• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
07
Feb

Formaður á 80 manna fundi með starfsmönnum leikskólanna á Akranesi

Í gær héldu starfsmenn leikskólanna á Akranesi baráttu-og skemmtifund á Gamla kaupfélaginu og var Haraldi Frey Gíslasyni formanni Félags leikskólakennara og formanni Verkalýðsfélags Akraness boðið að fara yfir stöðuna á vinnumarkaði og komandi kjarasamninga.

Það var gríðarlega góð og jákvæð stemmning á þessum fundi en hátt í 80 starfsmenn leikskólanna voru á fundinum. Formaður fór yfir stöðuna í komandi kjarasamningum sem og hugmyndir er lúta að aðkomu stjórnvalda til að liðka fyrir þeirri kjarasamningslotu sem framundan er, bæði á hinum almenna vinnumarkaði sem og  hinum opinbera.

Formaður greindi frá því að mótun á kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga sé á lokastigi en hvatti félagsmenn sína eindregið til að koma með hugmyndir inní þá kröfugerð ef einhverjar væru.

Hann tjáði fundarmönnum að uppbygging á kröfugerðinni yrði með álíkum hætti og kröfugerð verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði væri. Það er að segja að laun ófaglærðs fólks dygðu fyrir lágmarksframfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út. Hann sýndi að starfsmaður á leikskóla væri með um 350.000 kr. á mánuði og það vantaði því um 85.000 á mánuði til að þau næðu þessum lágmarksframfærsluviðmiðum.

Hann nefndi í erindi sínu að hann myndi óska eftir samtali við bæjaryfirvöld um viðræður er lúta að sérákvæðum í samningum og nefndi hann að þónokkur sveitafélög eru að gera mun betur fyrir tekjulægsta fólkið heldur en Akraneskaupstaður.

Vitnaði formaður m.a til þess að Grindavíkurbær ætlar að koma með sérstaka einhliða hækkun lægstu launa til handa sínum starfsmönnum. Hann nefndi einnig að Hvalfjarðasveit greiðir ófaglærðum starfsmönnum 22 þúsund króna launauppbót í hverjum mánuði til starfsmanna í grunn-og leikskólum og að ófaglærðir starfsmenn á leikskólum fá 10 tíma í yfirvinnu í hverjum mánuði fyrir að þurfa að matast með börnunum. Einnig eru sum sveitafélög að láta ófaglært starfsfólk fá 1 launaflokk til viðbótar.

Formaður VLFA nefndi að þetta séu allt atriði sem hann ætli að taka upp við bæjaryfirvöld, því við verðum að tryggja að allir starfsmenn Akraneskaupstaðar geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

 

Glærur af fundinum má sjá hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image