• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Látum svona aldrei gerast aftur ! Starfsgreinasamband Íslands skuldar þessu fiskvinnslufólki skýringa
17
Nov

Látum svona aldrei gerast aftur !

Í dag komu saman formenn þeirra aðildarfélaga sem eiga aðild að Starfsgreinasambandi Íslands.  Tilefni  fundarins var að fara yfir það samkomulag sem forsendunefndin gerði við Samtök atvinnulífsins í fyrradag.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness gerði grein fyrir afstöðu félagsins vegna þessa samkomulags á fundinum í dag.  Afstaða félagsins er skýr hvað varðar  aðkomu ríkisins að þessu samkomulagi,sem var til fyrirmyndar.  Það sem Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnir hvað harðast  í þessu samkomulagi er að ekkert tillit var tekið  til þess verkafólks sem tekur laun eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins.   Kostnaðaráhrif kjarasamnings Starfsgreinasambandsins var einungis 15,8% á samningstímanum.  Forsendunefndin gerði enga sértæka leiðréttingu  fyrir almennt verkafólk þó svo að það liggi kristal skýrt fyrir að allir aðrir hópar sömdu um langtum meira en 15,8%.   Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á fundinum í dag að Starfsgreinasamband Íslands  skuldaði þeim félagsmönnum sínum sem vinna eftir kjarasamningi Starfsgreinasambandsins skýringar. 

 Skýringar á því hvers vegna Starfsgreinasambandið gat samið við ríkið um 25% hækkun og við Sveitarfélögin uppá 22% á samningstímanum en einungis uppá 15,8% fyrir almenna markaðinn.  En þarna er mismunur á milli kjarasamninga sem nemur á milli 6% og uppí 9%.  Vissulega var frábært að hægt var að ganga frá samningum við ríkið og Sveitarfélögin á þessum nótum, en af hverju ekki fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði ?  Síðan voru það allar aðrar starfsstéttir í þessu landi sem sömdu um launahækkanir uppá  19% og jafnvel uppí 30% á samningstímanum.  það er mat Verkalýðsfélags Akraness að gerð hafi verið mistök 7. mars 2004 þegar kjarasamningur á hinum almenna markaði var gerður og það er einnig mat félagsins að Starfsgreinasambandið eigi að viðurkenna það og læra af þeim mistökum.  Verkalýðsfélag Akraness skrifaði ekki undir kjarasamning 7. mars 2004 vegna þess hversu rýr hann var.  Eins og áður sagði þá eigum við að læra af þessum mistökum.  Það er með öllu óþolandi að ganga frá afar rýrum kjarasamningi fyrstir allra starfstétta og horfa síðan á allar aðrar starfsstéttir fá langtum meira en almennt verkafólk.  Látum svona aldrei gerast aftur !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image