og Slysastofu.

 

Samkomulagið nær til þeirra lækna sem eru í starfi hjá SHA og leigja ekki út aðstöðu fyrir sjálfstæða starfsemi og læknisþjónustu, heldur sinna göngudeildarþjónustu sem starfsmenn SHA (sjá fylgiskjal).    

3. grein.

 

Aðilar samkomulagsins eru sammála um að endurgreiðslur taki mið af gildistíma samkomulags þessa.

 

4. grein.

 

Gildistími samkomulags þessa er frá 27. mars 2006 og gildir til og með 31. mars 2008. 

 

 

Akranesi, 27 mars 200         

Guðjón S. Brjánsson, framkvæmdastjóri SHA  Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA

 

 

 

Fylgiskjal með samkomulagi á milli SHA og VLFA um endurgreiðslu á lækisþjónustu frá 27. mars 2006.

 

Eftirtaldir læknar eru í starfi  hjá SHA þann 27. mars 2006 án þess að leigja út aðstöðu fyrir sjálfstæða starfsemi og læknisþjónustu, sinna göngudeildarþjónustu sem starfsmenn SHA.  Það er stefna SHA að allir læknar muni sinna læknis- og gögnudeildarþjónustu í nafni stofnunarinnar.

 

Sjúkrahús.

                        Stefán J. Helgason                    Fæðingar- og kvensjúkdómar.

                        Þorkell Guðbrandsson                Lyflækningar – hjartasjúkdómar.

                        Jón Atli Árnason                       Lyflækningar – gigtarsjúkdómar.

                        Atli Einarsson                            Lyflækningar – hjartasjúkdómar.

                        Ólafur Þór Gunnarsson              Lyflækningar – öldrunarlækningar.

                        Þorvaldur Magnússon                Lyflækningar – nýrnasjúkdómar.

           

Heilsugæsla.

                        Reynir Þorsteinsson                   Heilsugæsla.

                        Þórir Þórhallsson                       Heilsugæsla.

                        Guðbjörn  Ó. Björnsson             Heilsugæsla.

(á við alla starfandi lækna heilsugæslustöðvar)

25
Mar

Ingunn með fullfermi af kolmunna

Rétt í þessu var Ingunn Ak að leggjast að bryggju með fullfermi af kolmunna, en skipið tekur rétt rúm 2000 tonn.  Aflinn veiddist á Rockhallsvæðinu.  Ingunn er ekki eina skipið sem kom með kolmunna til bræðslu hér á Akranesi í dag því færeyska skipið Norðvík landaði fyrr um daginn vel á annað þúsund tonnum. 

Það er afar ánægjulegt að sjá hversu mikið er um að vera í síldarbræðslunni  þessa daganna, en engum kolmunna var landað á Akranesi í fyrra.  Það leiddi af sér verulegan samdrátt á launum starfsmanna síldarbræðslunnar, og eðlilega er hljóðið mun betra í bræðslukörlunum núna heldur en á sama tíma í fyrra.

Formaður félagsins fór og tók nokkra skipverja á Ingunni tali þegar þeir lögðust að bryggju í dag.  Flestir skipverjarnir á Ingunni tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness.  Hljóðið í skipverjum var bara nokkuð gott.  Fram kom hjá skipverjum að það væri mun þægilegra að landa aflanum í heimahöfn með því ná skipverjarnir örlitlu samneyti með sínum fjölskyldum, rétt á meðan landað er úr skipinu en það tekur um 20 tíma.   Einnig kom fram hjá skipverjunum að töluvert væri af kolmunna á svæðinu og vel hafi gengið að fylla skipið.   Sigling á miðin er nokkuð löng en hún tekur um tvo sólahringa

24
Mar

Fundað með forsvarsmönnum Norðuráls

Formenn stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls funduðu í gær með forsvarsmönnum Norðuráls ásamt aðaltrúnaðarmanni.  En ágreiningur hefur verið um hvernig reikna eigi út ávinnslu orlofs hjá starfsmönnum.  Einnig hefur verið ágreiningur um hvaða þættir eigi að hafa áhrif á bónus starfsmanna. 

Þessi mál voru rædd í gær og í flestum málunum náðist niðurstaða sem báðir samningsaðilar voru ásáttir með.  T.d. varð það að niðurstöðu að vaktavinnumenn sem vinna 14 vaktir á mánuði munu eiga eftirfarandi orlofsrétt hjá fyrirtækinu:

Fyrstu 5 árin,       sumar 14 vaktir og vetrarfrí 10 vaktir

Milli 5 og 10 ár,    sumar 14 vaktir og vetrarfrí 12 vaktir

Eftir 10 ára starf, sumar 14 vaktir og vetrarfrí 13 vaktir  

22
Mar

Skýlaus krafa um að íslensk stjórnvöld fresti frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkum EES um allt að þrjú ár í viðbót

Eftir rúman mánuð, nánar tiltekið 1.maí 2006, falla úr gildi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.  Það þýðir að ríkisborgarar frá Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu,Tékklandi og Ungverjalandi munu ekki þurfa að sækja um atvinnuleyfi hér á landi eins og verið hefur.

Eins og staðan er núna þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir ríkisborgara frá þessum löndum sem hingað koma til starfa.  Það tryggir að stéttarfélögin geta fylgst með að erlendum starfsmönnum séu tryggð lágmarkskjör sem eru í gildi samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Ef félagsmálaráðuneytið mun aflétta þessum takmörkunum 1. maí nk. þá munu stéttarfélögin ekki sjá neina ráðningarsamninga frá erlendu starfsmönnunum og munu þar af leiðandi eiga í töluverðum vandræðum með að tryggja að kjarasamningar séu virtir.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er afar undrandi á að félagsmálaráðuneytið hafi ekki ennþá tekið ákvörðun um hvað gera skuli eftir 1. maí nk. varðandi takmarkanir á frjálsri för launafólks frá ofangreindum löndum.   Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld hafa rétt til að framlengja aðlögunarfrestinn um allt að þrjú ár til viðbótar.  Það hafa t.d Þýskaland, Frakkland og Austurríki ákveðið að gera.

Það er  mat formanns félagsins að  íslensk stjórnvöld eigi skýlaust að fylgja fordæmi þessa þriggja landa og framlengja aðlögunartímann um þrjú ár.    Það er einnig mat formannsins að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum afnema þær takmarkanir sem nú eru í gildi varðandi frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkum EES.  

Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft þurft að hafa afskipti af fyrirtækjum sem mismuna erlendum starfsmönnum gróflega bæði hvað varðar aðbúnað sem og launakjör.  Einnig hrinti ASÍ þann 1. maí 2005 af stað átaki undir nafninu Einn réttur ekkert svindl.  Það var gert vegna þess að mjög mörg dæmi voru um að gróflega væri verið að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna.   Hægt að lesa meira með því að smella á meira.

Sem dæmi þá er einungis einn mánuður síðan Vinnumálastofnun afturkallaði atvinnuleyfi hjá sex Litháum en verktaki hér á Akranesi hafði Litháana í sinni þjónustu.  Vinnumálastofnun afturkallaði atvinnuleyfin vegna margvíslegra brota verktakans. 

Því er afar mikilvægt að búið verði til sérstakt regluverk er varðar eftirlit með aðbúnaði og starfskjörum erlends verkafólks.  Það þarf einnig að veita stéttarfélögum mun víðtækari heimildir til gagnaöflunar leiki grunur á um að verið sé að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna, en oft hefur reynst erfitt að fá gögn frá atvinnurekendum þegar grunur leikur  á broti.   Einnig er mjög mikilvægt að haldin verði nákvæm skráning á öllu því erlenda vinnuafli sem hingað kemur til starfa.  Þessi atriði verða stjórnvöld að tryggja áður en takmörkunum verða aflétt.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur að reynslan hafi svo sannarlega sýnt okkur að stjórnvöld eru á engan hátt undir það búinn að hingað streymi erlent vinnuafl algjörlega án eftirlits. Myndi það  klárlega leiða til félagslegra undirboða og jafnvel auka á svarta atvinnustarfssemi.

Frjálst flæði verkafólks frá þessum löndum mun einnig skaða það markaðslaunakerfi sem víða gildir á íslenskum vinnumarkaði í dag.  Alla vega hræðist formaður VLFA það að atvinnurekendur muni í auknu mæli sækja í ódýrara vinnuafl og reynslan sýnir að erlent verkafólk hefur því miður oftar en ekki verið sett á lágmarkstaxta.  Það sjáum við í verkalýðshreyfingunni glögglega þegar atvinnurekendur sækja um atvinnuleyfi, meirihluti þeirra ráðningarsamninga sem fylgja atvinnuleyfunum sýna að erlendu starfsmönnum eru einungis greidd laun samkvæmt lágmarkstaxta.  

Vissulega vilja Samtök atvinnulífsins að stjórnvöld afnemi takmarkanir á nýjum aðildarríkjunum EES strax 1. maí nk.   Samtök atvinnulífsins vita að meirihluti erlends vinnuafls fer beint á lágmarkskjör og þannig komast atvinnurekendur hjá því að greiða þau markaðslaun sem eru í gildi á hinum ýmsu starfssvæðum.  

 

Eins og áður hefur komið fram þá má ekki undir neinum kringumstæðum afnema þær  takmarkanir sem nú er í gildi á frjálsu flæði verkafólks frá hinum nýju ríkum EES fyrr en búið verður að tryggja eftirfarandi:

  • Að bein ráðning sé meginregla vegna starfa á íslenskum vinnumarkaði.
  • Að erlent launafólk sem starfar hér á landi njóti sömu launa og starfskjara og annarra réttinda og þeir sem fyrir eru á vinnumarkaðnum.
  • Að fullnægjandi úrræði séu til staðar fyrir stéttarfélögin til að fylgjast með að kjarasamningar og lög séu virt og hægt sé að fylgja því eftir eins og nauðsyn krefur.
  • Að upplýsingar liggi fyrir um þá útlendinga sem hér eru að störfum, fjölda, hvaðan þeir koma, hverjir þeir eru, hvar þeir starfa og við hvað þeir starfa.

Þessi ofangreindu atriði eru grunnforsenda fyrir því að hægt sé að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks hingað til lands.

Það væri köld vatnsgusa framan í íslenskt verkafólk ef félagsmálaráðneytið myndi aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá nýjum ríkum ESS og það á baráttudegi launafólks, 1. maí.

21
Mar

Fullt á íslenskunámskeið sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir!

Í gær hófst íslenskunámskeið fyrir útlendinga sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir í samvinnu við Símenntunarstöð Vesturlands.  Það er skemmst frá því að segja að fullt er á námskeiðið eða 18 manns. 

Flestir koma frá Smellinn og Laugafiski eða 14 einstaklingar.  Námskeiðið kostar 26.600 og fullgildir félagsmenn VLFA fá starfsmenntastyrk sem nemur 75% af námskeiðsgjaldinu.  Bæði Smellinn og Laugafiskur ákváðu að bjóða sínum erlendu starfsmönnum þannig að kostnaður þeirra er enginn og fagnar Verkalýðsfélag Akraness þeirri ákvörðun fyrirtækjanna.

Það er afar mikilvægt að erlendir starfsmenn sem hingað koma til starfa nái einhverjum tökum á íslensku máli til að geta aðlagast íslensku samfélagi.  Það er enginn spurning að þeir útlendingar sem sækja námskeið af þessum toga verða mun betur í stakk búnir að fylgjast með hver réttindi sín eru á íslenskum vinnumarkaði. 

17
Mar

Nýir möguleikar á orlofshúsum verða í boði fyrir félagsmenn í sumar !

Nú er undirbúningur fyrir sumarið 2006 í hámarki á skrifstofu félagsins. Félagar eiga von á bæklingi inn um lúguna mjög fljótlega þar sem þeir geta sótt um orlofshús og íbúðir í sumar.

Helstu breytingar í sumar eru þær að bústaðirnir að Hlíð í Hvalfjarðarstrandahreppi og Klifabotni í Lóni detta út og í staðinn koma inn nýir bústaðir sem félagið hefur fengið leigða fyrir félagsmenn.

Í Úthlíð, Biskupstungum verða í boði bústaðirnir Breiðabunga og Stórabunga í nokkrar vikur í sumar. Hægt er að skoða myndir af þeim hér.

Einnig vorum við að fá bústað að Eiðum fyrir austan í leigu. Með honum fylgir bátur og veiðileyfi í Eiðavatni. Þó skal tekið fram að stutt er í sund á Egilstöðum ef veiði bregst. Hér er hægt að lesa lýsingu á þessum bústað.

Í Stykkishólmi er Verkalýðsfélagið áfram með í leigu vel búna íbúð í raðhúsi við Laufásveg. Húsið var byggt 2005 og hafa félagsmenn verið duglegir að nýta íbúðina í vetur. Hér er hægt að skoða myndir frá Stykkishólmi.

Auk nýju bústaðanna verða sem áður bústaðir okkar í Svínadal, Húsafelli, Ölfusborgum, Hraunborgum og íbúðirnar á Akureyri í sumarleigu.

Umsóknir um orlofshúsin þurfa að berast skrifstofu félagsins fyrir kl. 16:00 miðvikudaginn 12. apríl. Þeir sem fá úthlutað, fá það staðfest með bréfi.

16
Mar

Kolmunni berst til Akraness til bræðslu

Faxi RE 9 landaði hér á Akranesi í gær fullfermi af kolmunna til bræðslu.  Formanni félagsins var tjáð í gær af starfsmönnum síldarbræðslunnar að Ingunn AK væri einnig á leið til Akraness með fullfermi af kolmunna, eða um 2000 tonn.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá var engum kolmunna landað hér á Akranesi í fyrra.  Öllum kolmunna var landað á Vopnafirði.  Núna bregður hins vegar þannig við að mun styttra er af miðunum til Akraness heldur en til Vopnafjarðar.

Það hefur komið fram í máli forsvarsmanna HB Granda að einungis hagræðissjónamið eru látin ráða því hvar skip fyrirtækisins landa sínum afla.  Á þeirri forsendu eru skip fyrirtækisins væntanlega að landa afla sínum hér á Akranesi.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því að loksins sé kolmunni farinn að berast aftur til bræðslu hér á Akranesi. 

Hér er um umtalsverða hagsmuni að ræða fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar því tekjur starfsmanna byggjast fyrst og fremst á fjölda vakta sem starfsmenn fá yfir árið.  Verkalýðsfélag Akraness hefur bent á að töluverðir hagsmunir séu í húfi fyrir samfélagið hér á Akranesi hvað varðar löndun á uppsjávarafla, nægir þar að nefna tekjur starfsmanna síldarbræðslunnar og einnig tekjur hafnarinnar.

Í fyrra var gríðarlegur samdráttur á launum starfsmanna vegna þess að engum kolmunna var landað hér á Akranesi, sem leiddi af sér umtalsverða fækkun á vöktum starfsmanna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image