• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

18
Jun

Formannafundur ASÍ

Formannafundur Alþýðusambands Íslands var haldinn í vikunni og eins og alltaf nýtir formaður VLFA tækifærið á slíkum vettvangi til að koma fram þeim athugasemdum sem brenna á félaginu á hverjum tíma fyrir sig. Á fundinum var verið að ræða hin ýmsu mál eins og til dæmis svokölluð starfskjaralög sem til stóð að leggja fram á nýafstöðnu þingi en formaður gagnrýndi harðlega vinnubrögðin við vinnslu þess frumvarps enda var það unnið með ólýðræðislegum hætti og án nokkurs samráðs við stéttarfélögin en lögin hefðu náð yfir lögvarða hagsmuni félagsins. 

Málið var unnið nánast einhliða af forseta ASÍ með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í samráði við Félagsmálaráðuneytið en eftir að frumvarpið lá fyrir létu Efling, VR og VLFA greina frumvarpið og var það niðurstaða lögmanna áðurnefndra félaga að margt í frumvarpinu væri í raun afturför í réttindagæslu fyrir félagsmenn stéttarfélaganna. Var sérstaklega 14. grein frumvarpsins gagnrýnd sem og kafli sem lýtur að aðkomu Vinnumálastofnunnar. Það verður að gagnrýna harðlega forseta ASÍ fyrir það samráðsleysi sem ástundað var í þessu máli enda liggja fyrir lögvarðir hagsmunir stéttarfélaganna þegar breytingar á lögum er varða þau eru til vinnslu. 

Einnig var til umræðu ályktun vegna málefna er lúta að Play og starfskjörum sem fyrirtækið hefur gert við Íslenska flugstéttarfélagið en þar var send harðorð ályktun en formaður tók til máls undir þessum lið og sagðist taka heilshugar undir að mikilvægt væri að verkalýðshreyfingin stæði vörð um starfskjör launafólks og inni gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði en benti jafnframt á að aðildarfélög ASÍ gætu litið í eigin barm því árið 1998 hafi verið samið við Norðurál á Grundartanga um launakjör sem voru 32% lakari en hjá álverinu í Straumsvík og ekki bara það heldur ákváðu þau aðildarfélög sem eiga aðild að samningnum að afsala sér einum heilagasta rétti launafólks sem er verkfallsrétturinn. Þessu til viðbótar var samningurinn ekki borinn undir þá sem voru að fara að vinna eftir honum og á þeirri forsendu er um töluverða hræsni að ræða þegar verið er að gagnrýna starfskjör hjá Play enda hefur slíkt verið gert hjá aðildarfélögum ASÍ að semja um mun lakari kjör en þekkjast í sambærilegum iðnaði. Sem betur fer hefur VLFA tekist að ná verkfallsréttinum aftur til baka og ekki bara það heldur einnig lagfæra launakjörin með þeim hætti að ef eitthvað er eru þau komin uppfyrir álverið í Straumsvík í dag. Hann nefndi líka að samið hefði verið við United Silicon á Reykjanesi á sínum tíma um allt að 40% lakari laun en hjá Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og því er þessi gagnrýni á Play eilítið grátbrosleg. 

07
Jun

Sjómannadagurinn 2021

Allt frá árinu 1938 eða í 83 ár hefur sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur vítt og breitt um landið. Formaður vill fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sem tilheyra sjómannadeild VLFA sem og sjómönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Það er óhætt að segja að sjómannadagurinn á Akranesi sé nánast að verða að engu enda kannski ekki skrýtið því núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur lagt veiðar og vinnslu sjávarafurða hér á Akranesi í rúst.

Akranes eða Skipaskagi eins og kaupstaðurinn hefur oft verið kallaður, byggði sína afkomu um áratugaskeið á veiðum og vinnslu á sjávarafurðum en hér voru starfrækt fjölmörg frystihús og skreiðar og saltfiskvinnsla sem upp undir 70% bæjarbúa byggðu lífsafkomu sína á. Sem dæmi þá var það fyrir örfáum árum sem Akranesbær var þriðja stærsta vertíðarstöð landsins en bara hjá fyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni & co störfuðu árið 2004, 350 manns og greiddi fyrirtækið núvirt upp undir 5 milljarða í laun. Nú er allt farið, þökk sé handónýtu fyrirkomulagi við stjórnfiskveiða að þakka.

Á Akranesi er reynt að halda örlítið í sjómannadaginn til að heiðra sjómenn, dagurinn byrjaði á minningarorðum við minningarreit um týnda sjómenn í kirkjugarðinum hér á Akranesi, en þar var lagður blómsveigur til minningar um þá sjómenn sem ekki hafa fundist og hvíla hina votu gröf.

Að lokinni minningarstundinni var haldinn guðsþjónusta í Akraneskirkju sem var virkilega falleg, en þar var íslenskum sjómönnum þakkað þeirra frábæra framlag til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið. Að lokinni guðsþjónustunni var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að styttu sjómannsins til minningar um látna sjómenn.

Það er mikilvægt fyrir almenning í þessu landi að þakka og sýna íslenskum sjómönnum virðingu fyrir þeirra störf sem eru oft á tíðum hættuleg og við krefjandi aðstæður, en eitt er víst að íslenskt samfélag væri ekki jafn sterkt ef ekki væri fyrir þá gjaldeyrisöflun sem sjómenn skapa dag hvern.

Sjómenn og fjölskyldur þeirra enn og aftur innilega til hamingju með daginn.

02
Jun

Kjarasamningur Elkem Ísland samþykktur með tæplega 60% atkvæða

Rétt í þessu lauk kosningu um kjarasamning félagsins við Elkem Ísland á Grundartanga og var samningurinn samþykktur með tæplega 60% þeirra sem kusu.

Á kjörskrá voru 103

Þeir sem kusu voru 74 eða 71,84%

Af þeim sem kusu sögðu 44 já eða 59,46%

Af þeim sem kusu sögðu 29 nei eða 39,19

Auður og ógildir voru 1 eða 1,35%

02
Jun

Kjör hjá Snók og Klafa hækka eins og um var samið hjá Elkem

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk félagið frá kjarasamningi við Elkem Ísland fyrir nokkrum dögum en kosningu um kjarasamninginn lýkur í dag.

Það er skemmst frá því að segja að það eru fleiri fyrirtæki sem tengjast kjarasamningnum við Elkem en það eru tvö fyrirtæki sem þjónusta Elkem á Grundartanga sem taka mið af þeim launum og réttindum sem samið er um í samningi við Elkem.

Þetta eru þjónustu- og verktakafyrirtækin Snókur og Klafi en þessi fyrirtæki munu hækka laun sín eins og samið var um í umræddum kjarasamningi við Elkem.

Grunnlaun munu hækka með eftirfarandi hætti hjá Snók og Klafa:

  • 1. janúar 2021 5,8%
  • 1. janúar 2022 5,8%
  • 1. janúar 2023 hækka laun sem nemur 95% af launavísitölunni
  • 1. janúar 2024 hækka laun sem nema 95% af launavísitölunni
  • Orlofs og desemberuppbætur verða í ár 238.923 kr. eða samtals 477.846 kr.

Eins og áður hefur komið fram gildir samningar beggja þessara fyrirtækja afturvirkt frá 1. Janúar 2021 og nemur afturvirkni hjá starfsmönnum um eða yfir 200 þúsund krónum.

Rétt er að geta þess að fjölmörg réttindi í stóriðjusamningunum eru umtalsvert betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði eins og t.d. áðurnefndar orlofs og desemberuppbætur að ógleymdum veikinda- og slysarétti. Því er mikilvægt að tengja kjör þessara þjónustufyrirtækja sem starfa á iðnaðarsvæðinu við stóriðjusamning.

28
May

Aðalfundur VLFA var haldinn 26. maí

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn miðvikudaginn 26. maí. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega.

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 133 milljónir og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 1,8 milljarði. Formaður fór yfir hvaða atriði í starfsemi félagsins voru helst til afgreiðslu á síðasta ári og bar þar hæst kjarasamningagerð fyrir Norðurál og Elkem á Grundartanga en báðir þessir samningar eru að skila okkar félagsmönnum umtalsverðum ávinningi.

Það kom einnig fram í skýrslu stjórnar að á síðasta ári vann félagið mál gegn Hval hf. sem skilaði þeim sem áttu hlut að máli samtals uppundir 100 milljónum vegna vanefnda á kjörum samkvæmt ráðningarsamningi. Það kom líka fram að frá árinu 2004 hefur félagið innheimt vegna ágreinings og vanefnda atvinnurekenda 1 milljarð króna og kom fram að nánast útilokað hefði verið að þessir fjármunir hefðu skilað sér til þeirra sem áttu hlut að máli nema með aðkomu og hjálp stéttarfélagsins.

Formaður fór ítarlega yfir húsnæðisbreytingar félagsins en félagið keypti nýtt húsnæði að Þjóðbraut 1 sem er 311 fermetrar að stærð og er framtíðarhúsnæði á besta stað í bænum en gamla húsnæðið að Sunnubraut 13 var sett upp í nýja húsnæðið.

Það kom einnig fram að félagsmenn hafa blessunarlega verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á enda sýnir öll tölfræði það.

En tölfræðin var með eftirfarandi hætti:

  • 1.091 manns fengu greiðslu úr sjúkrasjóði félagsins
  • 294 einstaklingsstyrkir voru afgreiddir úr menntasjóðunum
  • 292 félagsmenn keyptu veiðikort, útilegukort og gistimiða á hótel
  • 504 bókanir voru í orlofshús félagsins á síðasta ári

Á þessu sést að 82% félagsmanna eru að nýta sér þjónustu félagsins og er það fyrir utan alla þá þjónustu sem félagið sinnir í formi heimsókna og hringinga sem nema tugum á degi hverjum.

Það er afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu og almennt mjög ánægðir með þá þjónustu sem félagið býður upp á.

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 30 þúsundum í 40 þúsund og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 25 þúsundum í 30 þúsund. Þessu til viðbótar ákvað stjórn félagsins að bjóða félagsmönnum endurgreiðslu vegna gistingar á hótelum og tjaldsvæðum að fjárhæð 10 þúsund í sumar.

26
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness er í kvöld!

Félagsmenn athugið aðalfundur Verklaýðsfélags Akraness verður haldinn í kvöld og hefst fundurinn klukkun 17:00 og er hann haldinn á Gamla kaupfélaginu.

 

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 26. maí kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Rétt er að vekja athygli á aðalfundurinn verður haldinn með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sóttvarnaryfirvöld kveða á um þegar fundurinn verður haldinn.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

25
May

Kosningar um nýjan kjarasamning við Elkem Ísland

Kosningar um nýgerðan kjarasamning við Elkem Ísland hefjast klukkan 12:00 þriðjudaginn 25. maí og standa yfir til klukkan 12:00 2. júní.

Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir tveimur kynningarfundum í dag 25. maí og verður fyrri fundurinn haldinn í matsal Elkem á Grundartanga og hefst hann klukkan 13:30 og síðari fundurinn verður klukkan 19:00 25. maí eða nánar tiltekið í dag og verður hann haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Hér er hægt að sjá kynningu um samninginn

Hér er hægt að sjá undirritaðan kjarasamning

21
May

Kynningarfundir um nýgerðan kjarasamning

Kynningafundir á nýjum kjarasamningi fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness við Elkem Ísland verða tveir og báðir verða þriðjudaginn 25. maí. Fyrri fundurinn verður haldinn í matsal Elkem Ísland á Grundartanga og hefst klukkan 13:30 og síðari fundurinn verður sama dag og hefst klukkan 19:00 og verður hann á Gamla Kaupfélaginu.

Á fundunum mun formaður félagsins fara ítarlega yfir kjarasamninginn og hvaða áhrif hann hefur á kjör starfsmanna. Einnig mun formaður gera ítarlega grein fyrir viðauka við kjarasamninginn sem mun einungis gilda fyrir félagsmenn VLFA og lýtur að auknu vali félagsmanna til að ráðstafa 3,5% af iðgjaldi í lífeyrissjóð.

Kosið verður sameiginlega um kjarasamninginn en fimm stéttarfélög eiga aðild að samningnum og verður kosningin með rafrænum hætti í gegnum island.is. Kosningin hefst klukkan 12:00 þriðjudaginn 25. maí og lýkur klukkan 12:00 miðvikudaginn 2 júní.

Hægt er að skoða kjarasamninginn hér og eftir fundina mun öll kynningin koma inn á heimasíðu félagsins. Rétt er að geta þess að slóð verður inni á heimasíðum stéttarfélaganna sem starfsmenn Elkem geta smellt á og þá opnast kosningin fyrir þá eftir að þeir hafa skráð sig inn með rafrænum skilríkjum.

19
May

Nýr kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður í gær

Í gær 18. maí undirritaði Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum stéttarfélögum sem eiga aðild að kjarasamningi við Elkem Ísland nýjan kjarasamning. Þessar kjaraviðræður hafa tekið langan tíma en liðnir eru tæpir 5 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út. Kjarasamningur þessi er að stórum hluta eins uppbyggður og samningur sem gerður var við Norðurál á Grundartanga og flestöll stóriðjufyrirtæki á Íslandi hafa haft sem viðmiðun.

Samningurinn gildir afturvirkt eða frá 1. janúar 2021 og munu laun hækka um 5,8% frá og með þeim tíma auk þess sem hámarksbónus mun hækka úr 10,5% í 13% eða sem nemur 2,5%. Næsta hækkun mun koma eftir 7 mánuði eða nánar tiltekið 1. janúar 2022 og nemur sú hækkun einnig 5,8%.

Samningurinn gildir í 4 ár og launabreytingar fyrir árin 2023 og 2024 munu taka mið af 95% af launavísitölu Hagstofunnar. En samningurinn verður framlengdur að höfðu samráði við trúnaðarmannaráð Elkem.

Eitt af því sem var samið um var að farið yrði í vinnu við að búa til nýtt bónuskerfi og verður það á borði trúnaðarmannaráðsins með forsvarsmönnum fyrirtækisins og á þeirri vinnu að vera lokið eigi síðar en 1. október. Fram að þeim tíma verður bónusinn festur í 80% af hámarkinu og mun hann því gefa 10,4% þar til nýtt bónuskerfi tekur gildi. Rétt er að geta þess að meðaltalsbónusinn á síðasta samningstímabili gaf einungis 6,79%. Er því um að ræða hækkun upp á 3,61% miðað við meðaltalið.

Einnig var skerpt á forsendum þeirra sem eiga rétt til orlofs- og desemberuppbóta en nýtt ákvæði mun tryggja afleysingafólki mun betri og víðtækari rétt en gamla ákvæðið kvað á um. Rétt er að geta þess að orlofs- og desemberuppbætur eru mun hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en fyrir árið 2021 munu orlofs- og desemberuppbætur hljóða upp á 238.923 kr. eða samtals 477.846 kr. Og fyrir árið 2022 verða þær orðnar 244.896 kr. eða samtals 489.792 kr.

Laun ofngæslumanna fyrir 145,6 vinnustundir á mánuði munu hækka með öllu á mánuði frá 44.000 kr. upp í 51.000 kr á mánuði. Og síðan eftir einungis 7 mánuði þá verða launin búin að hækka frá 87.000 kr. upp í 103.000 kr. á mánuði Síðan munu hækkanir taka mið eins og áður sagði af hækkun launavísitölunnar.  Heildarlaun ofngæslumanns eftir 10 ára starf mun nema með öllu 1. janúar 2021 rúmum 739 þúsund á mánuði fyrir 145,6 vinnustundir og 1. janúar 2022 munu heildarlaunin nema rúmum 780 þúsundum á mánuði.

Eins og áður sagði gildir samningurinn afturvirkt frá 1. janúar 2021 og fyrir þessa 5 mánuði mun afturvirknin hjá ofngæslumönnum nema frá 220.000 kr. upp í allt að 300.000 kr. Afturvirknin nemur 7,75% af heildarlaunum þessara 5 mánaða.

Þetta var ekki það eina sem Verkalýðsfélag Akraness gerði í þessum samningum heldur náði félagið samningum við forsvarsmenn Elkem Ísland um að félagsmenn VLFA muni hafa rétt til að ráðstafa allt að 3,5% af iðgjaldi í lífeyrissjóð annað hvort í samtrygginguna, tilgreinda séreign eða frjálsan viðbótarsparnað. Með þessu er félagið að gefa starfsmönnum aukið val við að ráðstafa sínum lífeyrissparnaði. En því miður þá hefur forseti ASÍ lagst gegn því að félagsmenn VLFA fái þetta aukna valfrelsi og lagt stein í götu þessa samkomulags á þeirri forsendu að það sé ASÍ sem fari með samningsumboðið um lífeyrismál en ekki Verkalýðsfélag Akraness. Þessu hefur VLFA mótmælt harðlega enda skýrt kveðið á um í lögum að það séu stéttarfélögin sem séu lögformlegur aðili um að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna, ekki ASÍ. Niðurstaðan varð því sú að VLFA þarf að fara með þennan viðauka við samninginn fyrir félagsdóm til að láta reyna á hvort samningsrétturinn sé ekki örugglega samkvæmt lögum hjá VLFA en ekki ASÍ og er lögmaður félagsins nú þegar byrjaður að vinna að því máli. Það er ótrúlegt hvernig forseti ASÍ hefur unnið í þessu máli, unnið gegn hagsmunum og frjálsum samningsrétti stéttarfélagsins því það eina sem VLFA er að gera í þessu máli er að auka rétt sinna félagsmanna, ekki rýra hann. Ef félagið vinnur málið fyrir félagsdómi þá munu starfsmenn hafa þetta valfrelsi eins og áður hefur komið fram. Ef ekki þá helst lífeyrisgreinin óbreytt.

Það er engum vafa undirorpið að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir þá sem hér heyra undir að geta haft valfrelsi við að ráðstafa sínum lífeyrisréttindum eins og þeir kjósa að gera enda er frjáls viðbótarlífeyrissparnaður með mun víðtækari réttindi heldur en annar sparnaður sem tilheyrir lífeyrissjóðunum. Það er rétt að geta þess að þessi viðauki gildir bara fyrir félagsmenn VLFA vegna þess að hin stéttarfélögin að undanskildu VR lögðust alfarið gegn því að þeirra félagsmenn hefðu þetta valfrelsi. Þau verða að svara sínum félagsmönnum hví svo hafi verið.

Kjarasamningurinn verður kynntur á næsta þriðjudag og verður fundurinn auglýstur á vinnustaðnum. Kosningin verður rafræn með rafrænum skilríkjum og mun að öllum líkindum hefjast á hádegi á þriðjudeginum þegar kynningarnar hefjast. Mun kosningin standa yfir til hádegis á mánudeginum 31. maí. Hægt er að sjá samninginn og viðaukann um lífeyrismálin með því að smella hér.

 

10
May

Aðalfundur félagsins verður haldinn 26. maí á Gamla kaupfélaginu

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 26. maí kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Rétt er að vekja athygli á aðalfundurinn verður haldinn með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sóttvarnaryfirvöld kveða á um þegar fundurinn verður haldinn.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image