Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands  
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model
 • N1
 • Olís
 • Orkan
 • Omnis
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Verslunin Hans og Gréta
 • Café Kaja
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Ökukennsla Ágústu Friðriksd.
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
12. desember 2017

54,5% meira atvinnuleysi á meðal kvenna á Akranesi en á landsvísu!

Það er engum vafa undirorpið að við Akurnesingar höfum orðið fyrir gríðarlega þungum höggum hvað atvinnumál varðar á liðnum árum og misserum og formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verulegar áhyggjur af stöðu atvinnumála.

 

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að atvinnuleysi kvenna á Akranesi er núna 54,5% meira en meðal atvinnuleysi kvenna á landinu öllu.

 

Formaður veit að margir vilja bera sig vel og vonast eftir því að fleiri atvinnutækifæri skapist í okkar sveitafélagi en hann telur að það sé alls ekki hægt að haga sér eins strútar og stinga höfðinu í sandinn og vonast eftir að allt lagist af sjálfu sér.

 

Hvernig eigum við Akurnesingar t.d. að geta sætt okkur við það átölulaust að vera búin að tapa hundruðum starfa sem tengjast sjávarútvegi á liðnum árum og áratugum? Það er mikilvægt að allir átti sig á því að við Akurnesingar höfum síðustu 100 ár eða svo byggt okkar lífsafkomu upp á veiðum og vinnslu á sjávarafurðum.  Bara sem dæmi þá störfuðu hjá útgerðarfyrirtæki Haraldar Böðvarssonar  áður en það sameinaðist Granda árið 2004 350 manns við veiðar og vinnslu. Haraldur Böðvarsson greiddi 2 milljarða í laun og á þessum tíma var fyrirtækið stærsti launagreiðandinn á Vesturlandi.

 

Það er líka rétt að geta þess að árið 2004 var á Akranesi landað um 170 þúsund tonnum af sjávarafla í dag er þetta allt farið og ekki bara það heldur hafa þúsundir tonna af aflaheimildum smábáta horfið á liðnum árum enda má segja að hin öfluga smábátaútgerð sé nánast horfin og öll þau störf sem henni fylgdu. Meira að segja er búið að loka fiskmarkaðnum á Akranesi og er óhætt að segja að það er af sem áður var þegar Akraneshöfnin iðaði af lífi frá morgni til kvölds enda var Akranes þriðja stærsta vertíðarstöð á landinu fyrir nokkrum árum síðan. Allt farið, þökk sé því glórulausa fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við. Enda er það galið og alls ekki líðandi að útgerðarmenn geti einhliða tekið ákvarðanir um að flytja aflaheimildir eða vinnslu sjávarafurða í burtu frá sveitarfélögunum og skilið fiskvinnslufólk og heilu byggðarlögin eftir með blæðandi sár.

 

Við höfum í gegnum árin og áratugina horft upp á fjölmörg byggðarlög skilin eftir í þvílíkum sárum eftir að útgerðarmenn hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir úr byggðarlögunum. Það er ólíðandi að fyrirkomulag við stjórnun á fiskveiðum geti í raun og veru slegið heilu byggðarlögin fast í kviðinn þannig að þau séu í keng og geti vart rétt úr sér á nýjan leik.

 

Staðreyndin er því miður sú að við höfum tapað hundruðum starfa við vinnslu á sjávarafurðum á liðnum árum og áratugum sem hefur klárlega bitnað grimmilega á fiskvinnslufólki og þá sérstaklega konum enda er atvinnuleysi kvenna eins og áður sagði 54,5% meira en á landsvísu.

 

Því miður er þetta staðreynd sem er ekkert hægt að loka augunum fyrir og atvinnutækifæri inni í bænum sjálfum eru nánast engin, enda engin störf á lausu á Akranesi um þessar mundir og slegist um hvert starf.

Það er dapurlegt fyrir okkur Akurnesinga að vera í þessari stöðu í ljósi þess að það er blússandi uppgangur í íslensku efnahagslífi um þessar mundir, hagvöxtur mikill og atvinnuleysi í sögulegu lágmarki á landsvísu.

 

En þessi gríðarlegi uppgangur í íslensku samfélagi tengist uppgangi í ferðaþjónustunni að stærstum hluta en því miður hefur þessi uppgangur í ferðþjónustunni einungis skilað sér að mjög litlu leiti til okkar.

 

En hvað höfum við Akurnesingar mátt þola hvað varðar töpuð störf á liðnum árum og áratugum? Skoðum nokkur dæmi:

·         Sementsverksmiðjan hætti starfsemi en þegar mest var þá störfuðu 180 manns í verksmiðjunni.

·         HB Grandi hætti landvinnslu og löndunum á Akranesi en þegar mest var störfuðu 350 manns hjá fyrirtækinu.

·         Hausaþurrkunarfyrirtækið Laugarfiskur hætti starfsemi fyrr á þessu ári en þar störfuðu 35 manns þegar mest var.

·         Málmendurvinnslufyrirtækið GMR á Grundartanga hætti fyrr á þessu ári en þar störfuðu yfir 30 þegar mest var.

·         Nánast öll smábátaútgerð er horfin og uppundir 100 störf henni tengdri hafa tapast.

·         Ekki hægt að ímynda sér hvað mörg afleidd störf hafa tapast samhliða því að þessi störf hurfu úr okkar samfélagi en ljóst að þau skipta tugum.

 

Þetta eru sorglegar staðreyndir sem ekki er hægt að loka augunum fyrir og ábyrgð stjórnvalda er mikil enda bera þau ábyrgð á því fyrirkomulagi sem þjóðin þarf að búa við þegar kemur að veiðum og vinnslu sjávarafurða. Já ábyrgð stjórnvalda er mikil og því telur formaður það liggja algjörlega fyrir að við Akurnesingar fáum byggðarkvóta til að mæta þeim gríðarlega skelli sem sveitarfélagið hefur þurft að þola vegna tapaðra aflaheimilda og starfa tengdum veiðum og vinnslu á liðnum árum.  

 

En takið eftir það sem heldur lífinu enn sem komið er í okkar sveitafélagi er starfsemin á Grundartanga en ef hennar nyti ekki við er ljóst að við Akurnesingar gætum endanlega slökkt ljósin.

 

En það er ekki bara að búið sé að mölbrjóta fjöregg okkar Skagamanna er lýtur að veiðum og vinnslu á sjávarafurðum og atvinnutengdum sjávarútvegi heldur eru líka verulegar blikur á lofti með atvinnuöryggi þeirra sem starfa hjá stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga.

 

Nægir að nefna í því samhengi að Elkem Ísland hefur ítrekað reynt að ná samningum við Landsvirkjun um raforkuverð en án árangurs enda hafa þeir vísað því máli til gerðadóms. Nú er spurning af hverju fyrirtækið sá sig knúið til að vísa ágreiningi sínum við Landsvirkjun til gerðadóms en leiða má að því líkum að það raforkuverð sem Landsvirkjun er að bjóða muni kippa öllum rekstrargrundvelli undan fyrirtækinu.

 

Það er því óhætt að segja að atvinnuöryggi og lífsafkoma okkar Skagamanna standi höllum fæti um þessar mundir og það á hápunkti hagsveiflunar í íslensku samfélagi.

Við Akurnesingar þurfum að berjast fyrir okkar atvinnuöryggi því það er t.d. ömurlegt að sjá þær árásir sem fyrirtækin á Grundartanga þurfa að þola og nánast enginn þorir að koma til varnar.

 

Þar er talað um skítugu stóru iðnfyrirtækin sem gera ekkert annað en að skila mikilli kolefnismengun út í andrúmsloftið en enginn áttar sig t.d. á þeirri staðreynd að íslensku flugfélögin tvö Icelandair og Wow air menga jafnmikið af koltvísýringi og öll álverin á Íslandi en takið eftir, það eru 27 önnur erlend flugfélög sem fljúga til Íslands með erlenda ferðamenn. Svo er talað um að þessi iðnfyrirtæki fái nánast raforkuna gefins en það nægir að nefna í því samhengi að stóriðjufyrirtækin hafa ætíð sagt að þau séu tilbúin til að greiða sama raforkuverð og verið er að greiða fyrir hana erlendis. Hinsvegar er rétt að geta þess að afkomutölur Landsvirkjunar sýna nú þegar mjög góða afkomu enda verður Landsvirkjun skuldlaus eftir rúm 5 ár og mun geta skilað íslensku samfélagi 30 til 40 milljörðum í arðgreiðslur. Þrátt fyrir þetta er því stöðugt haldið fram að verið sé að gefa raforkuna til stóriðjufyrirtækja en 80% af viðskiptum Landsvirkjunar er við stóriðjufyrirtækin.

 

Það er ljóst að við Skagamenn ætlum ekkert að gefast upp en það er mikilvægt að þessar staðreyndir sem hér hafa verið raktar liggi fyrir og það er líka mikilvægt að allir átti sig á því að á Akranesi er fjölbreytt og glæsileg þjónusta á öllum sviðum og því höfum við alla burði til að efla okkar góða samfélag áfram og því er mikilvægt að snúa vörn í sókn.  

 

 

 

 

 

 

0
0