• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
21
Feb

Viðræðum við Samtök atvinnulífsins slitið hjá ríkissáttasemjara

Rétt i þessu lauk árangurlausum fundi Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, Eflingar og VR við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara.

En þetta var ellefti samningafundurinn frá því áðurnefnd stéttarfélög vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara. Það skal fúslega viðurkennast að það eru gríðarleg vonbrigði að ekki skuli hafa tekist að ná saman kjarasamningum en það er morgunljóst að töluvert ber á milli samningsaðila.

Helsta markmið stéttarfélaganna var að lagfæra kjör lágtekjufólks þannig að laun þeirri dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það liggur fyrir að áðurnefnd stéttarfélög ætla að standa þétt saman í þeirri erfiðu baráttu sem framundan er og það er ljóst að ekki mun koma til allsherjarverkfalla heldur munu félögin teikna upp aðgerðaáætlun sem miðar að svokölluðum skæruverkföllum. En að þeirri aðgerðaáætlun munu öll stéttarfélögin koma að.

Nú er staðan gríðarlega erfið og grafalvarleg en okkar markmið standa fast á okkar sjálfsögðu kröfu sem er að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks umtalsvert í þessum kjarasamningum. 

20
Feb

Formanni og fyrsta varforseta ASÍ misboðið á fundi með ríkisstjórninni

Í gær var forsetateymi ASÍ boðið á fund stjórnvalda þar sem kynntar voru hugmyndir þeirra til að liðka fyrir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sátu fundinn forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgöngumálaráðherra og félagsmálaráðherra.

Það verður að segjast alveg eins og er að væntingar okkar til stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum voru umtalsverðar enda byggja okkar hugmyndir á að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi umtalsvert.

Því miður var þessi fundur gríðarleg vonbrigði enda kom fram á fundinum að einungis 6.750 krónur væru stjórnvöld tilbúin að létta á skattbirgði launafólks sem er á tekjubilinu 300 til 900 þúsund. Við höfðum væntingar um að skattbirgði yrði á bilinu 15.000 til 20.000 þúsund á tekjulægsta fólkið í íslensku samfélagi.

Það voru einnig gríðarleg vonbrigði að stjórnvöld séu ekki tilbúin að afnema verðtryggingu á neytendalánum en þau sögðust vera tilbúin að skoða að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Það er ekki í anda þeirra hugmynda sem verkalýðshreyfingin hefur og er inní kröfugerðum stéttarfélaganna enda er þar talað um að afnema verðtyggingu á nýjum neytendalánum.

Ekki voru vonbrigðin minni þegar forsætisráðherra sagði að þau væru ekki tilbúin að taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu en sögðust vera tilbúin að láta skoða kosti og galla húsnæðisliðarins af erlendum sérfræðingi.  Þessi erlendi aðili átti síðan að skila niðurstöðu 31 mars 2020!

Þegar hérna var komið þá var farið að sjóða á formanni VLFA enda vonbrigðin orðin yfirþyrmandi og tjáði formaður ráðherranum að hann væri gapandi hissa á því jarðsambandsleysi sem ríkti hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Benti hann ráðherrunum á ruglið sem væri í gangi þar sem ríkisstjórn lét samþykkja að skipaður yrði sérfræðingahópur þann 8. maí í fyrra sem átti að fara yfir kosti og galla húsnæðisliðarins á lán heimilanna. Þessi hópur átti að skila fyrir áramót og núna ætlar ríkisstjórnin að leggja það til,  til þess að liðka fyrir kjarasamningum að annar sérfræðingahópur verði skipaður um húsnæðisliðinn og spurði formaður ráðherranna, hvort þessi sérfræðingahópur ætti þá að skoða hvað hinn sérfræðingahópurinn hefði verið að gera.

Benti formaður ráðherrum ríkisstjórnarinnar einnig á þá staðreynd að frá því stjórnvöld létu samþykkja frá Alþingi að skoða ætti kosti og galla húsnæðisliðar á lán heimilanna þann 8. maí í fyrra hafi húsnæðisliðurinn einn og sér fært 12 milljarða frá heimilunum yfir til fjármálakerfisins sem er álíka há upphæð og stjórnvöld eru tilbúin að létta skattbirgði á launafólki á 3 árum!

Þegar hérna var komið tjáði formaður ráðherrunum að hann gæti ekki setið lengur á þessum fundi þar sem honum væri endanlega misboðið og yfirgaf hann fundinn, enda leyndu vonbrigði formanns sér alls ekki.

Nú er staðan á vinnumarkaði orðin grafalvarleg, enda vonaði formaður og fyrsti varaforseti ASÍ innilega að innlegg ríkisstjórnarinnar yrði til þess að liðka raunverulega fyrir þessum viðræðum en því miður var raunin alls ekki sú.

Þetta er staðan og núna er ljóst að það á eftir að  koma í ljós á fundinum á morgun hvort viðræðum verður slitið eða ekki.

20
Feb

Ellefti fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn á síðasta föstudag

Ellefti fundur Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR og Eflingar var á síðasta föstudag en á þeim fundi lögðu áðurnefnd stéttarfélög fram gagntilboð til atvinnurekenda með fyrirvara um aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir samningum.

Það er skemmst frá því að segja að Samtök atvinnulífsins höfnuðu þessu gagntilboði félaganna eftir 30 mínútna umhugsunartíma. Það voru mikil vonbrigði að fulltrúar SA hafi hafnað okkar tilboði en það var samrómaálit formanna stéttarfélaganna að nú væri staðan þannig að bíða þyrfti eftir útspili ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum en fyrir lá að sá fundur forsetateymis ASÍ með stjórnvöldum yrði  þriðjudaginn 19 febrúar.

Ákveðið var að bíða eftir þessu útspili  sem og að boða til næsta sáttafundar hjá ríkissáttsemjara fimmtudaginn 21 febrúar.

En eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá er okkar aðalkrafa að auka ráðstöfunartekjur hjá tekjulægstu hópunum og það þarf að gera með samspili atvinnurekenda og stjórnvalda.

19
Feb

Yfirlýsing vegna útspils ríkisstjórnarinnar 19. febrúar 2019

Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag, 19. febrúar.

Viðræður hafa staðið tæpt eftir að SA lögðu fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólks. SA höfnuðu í kjölfarið sanngjörnu gagntilboði samflotsfélaganna.

Vonir stóðu til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá ríkissáttasemjara.

Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt.

 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ

14
Feb

Tíundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara var haldinn í gær

Tíundi fundurinn Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, VR og Eflingar var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær.

Á fundinum lögðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins fram tilboð er lýtur að launalið samningsins og var niðurstaðan á þeim fundi að stéttarfélögin myndi taka þetta tilboð og koma með viðbrögð við þessu tilboði SA á fundi sem haldinn verður hjá ríkissáttasemjara á morgun.

Það er ekki hægt að greina frá innihaldi tilboðsins í ljósi þess að ríkissáttsemjari óskaði sérstaklega eftir því við samningsaðila að tilboð þetta yrði trúnaðarmál og að sjálfsögðu ber samningsaðilum að viðra þó ósk frá sáttasemjara.

Hins vegar er alveg ljóst að þetta tilboð nægir alls ekki til að hægt sé að ganga frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins að mati umræddra stéttarfélaga.  En megin krafa stéttarfélaganna er að auka ráðstöfunartekjur verkafólks sem tekur laun eftir lágmarkstöxtum umtalsvert þannig að möguleiki sé fyrir lágtekjufólk að framfleyta sér frá mánuði til mánaðar.

Það liggur einnig fyrir að aðkoma stjórnvalda við að liðka fyrir kjarasamningsviðræðum er umtalsverð enda er hægt að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks á margvíslegan hátt annað en beinar launahækkanir.  Eins og t.d. í gengum skattkerfið og með hækkun á barnabótum og örðum slíkum aðgerðum.

Einnig liggur fyrir að þessi stéttarfélög kalla eftir kerfisbreytingum sem lúta að því að lækka vexti, afnema verðtryggingu og taka húsnæðisliðin úr lögum um vexti og verðtryggingu.  Sem og koma á leiguvernd að ógleymdu því að taka hressilega á grófum kjarasamningsbrotum sem og félagslegum undirboðum.

Það er morgunljóst að þessar kjaraviðræður hanga á bláþræði og þarf mjög lítið útaf að bera þannig að hér stefni í afar hörð verkfallsátök en við skynjum að ábyrgð okkar er mikil við að finna lausn á deilunni en eitt er víst að sú ábyrgð hvílir einnig á okkar viðsemjendum sem og með aðkomu stjórnvalda.  Því eitt er víst að lágtekjufólk ætlar ekki að bera eitt uppi stöðugleika í íslensku samfélagi á sama tíma og laun þeirra duga ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar

13
Feb

Páskar 2019

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í páskavikunni 2019. Um er að ræða vikuleigu frá 17. apríl til 24. apríl.

Þar sem alltaf er mikil ásókn í dvöl í orlofshúsum þessa viku er sá háttur hafður á að þeir sem hafa áhuga leggja inn umsókn í pott. Einn pottur er fyrir hvert hús og hægt er að sækja um á ákveðnum stöðum eða þeim öllum. Dregið er úr pottinum af handahófi, punktastaða skiptir ekki máli og ekki eru dregnir af punktar við úthlutun. Hringt er í þann sem dreginn er út og geti hann ekki nýtt sér vikuna, er dregið aftur. Greiða þarf leigu strax.

Tekið er á móti umsóknum á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 og í síma 4309900. Einnig er hægt að senda nafn, kennitölu og símanúmer á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til og með 8. mars en dregið verður þann 11. mars.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image