• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Feb

Formanni og fyrsta varforseta ASÍ misboðið á fundi með ríkisstjórninni

Í gær var forsetateymi ASÍ boðið á fund stjórnvalda þar sem kynntar voru hugmyndir þeirra til að liðka fyrir kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sátu fundinn forsætisráðherra, fjármálaráðherra, samgöngumálaráðherra og félagsmálaráðherra.

Það verður að segjast alveg eins og er að væntingar okkar til stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum voru umtalsverðar enda byggja okkar hugmyndir á að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi umtalsvert.

Því miður var þessi fundur gríðarleg vonbrigði enda kom fram á fundinum að einungis 6.750 krónur væru stjórnvöld tilbúin að létta á skattbirgði launafólks sem er á tekjubilinu 300 til 900 þúsund. Við höfðum væntingar um að skattbirgði yrði á bilinu 15.000 til 20.000 þúsund á tekjulægsta fólkið í íslensku samfélagi.

Það voru einnig gríðarleg vonbrigði að stjórnvöld séu ekki tilbúin að afnema verðtryggingu á neytendalánum en þau sögðust vera tilbúin að skoða að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán. Það er ekki í anda þeirra hugmynda sem verkalýðshreyfingin hefur og er inní kröfugerðum stéttarfélaganna enda er þar talað um að afnema verðtyggingu á nýjum neytendalánum.

Ekki voru vonbrigðin minni þegar forsætisráðherra sagði að þau væru ekki tilbúin að taka húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu en sögðust vera tilbúin að láta skoða kosti og galla húsnæðisliðarins af erlendum sérfræðingi.  Þessi erlendi aðili átti síðan að skila niðurstöðu 31 mars 2020!

Þegar hérna var komið þá var farið að sjóða á formanni VLFA enda vonbrigðin orðin yfirþyrmandi og tjáði formaður ráðherranum að hann væri gapandi hissa á því jarðsambandsleysi sem ríkti hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Benti hann ráðherrunum á ruglið sem væri í gangi þar sem ríkisstjórn lét samþykkja að skipaður yrði sérfræðingahópur þann 8. maí í fyrra sem átti að fara yfir kosti og galla húsnæðisliðarins á lán heimilanna. Þessi hópur átti að skila fyrir áramót og núna ætlar ríkisstjórnin að leggja það til,  til þess að liðka fyrir kjarasamningum að annar sérfræðingahópur verði skipaður um húsnæðisliðinn og spurði formaður ráðherranna, hvort þessi sérfræðingahópur ætti þá að skoða hvað hinn sérfræðingahópurinn hefði verið að gera.

Benti formaður ráðherrum ríkisstjórnarinnar einnig á þá staðreynd að frá því stjórnvöld létu samþykkja frá Alþingi að skoða ætti kosti og galla húsnæðisliðar á lán heimilanna þann 8. maí í fyrra hafi húsnæðisliðurinn einn og sér fært 12 milljarða frá heimilunum yfir til fjármálakerfisins sem er álíka há upphæð og stjórnvöld eru tilbúin að létta skattbirgði á launafólki á 3 árum!

Þegar hérna var komið tjáði formaður ráðherrunum að hann gæti ekki setið lengur á þessum fundi þar sem honum væri endanlega misboðið og yfirgaf hann fundinn, enda leyndu vonbrigði formanns sér alls ekki.

Nú er staðan á vinnumarkaði orðin grafalvarleg, enda vonaði formaður og fyrsti varaforseti ASÍ innilega að innlegg ríkisstjórnarinnar yrði til þess að liðka raunverulega fyrir þessum viðræðum en því miður var raunin alls ekki sú.

Þetta er staðan og núna er ljóst að það á eftir að  koma í ljós á fundinum á morgun hvort viðræðum verður slitið eða ekki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image