• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jun

50 manns munu starfa hjá Ísfiski

Eins og flestir muna þá urðum við Akurnesingar fyrir miklu höggi í okkar atvinnumálum í fyrra þegar HB Grandi ákvað að hætta starfsemi í landvinnslu á bolfiski en um 100 manns misstu lífsviðurværi sitt í kjölfarið. Rétt er þó að geta þess að hluti af starfsmönnum HB Granda var síðan boðin vinna í öðrum starfstöðum fyrirtækisins bæði hér á Akranesi sem og í Reykjavík. Þrátt fyrir það var hér um gríðarlegt högg að ræða fyrir samfélagið enda hafði landvinnsla á bolfiski verið burðarstólpi hér á Akranesi í hartnær 100 ár.

Það jákvæða sem gerðist í kjölfarið á því að HB Grandi ákvað að hætta starfsemi í frystihúsi félagsins hér á Akranesi var að fyrirtæki að nafni Ísfiskur keypti húsnæði HB Granda og hóf starfsemi fyrir nokkrum mánuðum og réði 25 fiskvinnslukonur og menn til starfa en Ísfiskur var einnig með starfsemi í Kópavogi þar sem þeir höfðu verið með starfsemi í tæp 40 ár.

Núna hefur Ísfiskur ákveðið að loka í Kópavogi og flytja alla starfsemina á Akranes og vegna þess þarf fyrirtækið að ráðast í breytingar og því mun fyrirtækið loka frá og með 25. júlí til 1. september. Í september mun starfsemin hefjast að nýju og þá verða 50 starfsmenn að lágmarki hjá fyrirtækinu í vinnu.  Þegar starfsemin verður komin í full afköst þá reikna forsvarsmenn Ísfisks að allt að 70 manns muni starfa hjá fyrirtækinu.

Ísfiskur reiðir sig eingöngu á hráefniskaup á fiskmörkuðum en því miður hefur það stundum gengið erfiðlega að afla aðgengi að hráefni sem getur stundum verið takmarkað og verðin of há, en Ísfiskur hefur aðallega unnið ýsu sem seld hefur verið til Bandaríkjanna. Til að styrkja rekstur fyrirtækisins þá hefur fyrirtækið verið að vinna í því að koma á laggirnar vinnslu á laxi og hefur fyrirtækið verið að fjárfesta í laxalínu sem sett verður upp í áðurnefndu stoppi.

Ísfiskur áætlar að vinna um 6000 tonn af ýsu og 1000 tonn af laxi á ári sem myndi þýða að nokkuð góður atvinnugrundvöllur verður fyrir fyrirtækið til að skapa atvinnu fiskvinnslufólki hér á Akrnesi til heilla.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í góðu sambandi við Albert framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem hefur lagt sig í líma við að halda stéttarfélaginu vel upplýstu um framtíðaráform sín og óskar VLFA fyrirtækinu farsældar á komandi árum og hlakkar til að eiga áfram í góðu samtarfi við fyrirtækið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image