• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jul

Sveinn Andri lögmaður segir að Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið rangan samning í hendur !

Í fréttablaðinu í dag er haft eftir Ingólfi Árnasyni sem er einn af eigendum Spútnik báta að aðför Verkalýðsfélags Akraness sé í raun hlægileg.  Einnig segir Ingólfur að Pólverjarnir uni sínum hag vel hjá fyrirtækinu og framganga Verkalýðsfélags Akraness sé ekki Pólverjunum til framdráttar.  Eitt er víst að Verkalýðfélagi Akraness er ekki hlátur í huga að vita til þess að blessaðir Pólverjarnir séu með einungis 320 krónur á tímann.  Það er haft eftir Pólverjunum sjálfum að þeir séu með 77 þúsund fyrir 240 klukkustundir á mánuði.  Hvernig í himninum fá eigendur fyrirtækisins það út að framganga félagsins sé ekki til framdráttar fyrir starfsmennina, þegar öll gögn í málinu benda til þess að verið sé að brjóta gróflega á þeim. 

Eitt liggur alveg ljóst fyrir í þessu máli, forsvarsmenn Spútnik báta afhentu formanni félagsins samninginn  á milli fyrirtækisins og starfsmannaleigunnar.  Í samningum kemur skýrt fram að heildarupphæðin fyrir Pólverjanna fimm er 2.1 milljón fyrir þriggja mánaða tímabil.  Ekki 3.5 milljónir eins og Sveinn Andri lögmaður  Spútnik báta heldur fram í Morgunblaðinu í dag.  Núna eru eigendur fyrirtækisins með Svein Andra Sveinsson lögmann í broddi fylkingar byrjaðir að halda því fram að Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið rangan samning í hendurnar.  Væntanlega eru þeir búnir að átta sig illilega á því að samningurinn við starfsmannaleiguna uppfyllir á engan hátt  kjarasamninga á hinum Íslenska vinnumarkaði.  Sveinn Andri segir í Morgunblaðinu í dag að formaður félagsins hafi fengið rangar upplýsingar og samningurinn sem Verkalýðsfélag Akraness hafi fengið hafi einungis verið drög að samningi og miðaðist við færri starfsmenn heldur en fimm.  Þessi málflutningur Sveins Andra er hlægilegur og greinilegt að nú á að klóra í bakkann eins og hægt er.   Í samningum sem forsvarsmenn Spútnik báta létu formann félagsins hafa stendur að samið sé um  fimm pólverja til þriggja mánaða.  Einnig var fróðlegt að Sveinn Andri lögmaður og einnig Gunnar Leifur Stefánsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins  höfðu ekki tök á að láta blaðamann Morgunblaðsins hafa eintak að samningum sem fram kemur að Spútnik bátar greiði 3.5 milljónir fyrir Pólverjana fimm, en ekki 2.1 milljón eins og samningurinn sem Verklýðsfélag Akraness hefur undir höndum.  Getur verið að það sé verið að búa til nýjan samning ? spyr sá sem ekki veit.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image