• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Nov

Lögreglan á Akranesi hefur kallað eftir launaseðlum og vinnustundafjölda erlendu starfmannanna !

Rannsókninni á fyrirtækinu hér á Akranesi sem er með erlenda starfsmenn frá Litháen miðar vel áfram.  Verkalýðsfélag Akraness hafði mjög svo rökstuddan grun um að hluti starfsmannanna væru ekki með atvinnuleyfi til að starfa hér á landi.  Í rannsókninni í gær og í dag var sá grunur staðfestur. Það eru að minnsta kosti tveir Litháana sem ekki voru með tilskilin leyfi til að starfa hér á landi .  Einnig hefur Verkalýðsfélag Akraness sterkar vísbendingar um að erlendu starfsmönnunum séu ekki  greidd þau laun sem kveðið er á um í ráðningarsamningum sem atvinnuleyfin voru veitt út á, og vantar þar verulega upp á.  Er þessi þáttur málsins nú í rannsókn hjá lögreglunni og hefur lögreglan verið að afla sér gagna eins og launaseðla og tímaskriftir starfsmannanna.  Einnig hafa erlendu starfsmennirnir sem ekki voru með atvinnuleyfi verið teknir í skýrslutöku og kom túlkur frá Reykjavík til að aðstoða lögregluna við þá vinnu.  Verkalýðsfélag Akraness mun greina mjög ítarlega frá niðurstöðu rannsóknarinnar um leið og henni lýkur.  Það er stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness að taka mál af þessum toga af fullri hörku og það mun félagið gera.  Því allur íslenskur vinnumarkaður er í húfi.  Enn og aftur vill Verkalýðsfélag Akraness hrósa sýslumanninum á Akranesi sem og lögreglunni fyrir að taka jafn vel á málinu og raunin er.  Það mættu fleiri sýslumenn þessa lands taka þessi vinnubrögð sýslumannsins á Akranesi sér til fyrirmyndar.   Vegna þess að stéttarfélögin verða að fá aðstoð frá lögreglunni við að koma í veg fyrir að einstaka atvinnurekendur komist upp með svíkja og pretta erlent vinnuafl.  Þessi svik og undirboð á erlendu vinnuafli  grafa undan þeim kjörum sem íslensk verkafólk hefur áunnið sér inn á liðnum áratugum og einnig því velferðarkerfi sem við höfum komið okkur upp.  Þeim atvinnurekendum sem ógna íslenskum vinnumarkaði með þessum hætti á að draga fyrir dómstóla og láta þá klárlega svara til saka. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image