• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
20
Nóv

Forsetateymi ASÍ fundaði með seðlabankastjóra

Eins og allir vita þá er eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar, heimilanna, fyrirtækja og launafólks alls að tekið sé á verðtryggingu og okurvöxtum fjármálakerfisins. En rétt er að geta þess að bæði í kröfugerð Starfsgreinasambandsins og VR er kveðið á um að vextir þurfi að lækka og verðtrygging verði afnumin sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Það liggur t.d. fyrir að verkalýðshreyfingin hefur m.a. gagnrýnt Seðlabankann harðlega fyrir að hafa hækkað stýrivextina um 0,25% í síðustu stýrivaxtaákvörðun og nema þeir núna 4,50% sem er mjög hátt miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við.

Á þessari forsendu m.a. óskaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri eftir að funda með forsetateymi ASÍ og var sá fundur haldinn í gær. Á þessum fundi gagnrýndi formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrsti varaforseti ASÍ harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans og kom fram í máli hans að þessi ákvörðun væri alls ekki til þess fallin að auðvelda gerð nýs kjarasamnings.

1. varaforseti gagnrýndi harðlega þá hávaxtastefnu sem ríkir hér á landi en það liggur fyrir að íslensk heimili eru að greiða uppundir 3% hærri raunvexti af húsnæðislánum miðað við þau lönd sem við berum okkur saman við. En það þýðir að íslensk heimili sem skulda um 1900 milljarða eru að greiða um 66 milljörðum meira í vaxtakostnað á hverju ári miðað við þau vaxtakjör sem bjóðast t.d. á Norðurlöndunum. Hann benti seðlabankastjóra einnig á að af 35 milljóna húsnæðisláni væru neytendur að greiða á bilinu 70 til 100 þúsundum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði miðað við þau lönd sem við erum að bera okkur saman við.

1. varaforseti spurði hvað þyrfti að koma til svo að hægt yrði að lækka vexti til samræmis við það sem gerist t.d. á Norðurlöndunum og nefndi hann sem dæmi að þegar gengið var frá kjarasamningum 2015 hafi stýrivextir verið 4,25% en seðlabankinn hafi hækkað þá fljótlega í þremur áföngum upp í 5%. 1. varaforseti vildi fá svör við þessu frá seðlabankastjóra því frá kjarasamningum 2015 hafi verðbólgan verið langt undir neðri vikmörkum seðlabankans sem er 2,5% og ef húsnæðisliðurinn er tekinn út var bullandi verðhjöðnun allan samningstímann en þrátt fyrir þessa stöðu hafi Seðlabankinn ekki séð ástæðu til að lækka vextina sem neinu næmi.

Hann fór einnig yfir það að þessar stýrivaxtahækkanir séu alls ekki að virka sem skyldi enda liggur fyrir að stór hluti verðtryggðra skulda heimilanna eru með fasta vexti en hinsvegar bitnar þetta mest á unga fólkinu sem er að berjast við að kaupa sér sína fyrstu eign. Hann nefndi það einnig að það eina sem þessar vaxtahækkanir gerðu væri að færa fé frá þeim skuldsettu yfir til fjármálakerfisins sem og fjármagnseigenda.

Svör seðlabankastjóra voru afar rýr og byggjast á nákvæmlega sömu svörum og fram koma í rökstuðningi þegar ákvarðanir um stýrivaxtahækkanir eru teknar.  Hann sagði einnig að síðasta stýrivaxtahækkun uppá 0,25% væri gerð fyrir lágtekjufólk til að vernda það fyrir þeim verðbólguþrýstingi sem nú væri komin upp.  Þessum rökum mótmælti 1. varaforseti harðlega  en varaforseti kom öllum sínum áherslum vel á framfæri og ítrekaði að lækkun vaxta og afnám verðtryggingar sem og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu séu eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar og heimilanna og ekkert verður gefið eftir í þeirri baráttu.

19
Nóv

SGS fundaði með Samtökum atvinnulífsins

Á síðasta föstudag kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman til samningafundar með Samtökum atvinnulífsins en nú er farið að styttast illilega í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði verði lausir en það er um næstu áramót eins og flestir vita.

Á þessum fundi gerðist afar lítið en formaður Verkalýðsfélags Akraness lagði gríðarlega áherslu á að núna myndu samningsaðilar spýta verulega í lófana og funda jafnt og þétt til að reyna að ná samningum.

Formaður VLFA fór yfir að þegar ákveðið var að segja ekki upp samningum á formannafundi ASÍ sem haldinn var 28. febrúar þrátt fyrir að grófur forsendubrestur hafi átt sér stað hafi samningsaðilar talað um að taka upp öguð og vönduð vinnubrögð og hefja strax vinnu að nýjum kjarasamningi. Það hefur hins vegar ekki gerst þrátt fyrir að forsvarsmenn SA hafi nefnt mikilvægi þess að byrja viðræður að nýjum samningi 1. maí og því hljómar allt tal um öguð og vönduð vinnubrögð afar illa í eyrum formanns VLFA.

Formaður VLFA nefndi sem dæmi að SGS hafi lagt fram kröfugerð sína fyrir 5 vikum síðan og ekkert hafi heyrst eða gerst sem heitið getur allan þann tíma. Því lagði formaður VLFA til og var það samþykkt að fundað yrði stíft fram til 10. desember og þá ætti að vera komið í ljós hvort samningsaðilar nái saman eða séu í það minnsta að nálgast hvorn annan. Ef það liggur fyrir að SA og SGS séu langt frá hvoru öðru hvað samningsvilja varðar er ljóst að málinu verður vísað til ríkissáttasemjara um miðjan desember og allt eins líklegt að undirbúningur að átökum hefjist ef ekkert gerist hjá sáttasemjara.

Það er allavega morgunljóst að vinnubrögð eins og hafa tíðkast þar sem menn dútla og gaufa við samningsgerðina er liðin tíð og því mikilvægt að reyna til 10. desember hvort hægt sé að ná saman eða ekki enda telur formaður VLFA það ekkert vera ýkja flókið að sjá hvort einhvern samningsvilja sé að finna af hálfu atvinnurekenda.

12
Nóv

Níðst á ungu fólki með húsnæðisvöxtum

Það er engum blöðum um það að fletta að það er ákall frá alþýðunni og íslenskum heimilum að tekið verði á okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum í komandi kjaraviðræðum við stjórnvöld. Það er ákall um róttækar kerfisbreytingar þar sem kallað verði eftir því að stjórnvöld taki hagsmuni heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. Fjármálaelítu sem er að mergsjúga neytendur með okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum.

Það leituðu til félagsins ung hjón sem eiga tvö börn og eitt á leiðinni, en þau áttu sér þann draum að komast út af leigumarkaðnum vegna þess að leigan var nokkuð dýr eða 180 þúsund á mánuði og einnig leið þeim ekki vel vegna þess óöryggis sem fylgir því að vera á leigumarkaðnum.

Þau tjáðu mér að þau væru búin að kaupa þriggja herberja íbúð í tvíbýli og hafi fengið hana á 28,9 milljónir. Þau höfðu verið búin að safna rétt tæpum 4 milljónum sem þau hefðu notað sem útborgun í umrædda fasteign. Það þýddi að þau þurftu að taka 24,8 milljónir að láni hjá einum af viðskiptabönkunum þremur.

En hvernig skyldu nú lánakjörin hafa verið sem þessu unga fólki stóð til boða? Jú þrátt fyrir að hafa greitt út um 4 milljónir í útborgun þurftu þau að taka þrjú lán hjá bankanum eða með öðrum orðum þessum 24,8 milljónum var skipt niður á þrjú lán sem skiptast með eftirfarandi hætti:

Fyrsta lánið var 16,3 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára með breytilegum vöxtum upp á 3,65%

Annað lánið var 6,5 milljónir verðtryggt jafngreiðslulán til 25 ára með breytilegum vöxtum uppá 4,75%

Þriðja lánið var uppá tæpar 2 milljónir óverðtryggt til 10 ára með breytilegum vöxtum uppá 6,75%

Hugsið ykkur, þessum ungu hjónum er boðið upp á verðtryggða breytilega vexti frá 3,65% uppí 4,75% og síðan óverðtryggða vexti sem nema tæpum 7% og það á sama tíma og neytendum í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við standa til boða vextir frá 0,5% uppí 2,5% óverðtryggðir!

Hugsið ykkur líka að þessi ungu hjón munu ekki gera neitt annað en að þurfa að taka sjálfvirkt lán í hverjum mánuði næstu 25 árin, vegna þess að 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán gera ekkert annað en að hækka fyrstu 25 árin!

Munum líka að sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar sem skilaði áliti í janúar 2014 sagði að 40 ára jafngreiðslulán væri baneitraður kokteill sem yrði að banna tafarlaust! Samt eru þessi lán enn við lýði og stjórnvöld horfa aðgerðalaus á þegar verið er að níðast og vaxtapína unga fólkið okkar sem og alla neytendur.

Svo talar fólk sem vill láta taka sig alvarlega í íslensku samfélagi um að vextir hafi aldrei verið lægri á Íslandi en gleyma að taka það með í reikninginn að ef unga fólkið á ekki fyrir útborgun sem dekkar 65 til 70% af fastamati þá þarf það að taka svokölluð viðbótarlán sem bera miklu hærri vexti en þá lægstu sem standa til boða.

Það er svo dapurt og sorglegt hvernig við sem samfélag látum það átölulaust hvernig níðst er á unga fólkinu okkar og reyndar á öllum neytendum á húsnæðismarkaði.

Að stjórnvöld, stjórnmálamenn og ég tala nú ekki um verkalýðshreyfinguna skuli taka þátt í því að horfa aðgerðalaus á þetta skefjalausa ofbeldi sem íslensk heimili þurfa að þola þegar kemur að okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum fjármálakerfisins er óskiljanlegt með öllu.

Formaður VLFA hefur sagt og segir það enn og aftur að verkalýðshreyfingin verður að láta kné fylgja kviði við að krefja stjórnvöld um að taka stöðu með neytendum og heimilunum framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar.

Það er mikilvægt að allir átti sig á því að við Íslendingar erum að greiða 3 til 3,5% hærri raunvexti ár hvert sem þýðir að við erum að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað á hverju ári miðað við þá vexti sem neytendur á Norðurlöndunum standa til boða.

Það er ákall um að gerðar verði róttækar kerfisbreytingar íslenskri alþýðu og heimilum til hagsbóta.

Munum að okurvextir, verðtrygging og að húsnæðisliður sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta, allt sem til þarf er kjarkur vilji og þor!

12
Nóv

Forsetar ASÍ fóru á opinn fund í Valhöll

Í síðustu viku fór forsetateymi Alþýðusambands Íslands á opinn fund í Valhöll þar sem fundarefnið var vinnumarkaðurinn og komandi kjarasamningar. En forsetar ASÍ eru núna Drífa Snædal, Vilhjálmur Birgisson sem er fyrsti varaforseti og Kristján Þórður sem er annar varaforseti.

Framsögur voru fluttar af Halldóri Benjamín framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífisins, Helgu Ingólfsdóttur varaformanni VR og Ásgeiri Jónssyni forstöðumanni hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem er eins og áður sagði einnig fyrsti varaforseti ASÍ sá sig knúinn til að koma á framfæri okkar kröfum og um hvað komandi kjarasamningar snúast. Hann taldi t.d. mjög mikilvægt að fundarmenn áttuðu sig á þeim hræðilegu kjörum sem verkafólk þarf að búa við og nefndi sem dæmi að lágmarkstaxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði séu einungis frá 266 þúsundum króna upp í 300 þúsund sem er langt undir öllum þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Formaður VLFA sagði að það væri dapurt að heyra sönginn um hinn mikla kaupmátt sem hinir tekjulægstu eiga að hafa notið á liðnum árum og benti mönnum á að þetta væri bara alls ekki rétt. Enda liggur fyrir að leiguvísitalan hefur hækkað frá árinu 2011 um tæp 90% á meðan lægstu launataxtar á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað um 65%. Hvaða kaupmáttaraukningu er verið að tala um hjá fólki sem er á hinum almenna leigumarkaði þar sem leiga hefur hækkað um 90% á meðan laun hafa hækkað frá sama tíma um 65%? Að sjálfsögðu er ekki um neina kaupmáttaraukningu að ræða hjá þessu fólki. Hann taldi líka rétt að minna fundarmenn á að þeir sem væru á hinum blóðuga leigumarkaði væri tekjulægsta fólkið og nefndi dæmi af einstæðri móður með 2 börn sem væri að leigja þriggja herbergja íbúð á 285 þúsund á mánuði. Ætlar einhver að reyna að halda því fram að það sé eitthvert góðæri eða kaupmáttaraukning hjá þessari einstæðu móður?

Fyrsti varaforseti ASÍ fór einnig yfir þá okurvexti, verðtryggingu og þau himinháu þjónustugjöld sem neytendur þurfa að búa hér við og tók sem dæmi að heimilin og fyrirtæki eru að greiða yfir 3% raunvexti hér á landi miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur hvað helst saman við. Heimilin eru að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað en neytendur á Norðurlöndunum á hverju ári.

Hann fór einnig yfir hvernig verðtryggingin er eins og ryksugubarki sem sogar allt fá frá heimilum yfir til fjármagnseigenda og enginn segir eitt eða neitt. Hann nefndi að bara í síðasta mánuði hefði íslenskum heimilum verið sendur reikningur upp á 10 milljarða vegna þess að neysluvísitalan hefði hækkað um 0,57% á milli mánaða. Já verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 10 milljarða á 31 degi vegna þessa og er það álíka upphæð og veiðileyfagjöldin nema á útgerðina á heilu ári!

Hann sagði einnig í ræðu sinni að við værum með alla vega tvær krónur í íslensku hagkerfi: verkamannakrónu þar sem allri ábyrgð á efnahagslegum óstöðugleika er varpað á herðar alþýðunnar og heimilanna og síðan séríslenska verðtryggða krónu auðmanna og fjármagnseignenda sem eru varðir í bak og fyrir gegn öllum efnahagslegum óstöðugleika. Ekki bara að fjármálakerfið krefjist verðtryggingar á fjárskuldbindingum heimilanna heldur heimtar það einnig að vera með breytilega vexti á verðtryggðum vöxtum.

Í salnum voru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hann beindi orðum sínum til þeirra og bað þá um að hlusta gaumgæfilega á sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar er lúta að stjórnvöldum. Fram kom í máli hans að ef stjórnvöld munu ekki koma til móts við þessar kröfur sé ljóst að verkalýðshreyfingin muni láta kné fylgja kviði við að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi!

Það er allavega löngu tímabært að stjórnmálamenn og stjórnvöld taki hagsmuni alþýðunnar og heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar. Formaður VLFA og fyrsti varaforseti ASÍ spurði að lokum: Hver hefði trúað því að 10 árum eftir hrun séu viðskiptabankarnir þrír sem ollu hruninu sem kostaði almenning miklar hamfarir búnir að skila um 750 milljörðum í hagnað?!

Hann vonar svo innilega að þeir sjálfstæðismenn sem þarna voru hafi skilið það sem hann var að segja en það lýtur að því að við sem samfélag tökum utan um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi þannig að allir geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn, ekki bara sumir!

07
Nóv

Fundað í Ráðherrabústaðnum

Fundur var haldinn með stjórnvöldum, sveitarfélögunum, atvinnurekendum og forystumönnum opinberu félaganna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær.

Fyrir hönd Alþýðusambandsins voru forseti ASÍ ásamt fyrsta og öðrum varaforseta ASÍ og einnig var Ragnar Þór Ingólfsson viðstaddur fyrir hönd VR.

Á fundinum var farið yfir upplýsingaöflun stjórnvalda um tekjuþróun og stöðu ólíkra tekjuhópa. Sem og fóru fram umræður um tekjuþróun og jöfnuð. Einnig var staða húsnæðismála til umfjöllunar á fundinum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sem jafnframt er fyrsti varaforseti ASÍ lýsti á fundinum yfir áhyggjum sínum yfir hversu skammur tími væri til stefnu til að ná niðurstöðu í kjaraviðræðum enda ekki margir virkir vinnudagar þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út.

Hann gerði einnig grein fyrir mikilvægi þess að stjórnvöld taki á vaxtastiginu, verðtryggingunni og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Formaður VLFA og fyrsti varaforseti ASÍ nefndi að bara í síðasta mánuði hefðu verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um tæpa 10 milljarða vegna þess að neysluvísitalan hækkaði um 0,57% á milli mánaða. Hann nefndi að þetta sé álíka há upphæð og auðlindagjöld í sjávarútvegi nemi á þessu ári.

Hann fór einnig yfir þá staðreynd að raunvextir sem íslenskum neytendum er boðið upp á hér á landi séu um 3% hærri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við sem þýðir að íslensk heimili sem skulda 1900 milljarða eru að greiða 66 milljörðum meira í vaxtakostnað heldur en t.d. neytendur á Norðurlöndunum.

Hann nefndi það sérstaklega að hann vonaði að Seðlabankinn myndi ekki eyðaleggja partíið áður en það hæfist með því að koma með stýrivaxtahækkun því ef svo væri yrði það hálfgerð stríðsyfirlýsing við verkalýðshreyfinguna enda markmið komandi kjarasamninga að vextir lækki í stað þess að þeir hækki.  

Það er ljóst í huga formanns VLFA og fyrsta varaforseta ASÍ að tímaglasið er að tæmast til að hægt sé að koma í veg fyrir hörð átök á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að bæði stjórnvöld og atvinnurekendur þurfa að girða sig í brók ef ekki á að stefna í ein hörðustu átök sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði í áratugi.

 

28
Okt

Formaður VLFA kosinn 1. varaforseti ASÍ!

Það er morgunljóst að gríðarlegar breytingar eru að eiga sér stað í íslenskri verkalýðshreyfingu en á þingi ASÍ fyrir helgina var formaður Verkalýðsfélags Akraness kosinn fyrsti varaforseti ASÍ.

Hver hefði trúað að slíkt ætti eftir að gerast en hann hefur verið mjög gagnrýninn á æðstu forystuna á liðnum árum. En með þeim breytingum sem hafa átt sér stað á liðnum misserum eins og með kjöri Ragnars Þór til formanns VR og núna síðast með kjöri Sólveigar Önnu sem formanns Eflingar hafa pólarnir í íslenskri verkalýðshreyfingu gjörbreyst. Gömlu valdaklíkunni í forystu ASÍ hefur algerlega verið hafnað og ný forysta hefur tekið við.

Það er rétt að rifja upp að formaður VLFA hefur sagt á liðnum árum að meðan gamla valdaklíkan var við völd í forystu ASÍ voru meiri líkur á að ná kjöri sem forseti Norður Kóreu en einn af forsetum ASÍ.

Kosið var á milli formanns Verkalýðsfélags Akraness Vil­hjálms Birg­is­sonar og Guð­brands Ein­ars­sonar for­manns Versl­un­ar­manna­fé­lags Suð­ur­nesja en rétt er að geta þess að Guðbrandur er búinn að vera einn af æðstu forystumönnum ASÍ í yfir 10 ár og því var þessi sigur formanns VLFA enn sætari fyrir vikið.

En Vil­hjálmur fékk 171 atkvæði eða 59,8 pró­sent og Guð­brandur fékk 115 eða 40,2 pró­sent. Heild­ar­fjöldi atkvæða var 289, auðir og ógildir seðlar voru 3.

Það að formaður Verkalýðsfélags Akraness sé orðinn 1. varaforseti ASÍ mun gefa félaginu tækifæri til að koma okkar áherslumálum enn frekar á framfæri en eins og allir vita þá hafa okurvextir, afnám verðtryggingar og himinhá þjónustugjöld fjármálakerfisins verið formanni VLFA afar hugleikin á liðnum árum. Það er ljóst að með kjöri hans mun rödd þeirra sem höllustum fæti standa verða enn sterkari og tekið verður af krafti á því að fá stjórnvöld til að taka hagsmuni alþýðunnar og heimilanna framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar.  Sjá frétt hér

Sjá kosningarræðu formanns hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image