• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
May

Þolinmæðin á þrotum !

Til stendur að halda samningafund vegna kjarasamnings Klafa og Fangs á miðvikudaginn nk.  Reyndar átti að funda á morgun, en forsvarsmenn Klafa óskuðu eftir því í dag við Verkalýðsfélag Akraness að fundinum yrði frestað allavega til miðvikudags.  Formaður félagsins hefur verið í nánu sambandi við starfsmenn fyrirtækjanna að undanförnu.  Þolinmæði starfsmanna er nánast lokið eðlilega, þar sem 6 mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar þessara fyrirtækja runnu út.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá mun Verkalýðsfélag Akraness vísa þessum deilum til sáttasemjara í vikulok ef ekkert markvisst gerist í þessari viku.

09
May

Viðræður við Launanefnd sveitarfélaga eru hafnar um nýjan kjarasamning

Fyrsti fundur stýrihóps Starfsgreinasambands Íslands með Launanefnd sveitarfélaga var haldinn 3. maí í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Á fundinum voru lagðar fram samningskröfur SGS félaga og var gerð grein fyrir þeim.  Launanefnd sveitarfélaganna gerði grein fyrir markmiðum sínum vegna komandi kjarasamningsgerðar.  Einnig óskaði LN eftir því að stéttarfélögin leggðu fram þau sérákvæði sem þau hafa við sínar sveitarstjórnir.   Það eru um 30  félagsmenn sem vinna eftir sveitafélagssamningnum.  Kjarasamningurinn rann út 30. apríl.

07
May

Verkalýðsfélag Akraness lagði fram kröfur vegna nýs kjarasamnings fyrir starfsmenn Fangs

Fundað var um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs á föstudaginn.  Stéttarfélögin lögðu fram kröfur sínar á fundinum og gerði formaður félagsins grein fyrir þeim.  Kröfurnar eru í samræmi við það sem um samdist við Íslenska járnblendið.   Verkalýðsfélag Akraness á eftir að semja við tvö fyrirtæki á Grundartangasvæðinu þ.e Klafi og Fang.  Verkalýðsfélag Akraness hefur miklar áhyggjur yfir þeim seinagangi  sem hefur einkennt allt í kringum þessar samningaviðræður.  Því eins og áður hefur komið  hér á síðunni, þá vilja starfsmenn og stéttarfélagið að eitthvað fari að gerast í þessum samningaviðræðum.  Kjarasamningar þessara fyrirtækja runnu út 1. desember 2004.  Ef ekkert markvisst gerist í næstu viku mun Verkalýðsfélag Akraness vísa deilunum til ríkissáttasemjara.

05
May

Samningafundur um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs verður haldinn á föstudaginn

Samningafundur um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Fangs sem eru starfsmenn sem starfa í eldhúsi og ræstingu hjá Íslenska járnblendifélaginu verður haldinn á föstudaginn nk.  Kröfur starfsmanna Fangs eru með sama hætti og hjá starfsmönnum Klafa, það er sömu hækkanir og starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins sömdu um fyrir skemmstu.  Frá þeirri kröfu verður ekki kvikað.

04
May

Skýrist í næstu viku hvort mikið ber á milli samningsaðila í kjaraviðræðum við Klafa

Verkalýðsfélag Akraness og trúnaðarmaður Klafa lögðu fram í morgun kröfur starfsmanna Klafa og gerðu forsvarsmönnum fyrirtækisins grein fyrir þeim.  Starfsmenn og stéttarfélögin eru orðin nokkuð pirruð yfir þeim seinagangi sem hefur verið með að hefja viðræður um nýjan kjarasamning.  Kjarasamningur starfsmanna var laus 1. desember . Ef ekkert markvisst gerist í næstu viku þá er allt eins líklegt að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara.  Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir að samningafundur verði á mánudaginn nk og tóku forsvarsmenn Klafa vel í það.  Á þeim fundi mun væntanlega skýrast hvort mikið beri á milli samningsaðila.  Það verður að vera forgangsverkefni hjá samningsaðilum að klára nýjan kjarasamning eins fljótt og verða má.

03
May

Fram kom í hátíðarræðu Hagfræðings ASÍ, að flest bendi til þess að kjarasamningum á hinum almenna markaði verði sagt upp í haust

Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ sagði í hátíðarræðu sinni á 1. maí á Akranesi  orðrétt.

"Flest bendir því til að við verðum að vera undir það búin að kjarasamningum verði sagt upp í haust og við þurfum að setjast að samningaborðinu fljótlega".

Hagfræðingur ASÍ sagði líka að engin hefði viljað axla ábyrgðina með okkur þegar kjarasamningarnir á hinum almennamarkaði voru gerðir.  Er Ólafur Darri væntanlega vísa til þeirra staðreynda að allir hópar sem sömdu eftir almenna markaðnum hafa fengið umtalsvert meira heldur 15.8% á samningstímanum.  Orðrétt sagði Ólafur Darri um þennan þátt.

"Þegar við gengum til kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir ári síðan voru því spennandi tímar framundan, tímar sem gátu skilað bættum kjörum til alls almennings, ef rétt væri á málum haldið.

 Við þessar aðstæður ákváðum við að leggja okkar að mörkum til að tryggja stöðugleika og leggja þannig grunn að kaupmáttaraukningu, hagsæld og jafnvægi á vinnumarkaði og uppbyggingu starfa til framtíðar.

Við gerðum ráð fyrir að breið samstaða myndi nást um þessar áherslur. Að aðrir myndu leggjast á árarnar með okkur. En þegar horft er til baka er allt sem bendir til að þarna höfum við misreiknað okkur. Engin hefur viljað axla ábyrgðina með okkur"

Verkalýðsfélag Akraness tekur heilshugar undir með hagfræðingi ASÍ í þessu máli ekkert annað kemur til greina en að leiðrétting verði gerð á kjarasamningi á hinum almenna markaði, ella verði kjarasamningum sagt upp í haust.  

Hægt er að lesa hátíðarræðuna í heild sinni með því að smella á meira

Góðir félagar

Í dag 1. maí, á alþjóðlegum baraáttudegi verkalýðsins leggjum við áherslu á kröfur okkar um betri kjör.

Í dag er einnig við hæfi að horfa yfir farin veg og leggja mat á hvað áunnist hefur í gegnum tíðina og ég held að getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð. Á fáum áratugum hefur íslenskt þjóðfélag tekið stakkaskiptum, við erum í hópi ríkustu þjóða heims, þorri fólks hefur það fjárhagslega gott eða a.m.k. mun betra en áður, við getum státað af fullkomnu heilbrigðiskerfi og góðu menntakerfi og við höfum byggt upp velferðarkerfi sem á að tryggja jöfnuð og stöðu þeirra sem orðið hafa fyrir áföllum.

Hverjum getum við þakkað þennan árangur? Svarið er einfalt, okkur sjálfum og kynslóðunum á undan okkur. Við höfum lagt okkar af mörkum til að ná þessum árangri. Með samtakamættinum höfum við knúið fram betri kjör og aukin réttindi. Við höfum einnig risið til varnar þegar sótt hefur verið að velferðarkerfinu, að kjörum þeirra sem standa höllum fæti, eins og því miður hefur alltof oft gerst.

Í dag má skilja á sumum í umræðunni að vandi þjóðfélagsins sé tvíþættur, að þeir sem eiga mikið þurfi meira og þeir sem standa höllum fæti séu óásættanleg byrði á þjóðfélaginu. Gegn slíkum viðhorfum þurfum við að berjast.

Við höfum líka gripið inn í þegar okkur hefur ofboðið ábyrgðarleysi stjórnvalda í hagstjórninni. Við höfum á stundum verið gagnrýnd fyrir þessi afskipti okkar en hverjir eru það sem sitja uppi með Svartapétur þegar stjórnvöld misstíga sig í hagstjórninni? Það erum við. Ef verðbólgan fer úr böndunum rýrir það kaupmáttinn okkar, lánin okkar hækka og þegar harðnar á dalnum á vinnumarkaði eru það við sem missum vinnuna.

Núna þegar öll skilyrði eiga að vera góð eru því miður ýmsar slíkar blikur á lofti. Við stöndum nú í mestu framkvæmdum Íslandssögunnar. Verið er að byggja álbræðslu á Austurlandi og stærstu virkjun landsins og hér í nágrenninu er verið að stækka verksmiðju Norðuráls. Vegna stærðar þessara framkvæmda var fyrirfram vitað að þær myndu reyna á hagkerfið. Við vissum að framkvæmdunum myndi fylgja mikill hagvöxtur en að hætta væri á að verðbólga færi úr böndunum.

Þegar við gengum til kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir ári síðan voru því spennandi tímar framundan, tímar sem gátu skilað bættum kjörum til alls almennings, ef rétt væri á málum haldið. Við þessar aðstæður ákváðum við að leggja okkar að mörkum til að tryggja stöðugleika og leggja þannig grunn að kaupmáttaraukningu, hagsæld og jafnvægi á vinnumarkaði og uppbyggingu starfa til framtíðar.

Við gerðum ráð fyrir að breið samstaða myndi nást um þessar áherslur. Að aðrir myndu leggjast á árarnar með okkur. En þegar horft er til baka er allt sem bendir til að þarna höfum við misreiknað okkur. Engin hefur viljað axla ábyrgðina með okkur.

Verðbólgan er miklu meiri en ásættanlegt er og ríkisstjórnin hefur fundið það ráð eitt að styrkja gengi íslensku krónunnar. Til skamms tíma dregur það úr verðbólgu en um leið skapar þetta aukna óvissu í atvinnumálum einstakra byggðarlaga.

En þessi aðferð við að halda aftur af verðbólgunni er aðeins skammgóður vermir. Ef einhvern tíman er viðeigandi að nota líkinguna „að pissa í skóinn sinn”, þá á hún við hér. Styrking krónunnar umfram það sem efnahagslegar forsendur standa undir er aðeins frestun á vandanum. Hér er aðeins verið að ýta vandanum á undan sér um nokkra mánuði, því allar líkur eru á því að krónan muni falla á næstu mánuðum og að í kjölfarið mun verðbólgan aukast enn frekar.

Við erum því í sömu sporum og við vorum árið 2001, verðbólga er mikil og allar vísbendingar benda til þess að verðbólga verði enn meiri á næsta ári. Þetta segir mér að stjórnmálamenn hafa ekkert lært af hagstjórnarmistökunum sem þeir gerðu í síðustu uppsveiflu eða hitt að þeim sé alveg sama. Það ar almennt launafólk sem borgar fyrir mistök þeirra og þeim er ekki efst í huga að verja almennt launafólk. Það eru aðrir sem fangað hafa hjörtu þeirra.

Hvað sem öðru líður er það ljóst að verðbólgan í dag er langt umfram það sem forsendur kjarasamninga gera ráð fyrir. Það er fátt sem bendir til þess að í haust verði verðbólgan innan þeirra viðmiða sem skilgreind voru í kjarasamningunum.

Flest bendir því til að við verðum að vera undir það búin að kjarasamningum verði sagt upp í haust og við þurfum að setjast að samningaborðinu fljótlega.

Þessi staða er öllum ljós og því höfum við heyrt þær raddir að undanförnu, m.a. frá ráðamönnum og mönnum í fjármálalífinu, að allt sé í lagi. Að það sé ekkert að marka þessa verðbólgu. Að það sé eðlilegt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, eða horfa fram hjá honum, af því að við græðum öll svo mikið á hækkun húsnæðisverðs.

Þetta eru kenningar sem ég get með engu móti tekið undir. Húsnæði er sá þáttur í lífi okkar sem skiptir hvað mestu máli og fátt sem vegur þyngra í útgjöldum venjulegs fólks en húsnæðiskostnaður. Hjá þeim sem eru að kaupa eða eru nýbúnir að kaupa, hefur hækkun fasteignaverðs að undanförnu tekið stóran ef ekki allan ávinninginn af lækkun vaxta og svo má ekki gleyma því að hækkun húsnæðisverðs kemur fram í, hærri fasteignasköttum, hærri tryggingum, meiri kostnaði við að reka húsnæði og síðast en alls ekki síst hefur hækkun húsnæðisverðs bein áhrif til hækkunar á skuldum heimilanna í gegnum verðtryggingu lánanna okkar.

Ég hef í það minnsta ekki orðið var við að fjármálaspekúlantar bankanna hafi lagt það til að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölunni þegar bankarnir reikna út hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna. Það er nefnilega þannig að sumir vilja halda húsnæðisliðnum inni í vístölunni þegar það hentar en kippa honum annars út fyrir sviga.

Ég ætla ekki að ræða frekar um efnahagsmálin og stöðuna í kjarasamningana, það er viðfangsefni haustsins. En höfum það alveg á hreinu, við verðum að búa okkur undir það að sækja þann ávinning sem kjarasamningarnir áttu að gefa okkur. Við megum ekki láta upphrópanir um að það sé ábyrgðarlaust villa okkur sýn. Við verðum ekki sökuð um ábyrgðarleysi. Sú sök liggur annars staðar.

Ágætu félagar,

Ég vil víkja að öðru viðfangsefni sem brennur sífellt meira á okkur, en það eru málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Útlendingum á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mjög undangengin ár.

Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að þessum nýju félögum okkar hafi almennt verið vel tekið og þeir hafi skilað miklu til samfélagsins, bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Það hefur verið tiltölulega vel á málum haldið og lítið hefur verið um árekstra. Hlutirnir hafa í öllum meginatriðum verið í lagi. Eitt jákvæðasta og besta dæmið er fjölmenningarsamfélagið á Vestfjörðum.

En því miður hefur orðið mikil breyting á að undanförnu.

Með tilkomu vinnunnar við Kárahnjúkavirkjun hafa á skömmum tíma komið mörg hundruð útlendingar til starfa. Við gerðum okkur alla tíð grein fyrir því að verk af þessari stærðargráðu yrði ekki unnið eingöngu með innlendu vinnuafli. En það sem kemur á óvart er að ítalski verktakinn hefur ekki haft mikinn áhuga á að fá Íslendinga í vinnu. Ástæðan er einföld. Impregilo hafnaði frá upphafi að viðurkenna laun og önnur starfskjör eins og þau tíðkast á íslenskum vinnumarkaði.

Það er ekki nóg með að Impregilo hafi forðast að ráða Íslendinga til starfa, heldur reynir fyrirtækið að komast hjá því að hafa fólk af evrópska efnahagssvæðinu í vinnu.

Ég held að ég ýki ekkert þó ég haldi því fram að íslenskur vinnumarkaður hafi alls ekki verið undir þessa þróun búinn. Stjórnkerfið og stofnanir þess hafa sýnt vangetu og viljaleysi til að bregðast við. Viðbragðaleysi lýsir best aðgerðum þeirra.

Eini aðilinn sem hefur reynt að spyrna við fótum er verkalýðshreyfingin en í besta falli hefur okkur tekist að tryggja starfsfólki þarna lágmarkskjör og það hefur ekki gengið þrautalaust.

Aðferðir ítalska verktakans hefur því miður orðið öðrum fyrirmynd. Allt of margir atvinnurekendur litu á þetta sem tækifæri til að ná til sín viðskiptum með undirboðum á kjörum og aðbúnaði. Kannski á þetta ekki að koma okkur á óvart. Samtök atvinnurekenda hafa meira og minna hvatt til þess að ofþenslu í hagkerfinu verði mætt með auknum innflutningi vinnuafls. Þetta er hagstjórnartækni frjálshyggjunnar; stuðlum að offramboði vinnuafls, lækkum launakostnað og drögum úr þenslu! Með þessari stefnu er verið að vinna skemmdaverk á íslenska samfélaginu. Gegn þessu verður verkalýðshreyfingin að berjast.

Yfirskrift dagsins „Einn réttur – ekkert svindl” er í beinu og rökréttu samhengi við þessa þróun. Hún er jafnframt í beinu sambandi við átak sem Alþýðusambandið hefur skipulagt og verður formlega hleypt af stokkunum á morgun.

Átakinu er beint gegn félagslegum undirboðum og notkun ólöglegs vinnuafls. Með þessu átaki viljum við koma þeim skilaboðum á framfæri að í raun tapi allir á félagslegum undirboðum. Í fyrsta lagi tapa útlendingarnir sem um er að ræða. Þeir eru hlunnfarnir um laun, starfskjör og aðbúnað. Í öðru lagi tapar íslenskt launafólk, því með félagslegum undirboðum er grafið undan þeim árangri sem verkalýðshreyfingin og íslenskt launafólk hefur náð með baráttu sinni í heila öld. Í þriðja lagi tapa fyrirtækin, því með félagslegum undirboðum og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hafa hlutina í lagi, fara að kjarasamningum og lögum og greiða sín gjöld til samfélagsins. Í fjórða lagi tapar samfélagið í heild. Það segir sig sjálft að fyrirtæki sem standa fyrir svartri atvinnustarfsemi skila ekki sköttum og gjöldum til samfélagsins. Þannig er grafið undan velferðarkerfinu, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Allri þeirri samfélagslegu þjónustu sem við greiðum fyrir með sköttunum okkar.

En það er mikilvægt að við höfum það í huga að við erum EKKI að beina spjótum okkar að þeim útlendingum sem hingað hafa komið, oftast í góðri trú um að allt sé í lagi og þeir í fullum rétti. Heldur fyrst og fremst gegn þeim fyrirtækjum sem eru að misnota erlent vinnuafl og grafa þannig undan samfélaginu okkar.

Það er mikilvægt í allri umfjöllun að við höldum þessu á lofti. Við værum einfaldlega ekki að standa okkur í stykkinu ef við létum það viðgangast að atvinnurekendur misnoti þessa félaga okkar.

Ágætu félagar

Verkalýðshreyfingin hefur að undanförnu kallað eftir auknu samstarfi við stjórnvöld og atvinnurekendur um mál sem við höfum talið að væri allra hagur. Ég er að vísa til tillagna verkalýðshreyfingarinnar til úrbóta í velferðar- og atvinnumálum og málefnum útlendinga.

Á Íslandi eru öll skilyrði til að gera nauðsynlegar lagfæringar á velferðarkerfinu og í dag eru líka öll skilyrði til að ráðast í úrbætur í atvinnumálum. Það er með öllu óásættanlegt í hagvexti eins og nú er að hér sé jafn mikið atvinnuleysi og raun ber vitni. Það er auðvitað aldrei hægt að sætta sig við atvinnuleysi en það er fullkomlega óþolandi við aðstæður eins og nú.

Ákalli okkar um samstarf við ríkisstjórnina og atvinnurekendur hefur ekki verið svarað. Við getum þó ekki lagt árar í bát, til þess eru málefnin einfaldlega of brýn.

Þessar áherslur okkar eru líka í beinu og rökréttu samhengi við áherslur alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar, sem helgar árið í ár baráttunni gegn fátækt. Í alþjóðlegu samhengi er einn milljarður manna atvinnulaus í heiminum, sex af hverjum tíu eru konur. Á sama tíma eru um 200 milljónir barna í vinnu, oft við skelfilegar aðstæður.

Barátta okkar fyrir lagfæringum á velferðarkerfinu og gegn atvinnuleysi er því í fullu samræmi við kröfur og baráttu alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar.

Góðir félagar

Sagan segir okkur að við náum ekki árangri nema með samstöðunni. Við þurfum sannarlega á henni að halda í nú. Verkefnin sem bíða framundan eru brýn, endurskoðun kjarasamninganna í haust , velferðarmálin og málefni útlendinga.

Þess vegna skulum við ítreka það núna á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins hversu mikilvægt það er að við göngum í takt. Það skilar okkur fram veginn.

Félagar,

Ég vil að endingu óska okkur öllum til hamingju með daginn. Alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins tengir okkur saman, hvar sem við erum fædd, hvaða mál sem við tölum og hvar sem við eigum heima.

Gleðilegt sumar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image