• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
14
Feb

Tíundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara var haldinn í gær

Tíundi fundurinn Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, VR og Eflingar var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær.

Á fundinum lögðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins fram tilboð er lýtur að launalið samningsins og var niðurstaðan á þeim fundi að stéttarfélögin myndi taka þetta tilboð og koma með viðbrögð við þessu tilboði SA á fundi sem haldinn verður hjá ríkissáttasemjara á morgun.

Það er ekki hægt að greina frá innihaldi tilboðsins í ljósi þess að ríkissáttsemjari óskaði sérstaklega eftir því við samningsaðila að tilboð þetta yrði trúnaðarmál og að sjálfsögðu ber samningsaðilum að viðra þó ósk frá sáttasemjara.

Hins vegar er alveg ljóst að þetta tilboð nægir alls ekki til að hægt sé að ganga frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins að mati umræddra stéttarfélaga.  En megin krafa stéttarfélaganna er að auka ráðstöfunartekjur verkafólks sem tekur laun eftir lágmarkstöxtum umtalsvert þannig að möguleiki sé fyrir lágtekjufólk að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar.

Það liggur einnig fyrir að aðkoma stjórnvalda við að liðka fyrir kjarasamningsviðræðum er umtalsverð enda er hægt að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks á margvíslegan hátt annað en beinar launahækkanir.  Eins og t.d. í gengum skattkerfið og með hækkun á barnabótum og örðum slíkum aðgerðum.

Einnig liggur fyrir að þessi stéttarfélög kalla eftir kerfisbreytingum sem lúta að því að lækka vexti, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðin úr lögum um vexti og verðtryggingu.  Sem og koma á leiguvernd að ógleymdu því að taka hressilega á grófum kjarasamningsbrotum sem og félagslegum undirboðum.

Það er morgunljóst að þessar kjaraviðræður hanga á bláþræði og þarf mjög lítið útaf að bera þannig að hér stefni í afar hörð verkfallsátök en við skynjum að ábyrgð okkar er mikil við að finna lausn á deilunni en eitt er víst að sú ábyrgð hvílir einnig á okkar viðsemjendum sem og með aðkomu stjórnvalda.  Því eitt er víst að lágtekjufólk ætlar ekki að bera eitt uppi stöðugleika í íslensku samfélagi á sama tíma og laun þeirra duga ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar

13
Feb

Páskar 2019

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í páskavikunni 2019. Um er að ræða vikuleigu frá 17. apríl til 24. apríl.

Þar sem alltaf er mikil ásókn í dvöl í orlofshúsum þessa viku er sá háttur hafður á að þeir sem hafa áhuga leggja inn umsókn í pott. Einn pottur er fyrir hvert hús og hægt er að sækja um á ákveðnum stöðum eða þeim öllum. Dregið er úr pottinum af handahófi, punktastaða skiptir ekki máli og ekki eru dregnir af punktar við úthlutun. Hringt er í þann sem dreginn er út og geti hann ekki nýtt sér vikuna, er dregið aftur. Greiða þarf leigu strax.

Tekið er á móti umsóknum á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 og í síma 4309900. Einnig er hægt að senda nafn, kennitölu og símanúmer á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til og með 8. mars en dregið verður þann 11. mars.

07
Feb

Formaður á 80 manna fundi með starfsmönnum leikskólanna á Akranesi

Í gær héldu starfsmenn leikskólanna á Akranesi baráttu-og skemmtifund á Gamla kaupfélaginu og var Haraldi Frey Gíslasyni formanni Félags leikskólakennara og formanni Verkalýðsfélags Akraness boðið að fara yfir stöðuna á vinnumarkaði og komandi kjarasamninga.

Það var gríðarlega góð og jákvæð stemmning á þessum fundi en hátt í 80 starfsmenn leikskólanna voru á fundinum. Formaður fór yfir stöðuna í komandi kjarasamningum sem og hugmyndir er lúta að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir þeirri kjarasamningslotu sem framundan er, bæði á hinum almenna vinnumarkaði sem og  hinum opinbera.

Formaður greindi frá því að mótun á kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga sé á lokastigi en hvatti félagsmenn sína eindregið til að koma með hugmyndir inní þá kröfugerð ef einhverjar væru.

Hann tjáði fundarmönnum að uppbygging á kröfugerðinni yrði með álíkum hætti og kröfugerð verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði væri. Það er að segja að laun ófaglærðs fólks dygðu fyrir lágmarksframfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út. Hann sýndi að starfsmaður á leikskóla væri með um 350.000 kr. á mánuði og það vantaði því um 85.000 á mánuði til að þau næðu þessum lágmarksframfærsluviðmiðum.

Hann nefndi í erindi sínu að hann myndi óska eftir samtali við bæjaryfirvöld um viðræður er lúta að sérákvæðum í samningum og nefndi hann að þónokkur sveitafélög eru að gera mun betur fyrir tekjulægsta fólkið heldur en Akraneskaupstaður.

Vitnaði formaður m.a til þess að Grindavíkurbær ætlar að koma með sérstaka einhliða hækkun lægstu launa til handa sínum starfsmönnum. Hann nefndi einnig að Hvalfjarðasveit greiðir ófaglærðum starfsmönnum 22 þúsund króna launauppbót í hverjum mánuði til starfsmanna í grunn-og leikskólum og að ófaglærðir starfsmenn á leikskólum fá 10 tíma í yfirvinnu í hverjum mánuði fyrir að þurfa að matast með börnunum. Einnig eru sum sveitafélög að láta ófaglært starfsfólk fá 1 launaflokk til viðbótar.

Formaður VLFA nefndi að þetta séu allt atriði sem hann ætli að taka upp við bæjaryfirvöld, því við verðum að tryggja að allir starfsmenn Akraneskaupstaðar geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

 

Glærur af fundinum má sjá hér

07
Feb

Níundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn í gær

Níundi sáttafundurinn í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, Eflingar og VR við Samtök atvinnulífsins var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær.

Á þessum fundi kröfðust Samtök atvinnulífsins enn og aftur afstöðu frá stéttarfélögunum um hvort þau væru virkilega ekki tilbúin að ræða enn frekar um vinnustundabreytingu í þessum kjaraviðræðum.

En eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá lúta þessar pælingar SA út á að atvinnurekendur geti keypt kaffitíma af launafólki og að deilitala í dagvinnu fari úr 173,33 tímum í 160 tíma og yfirvinnuálag breytist úr 80% í 66%. Þessu til viðbótar liggur fyrir að SA vill að dagvinnutímabilið lengist með þeim hætti að hægt sé að vinna á dagvinnu á tímabilinu 06:00 til 19:00 á kvöldin og einnig hafa þeir nefnt að uppgjörstímabil til útreiknings á yfirvinnu verða á þriggja mánaða tímabili.

Á þessum fundi var öllum þessum hugmyndum enn og aftur hafnað og er það bjargföst von fulltrúa stéttarfélaganna að núna loksins sé það orðið ljóst af hálfu fulltrúa SA að þessar hugmyndir verða alls ekki ræddar frekar í þessum kjaraviðræðum.

Næsti fundur verður haldinn á næsta miðvikudag. Ekki var hægt að fá fund fyrr vegna anna hjá fulltrúum SA en á þeim fundi eiga fulltrúar SA að leggja fram tillögur er lúta að launabreytingum á launaliðnum.

Á þessu sést að nú fer að koma að ögurstund í þessum viðræðum. Ekki er hægt að halda þessum viðræðum áfram með þessum hætti enda liðinn einn og hálfur mánuður frá því að samningar runnu út. Það liggur einnig fyrir að viðræður við fulltrúa stjórnvalda eru komnar af stað og er það mat formanns að í kringum 20. febrúar liggi fyrir hvort samningar náist án átaka.

01
Feb

Áttundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara

Áttundi fundur Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, VR og Eflingar stéttarfélags með Samtökum atvinnulífsins var haldinn hjá ríkissáttasemjara í morgun.

Það verður að viðurkennast að þessar kjarasamningsviðræður við SA þokast afar hægt og er það vægt til orða tekið. Enn er verið að fara yfir hinar ýmsu kröfur sem eru í kröfugerð áðurnefndra stéttarfélaga en lítið sem ekkert hefur verið farið inn á það sem öllu máli skiptir, sem er þær launabreytingar sem koma þurfa til að ná saman samningum.

Vissulega mun aðkoma stjórnvalda skipta gríðarlega miklu máli um framhaldið enda meginmarkmið stéttarfélaganna að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðneytið hefur gefið út. En eins og allir vita er slíku ekki til að dreifa í dag og vantar tugi þúsunda upp á til að svo sé. Það liggur fyrir að hægt er að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með margvíslegum aðgerðum stjórnvalda eins og t.d. að létta á skattbyrgði, auka barnabætur og koma á aukinni leiguvernd gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði í dag.

Auk þessa geta stjórnvöld skapað heilbrigðan og réttlátan fjármálamarkað þar sem hagsmunir neytenda og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins eins og t.d. með því að taka hér á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar, og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Forsetateymi ASÍ átti fund með stjórnvöldum í gær þar sem lagt var fram vinnuskjal þar sem helstu áhersluatriði komu fram og gerðu forsetar forsvarsmönnum ríkisstjórnar grein fyrir þessum áherslupunktum.

Þessir áherslupunktar eru eftirfarandi:

  • Skattamál
  • Húsnæðismál
  • Vextir, verðtrygging og húsnæðisliðurinn
  • Lífeyrismál
  • Jafnréttismál
  • Félagsleg undirboð

 

Eins og sést á þessum áherslupunktum þá eru fjölmörg atriði sem við munum kalla eftir að fá svör við frá stjórnvöldum og ljóst er að stjórnvöld munu þurfa að bregðast fljótt við þannig að við getum metið okkar stöðu betur gagnvart SA. Yfirmarkmið okkar er eins og áður sagði að auka ráðstöfunartekjur okkar fólks og því skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli.

26
Jan

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn, sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, á sérstaka eingreiðslu sem á að greiðast þann 1. febrúar næstkomandi.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn, sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, á sérstaka eingreiðslu sem á að greiðast þann 1. febrúar næstkomandi.
Kr. 42.500 hjá sveitarfélögunum
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem var við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember 2018.
Kr. 45.000 hjá ríkinu
Um er að ræða kjarasamningsbundna eingreiðslu sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við þá sem eru í fullu starfi í janúar 2019. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað hluta úr mánuði skulu fá hlutfallslega greiðslu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image