• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
24
Jan

Hugrún ráðin

Það voru 29 umsækjendur um starfið á skrifstofu okkar hjá VLFA.  Margar góðar umsóknir bárust og úr þeim fjölda var valin Hugrún Olga Guðjónsdóttir.  Hún mun kappkosta við að þjónusta félagsmenn af bestu getu. 

Hugrún vann áður hjá Skattstjóra Vesturlandsumdæmis en hefur nú ákveðið að söðla um og prófa sig á nýjum vettvangi.  Höfum við miklar væntingar um störf hennar hjá félaginu.

23
Jan

Stjórn og trúnaðarráð

Nú hafa allar deildir lokið aðalfundum sínum.  Því er orðið fullskipað í stjórn og trúnaðarráð og munum við setja nafnalistana inn á síðuna von bráðar.  Fundur er fyrirhugaður innan mánaðar.

23
Jan

Aðalfundur opinberu deildar

Aðalfundur opinberu deildar var haldinn fimmtudaginn 22. janúar.  Til fundarins mætti Snær Karlsson frá SGS og kynnti stöðuna í samningamálum.  Var hann hóflega bjartsýnn á góðan árangur úr viðræðunum. 

Góð samstaða var á fundinum um að halda þeim sérkjörum til streitu sem áunnast hafa.  Þegar endanleg launatafla frá samninganefnd ríkisins liggur fyrir og menn geta séð hvað í boði er, þá munu starfsmenn skrifstofunnar leggja vinnu í það að bera samningana saman til að sjá hverjar raunverulegar kjarabætur verða.  Þegar það liggur fyrir er fyrirhugað að boða til fundar og kynna niðurstöðuna.  Þá þurfa starfsmenn sem vinna eftir þessum samningum að taka afstöðu hvað gera skuli. 

23
Jan

Ríkissamningur

Formaður félagsins og tveir starfsmenn Sjúkrahúss Akraness funduðu með samninganefnd ríkisins sl. miðvikudag og lögðu fram þær sérkröfur sem eru í kjarasamningi sjúkrahússins og þeim skilaboðum komið á framfæri að öll þau sérmál sem áunnist hafa á undanförnum árum verði tekin með þegar aðalkjarasamningur verður gerður.

16
Jan

Ályktun

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að Grandi og HB fjölskyldan skuli hafa komist að samkomulagi um kaup á eign Brims í Haraldi Böðvarssyni, og vonar að þeirri miklu óvissu sem ríkt hefur um störf sjómanna og fiskvinnslufólks á Akranesi hafi þar með endanlega verið eytt.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar jafnframt á núverandi eigendur, að sjá til þess að sú rekstrareining sem hefur verið starfrækt hér á Akranesi frá árinu 1906, verði áfram tryggð um ókomna framtíð.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness 

16
Jan

Námskeið í samningagerð

Námskeið í samningagerð stendur yfir þessa vikuna.  Trúnaðarmenn frá Norðuráli,Járnblendifélaginu og HB sitja nú í fundarsal félagsins og læra um samningagerð og samningatækni.

Meðal þeirra þátta sem eru kenndir á þessu námskeiði eru hagfræðihugtök, lög um stéttarfélög og vinnudeilur, markmið og aðferðir, kröfugerð og samningaviðræður.  Eflaust munu trúnaðarmenn verða sleipir, flinkir og harðir í samningaviðræðum á komandi árum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image