Úthlutunarreglur
Á sumrin eru orlofshús félagsins leigð félagsmönnum til vikudvalar í senn, en á öðrum tímum eftir samkomulagi. Úthlutun að sumri til fer eftir sérstöku punktakerfi og eru reglur um ávinnslu og frádrátt punkta eftirfarandi:
Hver félagsmaður sem greiðir félagsgjald ávinnur sér einn punkt fyrir hvern mánuð, þ.e. getur mest fengið 12 punkta á ári. Gjaldfrjálsir félagsmenn, þ.e. lífeyrisþegar fá gefins frá félaginu hálfan punkt fyrir hvern mánuð, þ.e. mest 6 punkta á ári.
Þegar félagsmaður fær úthlutað orlofshúsi á sumarvertíð þá eru dregnir frá punktainneign hans 24 punktar fyrir vikur nr. 1-3 og vikur nr. 12-15, en 36 punktar fyrir vikur nr. 4-11. Við úthlutun á öðrum tímum koma engir punktar til frádráttar.
Ef fleiri en ein umsókn er um sama húsið sömu vikuna ræður punktainneign félagsmanns því hver hreppir húsið í það skiptið. Ef punktafjöldi þeirra er jafn ræður sú umsókn sem berst fyrst. Á umsóknareyðublöðum um orlofshús er gefinn kostur á allt að sex valmöguleikum. Því fleiri valkosti sem merkt er við, þeim mun meiri líkur eru á úthlutun. Eins og áður segir skerðir vetrarúthlutun ekki rétt til sumarúthlutunar.