• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jan

Jólatrúnaðarráðsfundur VLFA

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hélt sinn árlega jólatrúnaðarráðsfund milli jóla og nýárs en á þeim fundi fer formaður yfir starfsemi félagsins á árinu sem er að líða.

Það er óhætt að segja að það sé ekki lognmolla í kringum starfsemi félagsins og fór formaður t.d. yfir það að á árinu þurfti félagið að innheimta fyrir félagsmenn vegna kjarasamningsbrota rétt tæpar 48 milljónir. Stærsta einstaka málið nam 30 milljónum en það var vegna ágreinings um túlkun á útreikningi á orlofs-og desemberuppbótum til handa sumarstarfsmönnum í Norðuráli. En það mál fór fyrir Félagsdóm sem staðfesti allar kröfur félagsins.

Það kom líka fram í erindi formanns að félagið hefur innheimt vegna réttinda- og kjarasamningsbrota yfir 530 milljónir frá því ný stjórn tók við félaginu árið 2004.

Formaður fór líka yfir kjarasamninga sem félagið kom að á árinu 2017 og bar þar hæst kjarasamningsdeilu sjómanna við útgerðamenn en sú deila endaði með 10 vikna löngu verkfalli sem er lengsta verkfall í 37 ára sögu ríkissáttasemjara en því lauk með undirritun kjarasamnings 19. febrúar 2017.

Einnig gerði hann grein fyrir kjarasamningum sem gerðir voru við Elkem Ísland og Klafa á Grundartanga en það voru mjög góðir kjarasamningar þar sem laun starfsmanna hækkuðu umtalsvert og einnig náðist að launavísitölutengja báða þá samninga með sama hætti og gert var hjá Norðuráli árið 2015. Einnig var samið um að koma á fót svokölluðum Elkem-skóla sem mun tryggja starfsmönnum 10% launahækkun að loknu fullu námi í bæði grunn- og framhaldsnámi. Einnig fór formaður yfir kjarasamninginn sem gerður var fyrir starfsmenn síldarbræðslunnar en hann skilaði um 10% upphafshækkun.

Formaður fór einnig yfir þau dapurlegu tíðindi þegar HB Grandi tilkynnti að fyrirtækið hefði ákveðið að hætta allri landvinnslu á bolfiski á Akranesi en við þá ákvörðun töpuðust um 100 störf. Það kom fram í máli formanns að það væri sorglegt að fyrirtæki sem hefði verið stofnað 1904 og hefði lifað af tvær heimsstyrjaldir skuli hafa dáið vegna fyrirkomulags á stjórnun fiskveiða þar sem útgerðamenn geta tekið einhliða ákvarðanir um að flytja starfsemi eða selja aflaheimildir með þeim afleiðingum að sjómenn, fiskvinnslufólk og byggðarlög verða fyrir miklum skelli fjárhagslega sem andlega.

En það kom líka fram hjá formanni að félagið er gríðarlega sterkt félagslega sem fjárhagslega og veittir sínum félagsmönnum góða og trygga þjónustu á margvíslegan hátt.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image