• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
22
Des

Gleðileg jól

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óskar öllum félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

19
Des

VLFA hefur innheimt 48 milljónir fyrir félagsmenn vegna kjarasamningsbrota á árinu sem senn er á enda

Á árinu sem nú er senn á enda hefur Verkalýðsfélag Akraness náð að leiðrétta og verja réttindi sinna félagsmanna um sem nemur rætt tæpum 48 milljónum króna.

Allt eru þetta mál þar sem félagsmenn hafa komið og óskað eftir liðsinni félagsins við ná fram rétti sínum eftir að atvinnurekendur hafa hafnað greiðsluskyldu vegna hinna ýmsu mála. Sum þessara mála hefur tekist að leysa með samtölum við atvinnurekendur en sum hafa þurft að fara í lögfræðilegar innheimtur og nokkur fyrir dómstóla.

Stærsta einstaka leiðréttingin vannst fyrir félagsdómi en hún nam 30 milljónum og dreifðist á þá sem höfðu starfað í sumarafleysingum hjá Norðuráli á síðustu 4 árum. En málið laut að ágreiningi vegna túlkunar á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum og einnig á ávinnslu á starfsaldurhækkunum hjá Norðuráli.

Þessar leiðréttingar og hagsmunagæsla sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess fyrir félagsmenn að vera aðilar að öflugum stéttarfélögum sem eru tilbúin að vaða eld og brennistein til að verja réttindi sinna félagsmanna.

Frá árinu 2004 til dagsins í dag hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt og leiðrétt kjarasamningsbrot fyrir sína félagsmenn um sem nemur tæpum 540 milljónum króna!

Í dag er félagið með 7 mál fyrir dómstólum, 6 mál fyrir Héraðsdómi og eitt fyrir Hæstarétti en það mál vann félagið fyrir Héraðsdómi Vesturlands fyrr í sumar en atvinnurekandinn áfrýjaði því máli til Hæstaréttar.

Formanni er það algerlega til efs að nokkurt stéttarfélag sé með jafn mörg mál fyrir dómstólum eins og Verkalýðsfélag Akraness, allavega ekki miðað við stærð.

18
Des

Helgi í Góu í heimsókn á skrifstofu VLFA

Í síðustu viku fékk formaður VLFA afar góða heimsókn á skrifstofu félagsins en þar kom baráttumaður fyrir bættum kjörum eldri borgara, enginn annar en Helgi í Góu. Óskaði hann eftir að hitta formanninn til að fara yfir þau baráttumál sem hann hefur verið að benda á árum og áratugum saman en þau lúta að því að lífeyrissjóðirnir taki virkan þátt í því að búa hér til hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Helgi lagði fram teikningar og ýmsar hugmyndir hvað það varðar en það er skemmst frá því að segja að þessi baráttumál Helga samrýmast algjörlega hugsunum stjórnar Verkalýðsfélags Akraness sem hefur meðal annars bent á að lífeyrissjóðirnir eigi að taka þátt í að byggja upp lítt hagnaðardrifin leigufélög til hagsbóta og útleigu fyrir hinn almenna sjóðsfélaga. Þetta var virkilega góður fundur og góð heimsókn og mun formaður reyna að koma þessum áherslum Helga í Góu á framfæri þar sem það á við.

18
Des

Hundrað starfsmenn hafa lokið námi í stóriðjuskóla Norðuráls

Í kjarasamningi VLFA við Norðurál árið 2011 var samið við forsvarsmenn fyrirtækisins um stóriðjuskóla fyrir starfsmenn þess en það hafði verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness um alllanga hríð. Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans mun svo gefa 5% til viðbótar, samtals 10% launahækkun. Í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er það bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls.

Á föstudaginn útskrifaðist fimmti hópurinn úr stóriðjuskólanum eftir að hann hóf starfsemi en í þetta sinn voru það 33 nemendur sem útskrifuðust, 17 úr grunnnámi og 16 úr framhaldsnáminu. Nú hafa rúmlega 100 starfsmenn Norðuráls útskrifast úr stóriðjuskólanum. Af því tilefni var glæsileg útskriftarathöfn haldin í Norðuráli og mega starfsmenn vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum útskriftarnema.

Eins og áður sagði gefur stóriðjunámið 5% launahækkun eftir grunnnámið og önnur 5% eftir framhaldsnámið sem þýðir að laun starfsmanns geta hækkað um allt að rúmar 60 þúsund krónur á mánuði þegar bæði grunn- og framhaldsnámi er lokið.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga. Myndir frá athöfninni má sjá hér.

12
Des

54,5% meira atvinnuleysi á meðal kvenna á Akranesi en á landsvísu!

Það er engum vafa undirorpið að við Akurnesingar höfum orðið fyrir gríðarlega þungum höggum hvað atvinnumál varðar á liðnum árum og misserum og formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af stöðu atvinnumála.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að atvinnuleysi kvenna á Akranesi er núna 54,5% meira en meðal atvinnuleysi kvenna á landinu öllu.

Formaður veit að margir vilja bera sig vel og vonast eftir því að fleiri atvinnutækifæri skapist í okkar sveitafélagi en hann telur að það sé alls ekki hægt að haga sér eins strútar og stinga höfðinu í sandinn og vonast eftir að allt lagist af sjálfu sér.

Hvernig eigum við Akurnesingar t.d. að geta sætt okkur við það átölulaust að vera búin að tapa hundruðum starfa sem tengjast sjávarútvegi á liðnum árum og áratugum? Það er mikilvægt að allir átti sig á því að við Akurnesingar höfum síðustu 100 ár eða svo byggt okkar lífsafkomu upp á veiðum og vinnslu á sjávarafurðum.  Bara sem dæmi þá störfuðu hjá útgerðarfyrirtæki Haraldar Böðvarssonar  áður en það sameinaðist Granda árið 2004 350 manns við veiðar og vinnslu. Haraldur Böðvarsson greiddi 2 milljarða í laun og á þessum tíma var fyrirtækið stærsti launagreiðandinn á Vesturlandi.

Það er líka rétt að geta þess að árið 2004 var á Akranesi landað um 170 þúsund tonnum af sjávarafla í dag er þetta allt farið og ekki bara það heldur hafa þúsundir tonna af aflaheimildum smábáta horfið á liðnum árum enda má segja að hin öfluga smábátaútgerð sé nánast horfin og öll þau störf sem henni fylgdu. Meira að segja er búið að loka fiskmarkaðnum á Akranesi og er óhætt að segja að það er af sem áður var þegar Akraneshöfnin iðaði af lífi frá morgni til kvölds enda var Akranes þriðja stærsta vertíðarstöð á landinu fyrir nokkrum árum síðan. Allt farið, þökk sé því glórulausa fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við. Enda er það galið og alls ekki líðandi að útgerðarmenn geti einhliða tekið ákvarðanir um að flytja aflaheimildir eða vinnslu sjávarafurða í burtu frá sveitarfélögunum og skilið fiskvinnslufólk og heilu byggðarlögin eftir með blæðandi sár.

Við höfum í gegnum árin og áratugina horft upp á fjölmörg byggðarlög skilin eftir í þvílíkum sárum eftir að útgerðarmenn hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir úr byggðarlögunum. Það er ólíðandi að fyrirkomulag við stjórnun á fiskveiðum geti í raun og veru slegið heilu byggðarlögin fast í kviðinn þannig að þau séu í keng og geti vart rétt úr sér á nýjan leik.

Staðreyndin er því miður sú að við höfum tapað hundruðum starfa við vinnslu á sjávarafurðum á liðnum árum og áratugum sem hefur klárlega bitnað grimmilega á fiskvinnslufólki og þá sérstaklega konum enda er atvinnuleysi kvenna eins og áður sagði 54,5% meira en á landsvísu.

Því miður er þetta staðreynd sem er ekkert hægt að loka augunum fyrir og atvinnutækifæri inni í bænum sjálfum eru nánast engin, enda engin störf á lausu á Akranesi um þessar mundir og slegist um hvert starf.

Það er dapurlegt fyrir okkur Akurnesinga að vera í þessari stöðu í ljósi þess að það er blússandi uppgangur í íslensku efnahagslífi um þessar mundir, hagvöxtur mikill og atvinnuleysi í sögulegu lágmarki á landsvísu.

En þessi gríðarlegi uppgangur í íslensku samfélagi tengist uppgangi í ferðaþjónustunni að stærstum hluta en því miður hefur þessi uppgangur í ferðþjónustunni einungis skilað sér að mjög litlu leiti til okkar.

En hvað höfum við Akurnesingar mátt þola hvað varðar töpuð störf á liðnum árum og áratugum? Skoðum nokkur dæmi:

·         Sementsverksmiðjan hætti starfsemi en þegar mest var þá störfuðu 180 manns í verksmiðjunni.

·         HB Grandi hætti landvinnslu og löndunum á Akranesi en þegar mest var störfuðu 350 manns hjá fyrirtækinu.

·         Hausaþurrkunarfyrirtækið Laugarfiskur hætti starfsemi fyrr á þessu ári en þar störfuðu 35 manns þegar mest var.

·         Málmendurvinnslufyrirtækið GMR á Grundartanga hætti fyrr á þessu ári en þar störfuðu yfir 30 þegar mest var.

·         Nánast öll smábátaútgerð er horfin og uppundir 100 störf henni tengdri hafa tapast.

·         Ekki hægt að ímynda sér hvað mörg afleidd störf hafa tapast samhliða því að þessi störf hurfu úr okkar samfélagi en ljóst að þau skipta tugum.

Þetta eru sorglegar staðreyndir sem ekki er hægt að loka augunum fyrir og ábyrgð stjórnvalda er mikil enda bera þau ábyrgð á því fyrirkomulagi sem þjóðin þarf að búa við þegar kemur að veiðum og vinnslu sjávarafurða. Já ábyrgð stjórnvalda er mikil og því telur formaður það liggja algjörlega fyrir að við Akurnesingar fáum byggðarkvóta til að mæta þeim gríðarlega skelli sem sveitarfélagið hefur þurft að þola vegna tapaðra aflaheimilda og starfa tengdum veiðum og vinnslu á liðnum árum. 

En takið eftir það sem heldur lífinu enn sem komið er í okkar sveitafélagi er starfsemin á Grundartanga en ef hennar nyti ekki við er ljóst að við Akurnesingar gætum endanlega slökkt ljósin.

En það er ekki bara að búið sé að mölbrjóta fjöregg okkar Skagamanna er lýtur að veiðum og vinnslu á sjávarafurðum og atvinnutengdum sjávarútvegi heldur eru líka verulegar blikur á lofti með atvinnuöryggi þeirra sem starfa hjá stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga.

Nægir að nefna í því samhengi að Elkem Ísland hefur ítrekað reynt að ná samningum við Landsvirkjun um raforkuverð en án árangurs enda hafa þeir vísað því máli til gerðadóms. Nú er spurning af hverju fyrirtækið sá sig knúið til að vísa ágreiningi sínum við Landsvirkjun til gerðadóms en leiða má að því líkum að það raforkuverð sem Landsvirkjun er að bjóða muni kippa öllum rekstrargrundvelli undan fyrirtækinu.

Það er því óhætt að segja að atvinnuöryggi og lífsafkoma okkar Skagamanna standi höllum fæti um þessar mundir og það á hápunkti hagsveiflunar í íslensku samfélagi.

Við Akurnesingar þurfum að berjast fyrir okkar atvinnuöryggi því það er t.d. ömurlegt að sjá þær árásir sem fyrirtækin á Grundartanga þurfa að þola og nánast enginn þorir að koma til varnar.

Þar er talað um skítugu stóru iðnfyrirtækin sem gera ekkert annað en að skila mikilli kolefnismengun út í andrúmsloftið en enginn áttar sig t.d. á þeirri staðreynd að íslensku flugfélögin tvö Icelandair og Wow air menga jafnmikið af koltvísýringi og öll álverin á Íslandi en takið eftir, það eru 27 önnur erlend flugfélög sem fljúga til Íslands með erlenda ferðamenn. Svo er talað um að þessi iðnfyrirtæki fái nánast raforkuna gefins en það nægir að nefna í því samhengi að stóriðjufyrirtækin hafa ætíð sagt að þau séu tilbúin til að greiða sama raforkuverð og verið er að greiða fyrir hana erlendis. Hinsvegar er rétt að geta þess að afkomutölur Landsvirkjunar sýna nú þegar mjög góða afkomu enda verður Landsvirkjun skuldlaus eftir rúm 5 ár og mun geta skilað íslensku samfélagi 30 til 40 milljörðum í arðgreiðslur. Þrátt fyrir þetta er því stöðugt haldið fram að verið sé að gefa raforkuna til stóriðjufyrirtækja en 80% af viðskiptum Landsvirkjunar er við stóriðjufyrirtækin.

Það er ljóst að við Skagamenn ætlum ekkert að gefast upp en það er mikilvægt að þessar staðreyndir sem hér hafa verið raktar liggi fyrir og það er líka mikilvægt að allir átti sig á því að á Akranesi er fjölbreytt og glæsileg þjónusta á öllum sviðum og því höfum við alla burði til að efla okkar góða samfélag áfram og því er mikilvægt að snúa vörn í sókn.

08
Des

Annað málið gegn Skaganum 3x tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur

Rétt í þessu lauk aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli erlends starfsmanns gegn Skaganum 3x.

En málið laut að því að honum var sagt upp störfum og í þeirri uppsögn var hann einnig sviptur kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti sem hann hafði áunnið sér.

Málavextir voru þeir að hann var tekinn fyrir vörslu og meðferð fíkniefna á heimili sínu en gert var upptækt rétt rúmt eitt gramm af marijúana. Rétt er að geta þess að umræddur starfsmaður leigði herbergi hjá vinnuveitandanum og þegar honum var sagt upp þá var honum einnig sagt að yfirgefa herbergið sem hann hafði á leigu og stóð hann því bæði uppi húsnæðislaus sem og atvinnu- og tekjulaus vegna þess að vinnuveitandinn ætlaði að svipta hann rétti til launa í uppsagnarfresti.

Umræddur starfsmaður leitaði til Verkalýðsfélags Akraness og eftir að félagið hafði skoðað málið þá var ljóst að félagið taldi að starfsmaðurinn ætti rétt á launum í sínum uppsagnarfresti enda brot hans alls ekki af þeirri stærðargráðu að það heimilaði sviptingar á launum í uppsagnarfresti.

Íslenskur vinnumarkaður er mjög sveigjanlegur þegar kemur að því að segja upp starfsfólki og á þeirri forsendu einni saman er gríðarlega mikilvægt að launafólk haldi rétti sínum til launa í uppsagnarfresti nema brotið sé því alvarlegra. Í þessu máli er ekki slíku til að dreifa enda liggur ekki nokkur sönnun fyrir því að umræddur starfsmaður hafi nokkurn tímann verið undir áhrifum fíkniefna né annarra vímugjafa við vinnu sína. Engar þvag- eða blóðprufur voru framkvæmdar til að sanna að hann hafi verið undir áhrifum við vinnu sína og því er glórulaust að mati félagsins að svipta hann umræddum uppsagnarfresti

Þegar starfsmanninum var sagt upp var honum ekki boðið að fá trúnaðarmann né fulltrúa frá stéttarfélaginu til að vera sér innan handar við að verja sín réttindi. Uppsagnarbréfið var ekki á hans tungumáli og honum ekki boðið að hafa túlk hjá sér.  Með öðrum orðum hann vissi alls ekki hver hans réttur var og því leitaði hann til stéttarfélagsins til að verja sín réttindi

Það var alls ekkert deilt um rétt fyrirtækisins til að segja starfsmanninum upp einungis að fyrirtækið skuli hafa svipt  hann uppsagnarfrestinum sem hann hafði áunnið sér. Þessu til viðbótar var því komið rækilega á framfæri við dóminn að ekki hafi verið neinn ráðningarsamningur gerður við starfsmanninn né leigusamningur og honum kastað út á götuna atvinnulausum og án húsnæðis.

Fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega koma alls ekki svona fram við starfsfólk sitt þótt því verði á og það í frítíma sínum enda liggur eins og áður sagði engin sönnun fyrir því að hann hafi nokkurn tímann brotið af sér í starfi né verið undir áhrifum fíkniefna við störf sín. Sönnunarbyrði liggur öll á herðum vinnuveitenda að sanna slíkt enda hefði vinnuveitandinn átt að senda starfsmanninn í blóðprufu hafi rökstuttur grunur verið um slíkt.

Það er dauðans alvara að segja upp starfsfólki svo ekki sé talað um þegar því er hent á götuna og svipt uppsagnarfresti vegna atvika sem gerast í þeirra frítíma enda er það mat félagsins að slíkt sé algerla andstætt lögum og vinnurétti.

Það verður fróðlegt að sjá dómsniðurstöðu í þessu máli en það er skylda félagsins að reyna að verja réttindi sinna félagsmanna þegar við teljum að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna en dómur í þessu máli mun liggja fyrir eftir ca fjórar vikur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image