• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
22
Maí

Stýrivextir lækka um 0,5%

Eins og fram kom í máli formanns félagsins fyrir gerð lífskjarasamningsins var að eitt af brýnustu hagsmunamálum alþýðunnar, heimilanna og fyrirtækja væri að ná niður okurvöxtum fjármálakerfisins.

Nú hefur komið í ljós að sú aðferðafræði sem við notuðum við gerð lífkjarasamningsins hefur klárlega leitt til þess að peningamálanefnd Seðlabanka Íslands  ákvað á sínum fyrsta vaxtaákvörðunardegi eftir samninganna að lækka stýrivextina um 0,5% og ekki bara það heldur ýjaði seðlabankastjóri að frekari vaxtalækkun geti komið til fljótlega.

Hugmyndafræðin við að skapa þessi skilyrði til vaxtalækkunar var að nota það svigrúm sem til var til launabreytinga til handa tekjulægsta fólkinu á íslenskum vinnumarkaði. Það gerðum við með því að semja eingöngu með krónutöluhækkunum en alls ekki prósentum. Enda hefur formaður VLFA ætíð sagt að prósentuhækkanir séu aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og geri ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Það er rétt að upplýsa að formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt Halldóri Benjamín framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Stefáni Ólafssyni prófessor og Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara áttum fund með Seðlabankastjóra ásamt tveimur fulltrúum úr peningamálanefndinni fjórum dögum áður en við skrifuðum undir lífkjarasamninginn.

Á þessum fundi kölluðum við eftir því hvað samningsaðilar þyrftu að gera til þess að hægt væri að auka líkurnar á því að forsendur væru til að lækka vexti á Íslandi. Fram kom í máli Seðlabankastjóra að vissulega gætu kjarasamningar haft mikil áhrif á hvort hægt væri að lækka vexti eða ekki en ítrekaði þó að vissulega væru önnur atriði sem gætu haft áhrif á lækkun vaxta. Nefndi hann til dæmis gengi íslensku krónunar og þróun á heimsmarkaðsverði á hráolíu í því samhengi og ítrekaði það einnig að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun.

En það kom skýrt fram að launabreytingar í lífkjarasamningum mundu klárlega hafa áhrif á hvort hægt væri að lækka vextina eða ekki. Samningsaðilar ákváðu því að semja með þeim hætti að launabreytingar rúmuðust innan þeirra þolmarka sem Seðlabankinn teldi að atvinnulífið þyldi með von um að vextirnir myndu lækka.

Dagurinn í dag staðfestir að okkur tókst það og núna liggur fyrir að stýrivextirnir lækka um 0,5% eða nánar tilgetið fara úr 4,5% niður í 4%

Þetta þýðir að fjölskylda sem skuldar 30 milljónir í húsnæðislán  með breytilegum vöxtum getur átt von á að ráðstöfunartekjur þeirra aukist um 150.000 á ársgrundvelli eða 12,500 á mánuði.

Rétt er að geta þess að Íslensk heimili skulda rúma 2000 milljarða þannig að ávinningurinn getur numið allt að 10 milljörðum á ári.

Formaður VLFA hefur sagt að lífskjarasamningurinn hafi verið besti samningur sem hann hefur komið að hvað verkafólk varðar og er þessi stýrivaxtalækkun enn ein staðfesting á því.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image