• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
08
Des

Annað málið gegn Skaganum 3x tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur

Rétt í þessu lauk aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli erlends starfsmanns gegn Skaganum 3x.

En málið laut að því að honum var sagt upp störfum og í þeirri uppsögn var hann einnig sviptur kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti sem hann hafði áunnið sér.

Málavextir voru þeir að hann var tekinn fyrir vörslu og meðferð fíkniefna á heimili sínu en gert var upptækt rétt rúmt eitt gramm af marijúana. Rétt er að geta þess að umræddur starfsmaður leigði herbergi hjá vinnuveitandanum og þegar honum var sagt upp þá var honum einnig sagt að yfirgefa herbergið sem hann hafði á leigu og stóð hann því bæði uppi húsnæðislaus sem og atvinnu- og tekjulaus vegna þess að vinnuveitandinn ætlaði að svipta hann rétti til launa í uppsagnarfresti.

Umræddur starfsmaður leitaði til Verkalýðsfélags Akraness og eftir að félagið hafði skoðað málið þá var ljóst að félagið taldi að starfsmaðurinn ætti rétt á launum í sínum uppsagnarfresti enda brot hans alls ekki af þeirri stærðargráðu að það heimilaði sviptingar á launum í uppsagnarfresti.

Íslenskur vinnumarkaður er mjög sveigjanlegur þegar kemur að því að segja upp starfsfólki og á þeirri forsendu einni saman er gríðarlega mikilvægt að launafólk haldi rétti sínum til launa í uppsagnarfresti nema brotið sé því alvarlegra. Í þessu máli er ekki slíku til að dreifa enda liggur ekki nokkur sönnun fyrir því að umræddur starfsmaður hafi nokkurn tímann verið undir áhrifum fíkniefna né annarra vímugjafa við vinnu sína. Engar þvag- eða blóðprufur voru framkvæmdar til að sanna að hann hafi verið undir áhrifum við vinnu sína og því er glórulaust að mati félagsins að svipta hann umræddum uppsagnarfresti

Þegar starfsmanninum var sagt upp var honum ekki boðið að fá trúnaðarmann né fulltrúa frá stéttarfélaginu til að vera sér innan handar við að verja sín réttindi. Uppsagnarbréfið var ekki á hans tungumáli og honum ekki boðið að hafa túlk hjá sér.  Með öðrum orðum hann vissi alls ekki hver hans réttur var og því leitaði hann til stéttarfélagsins til að verja sín réttindi

Það var alls ekkert deilt um rétt fyrirtækisins til að segja starfsmanninum upp einungis að fyrirtækið skuli hafa svipt  hann uppsagnarfrestinum sem hann hafði áunnið sér. Þessu til viðbótar var því komið rækilega á framfæri við dóminn að ekki hafi verið neinn ráðningarsamningur gerður við starfsmanninn né leigusamningur og honum kastað út á götuna atvinnulausum og án húsnæðis.

Fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega koma alls ekki svona fram við starfsfólk sitt þótt því verði á og það í frítíma sínum enda liggur eins og áður sagði engin sönnun fyrir því að hann hafi nokkurn tímann brotið af sér í starfi né verið undir áhrifum fíkniefna við störf sín. Sönnunarbyrði liggur öll á herðum vinnuveitenda að sanna slíkt enda hefði vinnuveitandinn átt að senda starfsmanninn í blóðprufu hafi rökstuttur grunur verið um slíkt.

Það er dauðans alvara að segja upp starfsfólki svo ekki sé talað um þegar því er hent á götuna og svipt uppsagnarfresti vegna atvika sem gerast í þeirra frítíma enda er það mat félagsins að slíkt sé algerla andstætt lögum og vinnurétti.

Það verður fróðlegt að sjá dómsniðurstöðu í þessu máli en það er skylda félagsins að reyna að verja réttindi sinna félagsmanna þegar við teljum að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna en dómur í þessu máli mun liggja fyrir eftir ca fjórar vikur.

28
Nóv

Mál gegn Skaganum 3x fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur

Í dag aðalmeðferð í máli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem Verkalýðsfélag Akraness kom að fyrir félagsmann sinn gegn Skaganum 3x. Málið snýst um brot á hvíldartíma og svokölluðum vikulegum frídegi. Verkalýðsfélag Akraness var ítrekað búið að reyna að leita leiða til sátta í málinu án nokkurs vilja af hálfu fyrirtækisins.

Í aðalmeðferðinni kom fram að krafa starfsmannsins er rétt rúm 1 milljón vegna áðurnefndra brota en það er stefna Verkalýðsfélags Akraness að verja réttindi sinna félagsmanna með kjafti og klóm ef minnsti vafi leikur á að verið sé að brjóta á félagsmönnum VLFA. Því miður er það þannig að þónokkrar ábendingar hafa borist á undanförnum misserum og árum um hugsanleg kjarasamningsbrot á starfsmönnum sem starfa hjá umræddu fyrirtæki. Meðal annars hefur komið fram nafnlaus ábending til ASÍ í gegnum átakið "Einn réttur, ekkert svindl" þar sem sagt var að starfsmenn hefðu grunsemdir um að verið væri að brjóta á réttindum þeirra.

Þetta var allt rakið fyrir aðalmeðferðinni í dag og það var í raun og veru ótrúlegt að hlusta á forsvarsmenn fyrirtækisins útskýra ástæður fyrir því að starfsmaðurinn ætti ekki rétt á umræddum greiðslum en allt voru þetta útskýringar sem standast enga skoðun og hafa hvergi komið fram í samskiptum VLFA við fyrirtækið né starfsmanninn þar til málið var dómtekið.

Það er líklegt að dómur muni falla í þessu máli fyrir jól en dómarinn hefur samkvæmt lögum fjórar vikur til að kveða upp úrskurð sinn. Lögmaður félagsins stóð sig mjög vel í þessu máli, var rökfastur og lagði fram óyggjandi gögn og sannanir að mati félagsins máli sínu til stuðnings en slíku var ekki til að dreifa hjá lögmanni fyrirtækisins. Þar voru engin gögn lögð fram sem staðfestu mál þeirra.

Það er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki þar sem félagsmenn VLFA eru að starfa að átta sig á því að félagið sættir sig á engan hátt við að brotið sé á kjarasamningsbundnum réttindum félagsmanna þess og ef minnsti grunur er um slíkt eins og áður sagði þá kemur félagið félagsmönnum sínum til aðstoðar og lætur á málin reyna fyrir dómstólum ef ekki næst sátt í slíkum málum.  

21
Nóv

Forseti ASÍ segir að allir forstjórar sem séu núna á eftirlaunum fái fullar bætur frá Tryggingastofnun!

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni  sjá hér og hér þá hefur Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnt forystu ASÍ harðlega hvernig hún hefur fótum troðið kjarasamningsbundinn rétt launafólks er lýtur að ráðstöfun á svokallaðri bundinni séreign sem um var samið í kjarasamningum í janúar 2016. Nægir að nefna í því samhengi að Fjármálaeftirlitið hefur í þrígang þurft að benda forystu ASÍ á að þeirra tilmæli til lífeyrissjóðanna standist ekki lagastoð sjá hér og hér

Vegna þessarar gagnrýni frá Verkalýðsfélagi Akraness var formanni Verkalýðsfélags Akraness og forseta ASÍ  boðið að koma í þáttinn Reykjavík síðdegis á síðasta fimmtudag til að fjalla um þennan ágreining.

Í þessu viðtali þá rakti formaður söguna um aukið framlag sem samið var um í kjarasamningunum 2016 og þau alvarlegu atriði sem VLFA hefur gert athugasemdir við hvað varðar tilburði forystu ASÍ til að vinna gegn hagsmunum félagsmanna ASÍ.

Eitt af því sem VLFA hefur gagnrýnt harðlega er að hugmyndir eru uppi um að þessi tilgreinda séreign muni skerða bætur almannatrygginga. En formaður gagnrýndi þann þátt sérstaklega enda glórulaust að vera að semja um aukið framlag í lífeyrissjóði ef það leiðir til skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun enda eru allir vitibornir menn sammála um mikilvægi þess að draga úr öllum tekjutengingum hvað varðar greiðslur frá Tryggingastofnun. Það er mat flestra að þessar tekjutengingar séu á góðri leið með að eyðileggja lífeyriskerfið enda lítill ávinningur sem launafólk hefur þegar nánast allar greiðslur frá Tryggingastofnun eru dregnar frá vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum. Því hefur VLFA sagt það óskiljanlegt að forysta ASÍ sé að vinna að því að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf hvað greiðslur frá Tryggingastofnun varðar.

Á hverju byggir Verkalýðsfélag Akraness það að hugmyndir séu uppi um að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf? Halda menn virkilega að VLFA sé bara að búa slíkt til? Að sjálfsögðu ekki enda var það tilkynnt á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs að þessi tilgreinda séreign yrði skerðingarhæf og á þessum auka aðalfundi var Halldór Benjamín framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og í samtali formanns VLFA við hann kom fram að vilji SA og ASÍ væri sá að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf.

Þessar hugmyndir um skerðingu á greiðslum frá Tryggingastofnun voru líka ræddar á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var í október og þar voru þessar hugmyndir líka staðfestar.

Það var því með ólíkindum að hlusta á óheiðarleika forseta ASÍ í þessum umrædda þætti þar sem hann þrætti eins og sprúttsali fyrir það að einhverjar slíkar tillögur væru á teikniborðinu. Það er sorglegt að maður sem á að vera æðsti maður íslenskrar verkalýðshreyfingar vílar ekki fyrir sér að segja þjóðinni og sínum félagsmönnum ósatt. Það eru vinnubrögð sem engum eru sæmandi og allra síst forseta ASÍ.

En orðrétt sagði forseti ASÍ um hvort tilgreind séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarstofnun:

„Það eru engar tillögur um það hvorki í ákvörðun miðstjórnar né í samningi þeim sem við gerðum né í því frumvarpi sem var til vinnslu. Þannig að ég veit ekki alveg hvaðan þú tekur þetta. Það eru engar tillögur á borðinu svo ég viti.“

Þetta svar er ótrúlegt og virkilega óheiðarlegt í ljósi þess sem hér að ofan hefur verið rakið m.a. var það kynnt eins og áður sagði að þessi tilgreinda séreign yrði skerðingarhæf á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs og nú kannast forseti ASÍ ekki við eitt né neitt.

Þetta var alls ekki það eina sem vakti athygli sem forseti ASÍ sagði í þessu viðtali en hann sagði að allir forstjórar landsins sem væru komnir á eftirlaun fengju fullar bætur frá Tryggingastofnun vegna þess að þeir hefðu tekið allan lífeyri sinn út í séreign. Hér er mjög alvarleg ásökun sem forseti ASÍ slengir fram og 99,9% líkur á að þetta standist ekki nokkra skoðun en sé sagt í þeim tilgangi að reyna að afvegaleiða umræðuna frá því að til standi að skerða tilgreindu séreignina.

Það er algjör skylda fréttamanna að krefja forseta ASÍ skýringa á þessari ásökun um að allir forstjórar landsins sem eru komnir á eftirlaun séu að fá fullar bætur frá Tryggingastofnun á meðan almenningur fær skerðingu á sínar greiðslur eins og forseti ASÍ sagði orðrétt í þessu viðtali.

En orðrétt sagði forseti ASÍ um að forstjórar landsins væru að fá fullar bætur frá Tryggingarstofnun:

„Það er mjög sérstakt að eftir að tekin var ákvörðun um það á Alþingi að séreign skerti ekki bætur frá almannatryggingum, þegar allir forstjórar landsins greiddu í séreignasjóði áður en lögin komu til þeir sem eru núna komnir á eftirlaun í gegnum sína séreignasjóði fá núna fullar bætur frá Tryggingastofnun á meðan félagsmenn okkar Vilhjálms þurfa að þola þessa skerðingu. Við höfum sagt við Alþingi að það sé mjög skrýtin jafnræðisregla að sumir fái bætur almannatrygginga óskertar en almenningur ekki.“

Að hugsa sér að í þessu viðtali segir forseti ASÍ að allir forstjórar séu að fá fullar bætur vegna þess að þeir hafi notið þess að greiða sér bara frjálsa séreign sem ekki skerðir bætur frá Tryggingastofnun. Þetta eru stórtíðindi sem bæði forstjórar landsins sem og Samtök atvinnulífsins verða að svara. Er það rétt hjá forseta ASÍ að allir forstjórar sem eru komnir á eftirlaun séu að fá fullar greiðslur frá Tryggingastofnun á sama tíma og almenningur þarf að þola krónu á móti krónu skerðingar frá Tryggingarstofnun?

Þessu verðum við að fá svör við því það gengur ekki upp að forseti ASÍ geti komið og skellt svona fram og það er grafalvarlegt ef hann er að gera þetta til að afvegaleiða umræðuna sem lýtur að því að gera eigi tilgreindu séreignina skerðingarhæfa eins og tilkynnt hefur verið t.d. á auka aðalfundi Festu lífeyrissjóðs.

15
Nóv

FME tekur forystu ASÍ og Samtök atvinnulífsins á lærið og rassskellir þá enn og aftur

Formaður félagsins skrifaði ítarlega frétt hér á heimasíðuna 25 júlí um það hvernig Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað reynt að fá lífeyrissjóðina til að þverbrjóta lög nr 129/1997 um lífeyrismál en sem betur fer hefur Fjármálaeftirlitið staðið vaktina vel og bent lífeyrissjóðunum á að það sem ASÍ og SA vilja láta þá framkvæma standist ekki lög.

Málið lýtur að því að ASÍ og SA vilja þvinga launafólk til að greiða allt mótframlagið inn til lífeyrissjóðanna en þetta auka framlag mun nema þegar það verður komið að fullu til framkvæmda 3.5%. FME hefur ítrekað bent á að launafólk hefur val um að greiða svokallaða tilgreinda séreign til hvaða vörsluaðila sem það kýs að velja en þessu hafa ASÍ og SA ekki viljað una þrátt fyrir að FME hafi ítrekað bent á að þvingun þeirra stangist á við lög. Sjá hér og hér

Þrátt fyrir þessar alvarlegu ábendingar Fjármálaeftirlitsins þá hefur forysta ASÍ reynt ítrekað að koma í veg fyrir að launafólk geti valið sér vörsluaðila til að ávaxta þessa svokölluðu séreign. En ASÍ og SA hafa verið að reyna að fá stjórnvöld til að breyta lögum þannig að allt launafólk verði þvingað með lögum til að leggja allt framlagið inn til lífeyrissjóðanna og ekki bara það heldur leggja ASÍ og SA til að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingarsofnun sem er með öllu óskiljanlegt.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur FME ítrekað bent á að þetta stangist á við lög um lífeyrismál en þrátt fyrir það hætta ASÍ og SA ekki við að reyna að koma í veg fyrir það að launafólk hafi þetta val og þeir reyna að beita öllum brögðum í bókinni til þess og núna samþykkti miðstjórn ASÍ að óskað yrði eftir því við lífeyrissjóðina að launafólk hefði ekki val um að leggja aukið framlag upp á allt að 3,5% í svokallaða tilgreinda séreign heldur vildi miðstjórn ASÍ að allt framlagið myndi renna í samtrygginguna þvert gegn því sem samþykkt var í kjarasamningum frá 2016. Formaður VLFA efaðist strax um að miðstjórn ASÍ hefði lagalega heimild til að svíkja launafólk með þessum hætti og ákvað því að senda erindi á Fjármálaeftirlitið og spurði hvort hægt væri fyrir lífeyrissjóðina að banna launafólki að leggja auka framlagið í tilgreinda séreign en þvinga það þess í stað til að setja það allt í samtrygginguna þvert gegn samþykktum sjóðanna og kjarasamningsbundnum rétti launafólks.

Svar Fjármálaeftirlitsins til Verkalýðsfélags Akraness var skýrt, en við fyrstu skoðun segir FME að það stangist á við lög og samþykktir lífeyrissjóðanna og bendir á að breyta þurfi samþykktum lífeyrissjóðanna ef þetta eigi að vera hægt!!!!

Semsagt enn og aftur reynir forysta ASÍ og SA að brjóta lög nr. 129/1997 um lífeyrismál og núna vildu þau að kjarasamningsbundinn réttur launafólks sem samið var um 2016 yrði að engu hafður þannig að launafólk hefði ekki lengur val um að leggja hluta að þessu  mótframlagi í séreign eins og samið hafði verið um og líka í ljósi þess að búið var að breyta samþykktum lífeyrissjóða til að gera þetta framkvæmanlegt.

Formaður VLFA verður að hrósa Fjármálaeftirlitinu, en þetta er í þriðja sinn sem FME tekur forystu ASÍ og Samtaka atvinnulífsins á lærið og rassskellir þá vegna tilgreindu séreignarinnar og segir svona gerið þið ekki því þið eruð að brjóta lög!

Það er með svo miklum ólíkindum hvernig forysta ASÍ fótum treður réttindi sinna félagsmanna og leggur til ítrekað að lög og samþykktir lífeyrissjóðanna séu brotnar.Svo ekki sé talað um kjarasamningsbundin réttindi félagsmanna sinna.

En hvað vakir fyrir forystu ASÍ? Formaður skal fúslega viðurkenna að hann áttar sig alls ekki á því annað en það að þeir vilja að allt þetta aukaframlag upp á 3,5% renni allt til lífeyrissjóðanna og launafólk hafi alls ekki val um að velja sér aðila annan en lífeyrissjóðina til að ávaxta þessa tilgreindu séreign. Þeir vilja að lög verði sett sem skyldi allt launafólk til að leggja allt framlagið til lífeyrissjóðanna og launafólk hafi ekkert annað val. Þeir vilja líka að þessi tilgreinda séreign verði skerðingarhæf frá greiðslum frá Tryggingastofnun sem er með öllu óskiljanlegt.

Það er mér allavega hulin ráðgáta hví forystan vinnur svona gegn sínum eigin félagsmönnum og þeir virðast vera til í að fórna hagsmunum þeirra til að verja hagsmuni lífeyriskerfisins.

En allavega hefur Fjármálaeftirlitið enn og aftur slegið illilega á puttana á forystu ASÍ og sagt svona gera menn ekki! Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki að láta forystu Alþýðusambandsins komast upp með þessi vinnubrögð.

09
Nóv

Dagbækurnar komnar á skrifstofu félagsins

Nú geta félagsmenn nálgast vasadagbækur fyrir árið 2018 á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13. Dagbækurnar eru alltaf vinsælar hjá félagsmönnum VLFA enda gott að geta skipulagt tímann bæði í leik og starfi. Félagsmenn utan Akraness geta haft samband við starfsfólk skrifstofu og fengið dagbók senda í pósti sér að kostnaðarlausu.

27
Okt

Breyta verður vinnulöggjöfinni

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum dögum þá bera nokkrir starfsmenn sem hafa starfað hjá Norðuráli fyrirtækið þungum sökum. Sökum sem byggja á því að fyrirtækið sé að segja starfsfólki upp störfum eftir mjög langan starfsaldur og jafnvel án þess að fólk hafi fengið áminningar áður. Það eru því miður líka dæmi þess að uppsagnir séu að mati formanns einfaldlega kolrangar og ástæður sem gefnar séu upp standist ekki nokkra skoðun.

Það liggur fyrir að á íslenskum vinnumarkaði geta komið upp atvik sem valda því að segja þarf fólki upp störfum vegna þess að hugsanlega brýtur það af sér í starfi eða sinnir ekki sinni vinnu eins og eðlilegt getur talist. Þetta vitum við að er hluti af íslenskum vinnumarkaði - að fólk sem brýtur af sér eða mætir seint og illa til vinnu getur átt von á því að verða sagt upp störfum. Við slíku er oft lítið hægt að segja eða gera enda er vinnulöggjöfin þannig að fyrirtæki hafa heimild til að ráða og reka fólk svo framarlega sem uppsagnarákvæði kjarasamninga eru virt.

Hinsvegar er það grafalvarlegt þegar fyrirtæki segja upp starfsfólki jafnvel vegna afar lítillar ástæðu eða jafnvel án þess að nokkur ástæða sé til. Það er dauðans alvara þegar fyrirtæki grípa til þess að segja upp fólki enda getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir þann sem fyrir slíku verður. Það er ekki bara að fólk missi lífsviðurværi sitt heldur getur höggið við það að lenda í uppsögn leitt til andlegs niðurbrots fyrir þann sem fyrir slíku verður. Það liggur til dæmis fyrir að starfsmaður sem verður fyrir atvinnumissi skorar mjög hátt í þáttum er valda angist, kvíða og aukinni streitu samkvæmt rannsóknum. Formaður þekkir slík dæmi og því er það lágmarks krafa sem hægt er að gera til stjórnenda fyrirtækja að vanda sig afar vel þegar kemur að því að segja upp starfsfólki. Það er líka algert lágmark að fólki sé gefinn kostur á að bæta sitt ráð því það er óþolandi með öllu þegar við fáum inn á borð til okkar uppsagnir þar sem ekki liggja einu sinni fyrir skriflegar áminningar.

Eins og áður sagði hefur mikið verið fjallað um uppsagnir og harðneskjulega óttastjórnun í Norðuráli í fjölmiðlum að undanförnu. Því miður eru dæmi til þess að uppsagnir í Norðuráli hafa verið framkvæmdar þannig að þær standist ekki nokkra skoðun, það er því miður sorgleg staðreynd.

Það vita það allir sem vita vilja að fá stéttarfélög á Íslandi reyna að verja réttindi sinna félagsmanna eins mikið og VLFA. Formaður hefur gert mjög alvarlegar athugasemdir við nokkrar uppsagnir á liðnum misserum og árum við forsvarsmenn Norðuráls. Formaður hefur oft fundað um þessar uppsagnir og komið mjög hörðum mótmælum á framfæri ekki bara á fundum heldur líka í formi bréfaskrifta. Öll þessi samskipti sýna að félagið er tilbúið að vaða eld og brennistein til að verja atvinnuöryggi og velferð sinna félagsmanna.

Það er morgunljóst að því miður eru dæmi til þar sem uppsagnir í Norðuráli standast ekki skoðun og það þýðir ekkert fyrir stjórnendur fyrirtækisins að haga sér eins og strútar og stinga höfðinu í sandinn hvað það varðar. Stjórnendur eiga að læra að hlusta á þær ábendingar sem fram koma því harðneskjuleg óttastjórnun er alls ekki til þess fallin að fá það besta út úr hverjum starfsmanni.

Formaður vill taka það skýrt fram að það er fullt af flottum stjórnendum í Norðuráli sem koma fram við starfsmenn af mannúð, virðingu og sanngirni en því miður gildir það ekki um alla og á því verður að taka. Það er hlutverk Verkalýðsfélags Akraness að standa vörð um velferð sinna félagsmanna og verja þeirra atvinnuöryggi þegar vegið er að þeim að ósekju og það hefur félagið ætíð reynt að gera.  Stóra vandamálið liggur í vinnulöggjöfinni þar sem fyrirtæki hafa vald til að segja fólki upp svo framarlega sem uppsagnarákvæði kjarasamninga séu virt. Formaður telur að þessu þurfi að breyta þannig í vinnulöggjöfinni að fyrirtæki geti alls ekki sagt flekklausu starfsfólki upp störfum jafnvel fólki með tugi ára í starfsreynslu.

Það er svo sorglegt þegar starfsmanni er sagt upp störfum og greiddur er uppsagnarfrestur að lítið sé hægt að gera vegna þess að vinnulöggjöfin geri ráð fyrir að fyrirtæki geti sagt öllum þeim upp störfum sem þau kjósa að segja upp. Formaður gerir sér algerlega gein fyrir að fyrirtæki þurfa að geta sagt upp starfsfólki sem brýtur af sér í starfi en gerir þá lágmarkskröfu að ekki séu framkvæmdar uppsagnir sem standast ekki skoðun eins og dæmi eru um hjá Norðuráli á liðnum misserum.

Verkalýðsfélag Akraness er með eina slíka uppsögn inni á borði hjá sér núna en það er uppsögn sem laut að vinnuslysi þar sem starfsmanninum var sagt upp störfum vegna þess að hann átti að hafa verið valdur að slysinu en síðar kom í ljós að búnaður þess krana sem hann stjórnaði var bilaður.  Fyrirtækið sagði viðkomandi upp störfum  og sendi einnig frá sér fréttatilkynningu strax eftir slysið um að kraninn hafi verið í lagi en rannsókn Vinnueftirlitsins leiddi síðan í ljós að það var rangt því kraninn var bilaður. Félagið hefur ítrekað reynt að leysa málið í sátt þannig að fyrirtækið viðurkenni sín mistök og greiði umræddum manni miskabætur vegna þeirrar sálarangistar sem hann þurfti að þola vegna þeirra ásakana sem bornar voru á hann.  Engar slíkar viðræður hafa borið árangur hingað til en málið er í lögfræðilegri meðferð hjá lögmanni félagsins.  Það er hins vega ljóst að ef ekki næst sátt í þessu máli mun Verkalýðsfélag Akraness stefna Norðuráli fyrir dómstóla þar sem krafist verður miskabóta vegna þess að á starfsmanninn voru bornar þungar sakir um að bera einn ábyrgð á slysinu sem ekki reyndist rétt eins og fram kemur í skýrslu Vinnueftirlitsins.

Norðurál og reyndar öll fyrirtæki þurfa að koma fram við sitt starfsfólk að virðingu og sanngirni og læra að viðurkenna þegar mistök eru gerð en því miður hefur stjórnendum Norðuráls á Grundartanga reynst erfitt að viðurkenna mistök og er það miður.

Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki og mun ekki gefa neinn afslátt af því að verja réttindi og velferð sinna félagsmanna. Sem dæmi þá er VLFA með 5 mál fyrir dómstólum þar sem verið er að verja réttindi okkar félagsmanna. Formaður efast um að nokkurt stéttarfélag sé með jafn mörg mál inni í dómskerfinu eins og VLFA.  Bara á síðasta ári vann VLFA tvö dómsmál gagnvart Norðuráli sem skilaði þeim sem heyrðu undir dóminn 30 milljónum.

Það er svo sorglegt að alltof margir starfsmenn Norðuráls upplifa harðneskjulega óttastjórnun á sínum vinnustað en stjórendur fyrirtækisins virðast alls ekki vera tilbúnir að viðurkenna að svo sé þrátt fyrir það blasi við að svo sé.  Hræðsluóróðurinn sem er rekin á vinnustaðnum gerir það að verkum að sumir starfsmenn þora alls ekki að tjá sína skoðun með þeim krafti sem þyrfti og formaður skilur það mjög vel.  Enda eru starfsmenn hræddir um að missa lífsviðurværi sitt ef þeir tjá sig þannig að þeir gagnrýni stjórnunarhætti fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti formaður fund með framkvæmdastjóra Norðuráls í morgun og á þeim fundi fór hann yfir öll þessi mál og krafðist þess að Verkalýðsfélag Akraness og forsvarsmenn Norðuráls færu í þá vinnu að greina og finna út hvað það er nákvæmlega sem orsakar það að of mörgum starfsmönnum líður ekki vel í vinnunni.  Lagði formaður til að VLFA myndi koma að því að greina hvort eitthvað væri hæft í þeim alvarlegu ásöknum hvað slæma stjórnunarhætti varðar en því miður hafnaði framkvæmdastjóri Norðuráls aðkomu félagsins að þeirri vinnu!

Þetta á að vera sameiginlegt verkefni, að finna rót vandans og gera vinnustaðinn svo góðan að öllum líði vel og óttist ekki að koma til vinnu.

Það er líka mikilvægt að það komi skýrt fram að fyrirtækið hefur líka gert margt mjög gott fyrir marga starfsmenn. Sem dæmi þá liggur fyrir að þegar fólk lendir í miklum áföllum bæði persónulega eða í sinni fjölskyldu þá hefur fyrirtækið oft hjálpað til. Það er mikilvægt að halda því góða sem gert er líka til haga og því er svo sorglegt þegar það slæma yfirtekur allt það sem vel er gert.

Formaður sagði í morgun að það verður ekki hjá því komist að fara í algera greiningu á líðan starfsmanna, greiningu sem hafin er yfir allan vafa og formaður lagði til að þegar sú greining eða könnun yrði gerð þá fengi formaður VLFA að taka þátt í henni þannig að við getum komist að því hvað er að og hvað þarf að lagfæra.

Ég veit að margir starfsmenn eru stoltir af sínu fyrirtæki og vilja því allt það besta og því er mikilvægt að við tökum öll höndum saman um að gera Norðurál að enn betri vinnustað en nú er og við höfum full tækifæri til slíks og nægir að nefna í því samhengi að hvergi eru launakjör betri hjá ófaglærðu starfsfólki en hjá Norðuráli þótt alltaf megi gera betur í þeim efnum. En aðalmálið er að velferð starfsmanna sé tryggð og öllum líði vel og VLFA mun halda áfram að vinna að því að svo verði.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image