• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Verkalýðsfélag Akraness stefnir Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna Frá vertíðinni 2015 (mynd af mbl.is/Golli)
24
Jul

Verkalýðsfélag Akraness stefnir Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagins þá var kveðinn upp dómur 28. júní í Héraðsdómi Vesturlands í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. Kröfuliðir stefnunnar voru í fjórum liðum og vannst aðalkröfuliðurinn en Hvalur var sýknaður af hinum þremur kröfuliðunum og mun VLFA klárlega áfrýja þessum þremur kröfuliðum til Hæstaréttar.

Rétt er rifja upp að Verkalýðsfélag Akraness ákvað að fara með málefni eins starfsmanns fyrir héraðsdóm sem prófmál og náði krafan einungis fyrir eina hvalvertíð eða nánar tiltekið vertíðina 2015.

Það liggur fyrir að sérstöku greiðslunnar sem vannst fyrir Héraðsdómi Vesturlands 28. júní er getið í öllum ráðningarsamningum starfsmanna fyrir vertíðirnar 2013,2014 og 2015 og því er fordæmisgildi þessa dóms ótvírætt.

Krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins og dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Aðalkrafa félagsins byggðist á því að í ráðningarsamningi starfsmanna er getið um að fyrir hverja 12 tíma vakt séu greiddar 33.142 kr. á virkum dögum og 36.997 kr. fyrir helgarvaktir.

Í öðrum lið í ráðningarsamningi starfsmanna kveður á um að í sérstakri greiðslu séu greiddar 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.

Ágreiningurinn laut að því að Hvalur hf. vildi meina að þessi sérstaka greiðsla upp á 5.736 kr. fyrir hverja vakt vegna skerðingar á hvíldartíma og ferða til og frá vinnustað hafi verið inni í vaktakaupinu, en dómurinn tók undir það með VLFA að starfsmenn hefðu klárlega mátt skilja ráðningarsamninginn þannig að þessi greiðsla væri til viðbótar vaktarkaupinu.

En rétt er að geta þess að ekki nokkur sundurliðun um þessa sérstöku greiðslu kom fram á launaseðlum starfsmanna enda þurftu lögmenn Hvals að koma með ótrúlega reikniformúlu til að láta greiðslur á launaseðli ganga upp eins og kom fram við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Vesturlands.

Það er ljóst að þessi dómur hefur klárlega fordæmisgildi eins og áður sagði gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hval hf. á vertíðunum 2013, 2014 og 2015. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur muni geta kostað Hval hf. um eða yfir 200 milljónir ef hann verður staðfestur í Hæstarétt.

En núna hafa forsvarsmenn Hvals tilkynnt lögmanni Verkalýðsfélags Akraness að fyrirtækið muni áfrýja þessari niðurstöðu er laut að sérstöku greiðslunni til Hæstaréttar.

Í ljósi þessi að Hvalur ákvað að áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar þá óskaði lögmaður Verkalýðsfélags Akraness eftir því við forsvarsmenn Hvals að fyrirtækið myndi gefa út yfirlýsingu sem byggðist á því að Hvalur hf. myndi ekki beita fyrir sig fyrningu hvað varðar kröfu annarra starfsmanna  vegna vertíðanna 2013 og 2014.  En áætla má að niðurstaða frá Hæstarétti liggi ekki fyrir fyrr en seint á næsta ári. Það myndi þýða að kröfur vegna vertíðanna 2013 og 2014 myndu fyrnast.

Það kom okkur í Verkalýðsfélagi Akraness verulega á óvart að forsvarsmenn Hvals hf. hafi þvertekið fyrir það að gefa slíka yfirlýsingu út og því var Verkalýðsfélag Akraness nauðbeygt til að stefna fyrir hönd 97 félagsmanna þess sem störfuðu hjá Hval á vertíðunum á árunum 2013, 2014 og 2015 til þess að rjúfa fyrninguna. Það var mjög undarlegt og hálf harðneskjulegt að forsvarsmenn Hvals hafi ekki verið tilbúnir að gefa slíka yfirlýsingu út og bíða síðan eftir niðurstöðu frá Hæstarétti.

Það blasir við að umtalsverðir hagsmunir eru hér í húfi fyrir þá starfsmenn sem um ræðir og því var mjög mikilvægt fyrir VLFA að stefna fyrir alla sína félagsmenn til að rjúfa fyrninguna og var forsvarsmanni Hvals hf. afhent stefna á síðasta föstudag fyrir 97 félagsmenn VLFA. Það þýðir að fyrningin hefur verið rofin frá og með 21. júlí 2017.

Eins og áður sagði þá var Hvalur dæmdur til að greiða starfsmanni vegna vertíðarinnar 2015 tæpar 500.000 krónur og það þýðir að starfsmaður sem var allar þrjár vertíðarnar 2013, 2014 og 2015 getur klárlega átt vangreidd laun sem nema um eða yfir 1,5 milljón.

Það er yfirlýst stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að standa ætíð vörð um réttindi og kjör sinna félagsmanna og verja þau með öllum tiltækum ráðum ef með þarf en gríðarleg vinna og tími hefur farið í þessi mál því það er ekkert smá mál að þurfa að stefna fyrirtæki fyrir 97 starfsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image