Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands  
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model
 • N1
 • Olís
 • Orkan
 • Omnis
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Verslunin Hans og Gréta
 • Café Kaja
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Ökukennsla Ágústu Friðriksd.
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
21. júní 2017

Formaður fundaði með forsætisráðherra í dag

Formaður VLFA fundaði í ráðherrabústaðnum í dag
Forsætisráðherra boðaði formann Verkalýðsfélags Akraness til fundar í morgun í ráðherrabústaðnum, en ráðherra hefur verið að funda með nokkrum aðilum vinnumarkaðarins. Með fundunum vildi ráðherra fá fram sjónarmið og hugmyndir þessara aðila í þeim tilgangi að fá sem gleggsta yfirsýn yfir stöðu á vinnumarkaði. Rétt er að geta þess að til stóð að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR yrði einnig á fundinum, en því miður komst hann ekki þar sem hann er erlendis. Því fundaði formaður VLFA einn með forsætisráðherranum í morgun og stóð fundurinn yfir í um klukkutíma.

 

Formaður VLFA vill koma á framfæri hrósi til forsætisráðherra fyrir að eiga frumkvæði að þessum fundi og gefa formanni VLFA þannig tækifæri til að koma áherslum og sjónarmiðum félagsins á framfæri við stjórnvöld. Það hefur að öllum líkindum ekki farið framhjá neinum að Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki verið sammála forystu ASÍ í mörgum málum er lúta að hagsmunum launafólks eins og t.d. hugmyndum um nýtt vinnumarkaðsmódel í anda SALEK samkomulagsins.

 

Á fundinum voru fjölmörg atriði til umræðu sem lúta að hagsmunum verkafólks almennt sem og þeir atburðir sem tengjast atvinnumálum okkar Akurnesinga, en eins og flestir vita hafa stór skörð verið höggvin í atvinnulíf okkar Skagamanna á liðnum vikum og árum. Formaður kom því á framfæri við forsætisráðherra að ef það á að nást sátt á vinnumarkaði þá þurfi nokkur grundvallaratriði að koma til: 

 

 • Í fyrsta lagi þarf að hækka kjörin hjá þeim tekjulægstu þannig að þau dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.
 • Í öðru lagi  þarf að hætta að nota prósentuhækkanir í kjarasamningum og semja þess í stað um krónutöluhækkanir, enda eru prósentuhækkanir aflgjafi misskiptingar á íslenskum vinnumarkaði.
 • Í þriðja lagi þarf að lækka húsnæðisvexti niður í 2% og afnema verðtryggingu, eða í það minnsta að taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni hvað varðar lög um vexti og verðtryggingu á fjárskuldbindingum heimilanna.
 • Í fjórða lagi þarf að lækka kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustunni verulega.

 

Formaður sagði við forsætisráðherra að ef koma ætti á sátt á vinnumarkaði þá þurfi þessi fjögur atriði í það minnsta að koma til og mun Verkalýðsfélag Akraness alls ekki taka þátt í neinni sátt á vinnumarkaði sem byggist á svokölluðu Salek samkomulagi sem gengur út á að skerða samningsfrelsi launafólks með því að beisla og skerða möguleika launafólks til að sækja launahækkanir.

 

Formaður kom líka inn á hræsnina hjá alltof mörgum stjórnendum fyrirtækja sem eru með margar milljónir í laun á mánuði og tala síðan um mikilvægi þess að beisla þurfi launahækkanir í almennum kjarasamningum. Hann nefndi líka við ráðherra að almenningur í þessu landi líður það t.d. ekki mætingarbónusa á borð við þann sem greiddur var í Framtakssjóði Íslands upp á 20 milljónir fyrir það eitt að framkvæmdastjórinn náði þriggja ára starfstíma hjá sjóðnum. Hann fór líka yfir ofurlaun sumra framkvæmdastjóra lífeyrissjóðanna sem ná allt að 43 milljónum á ári og einnig nefndi hann ofurlaun sumra forstjóra á íslenskum vinnumarkaði sem nema tugum milljóna ári. Það mun aldrei nást sátt á meðal almenns launafólks um nýtt vinnumarkaðsmódel ef þessi misskipting og óréttlæti heldur áfram.

 

Formaður kom síðan inn á þær hamfarir sem við Akurnesingar höfum þurft að þola á undanförnum vikum og árum í okkar atvinnumálum.  Formaður rifjaði það upp að árið 2011 hafi Sementsverksmiðjan hætt starfsemi, en þar störfuðu þegar mest lét uppundir 180 manns. Það sem er að gerast þessa daganna er svo sú ákvörðun HB Granda að hætta landvinnslu á Akranesi. Formaður upplýsti forsætisráðherra um það að árið 2004, eða fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar við Granda, hafi starfað um 350 manns hjá fyrirtækinu og Haraldur Böðvarsson var að greiða 2 milljarða í laun.  Núna er þetta allt farið og sagði formaður að honum væri það mjög til efs að nokkurt sveitarfélag hefði orðið fyrir jafnmiklum áföllum í atvinnumálum á svo skömmum tíma.

 

Formaður fór líka yfir það að við höfum ekki eingöngu misst þessi fyrirtæki úr okkar samfélagi heldur gengur Elkem Ísland erfiðlega að ganga frá raforkusamningi við Landsvirkjun, en samningurinn við fyrirtækið rennur út í mars 2019. Elkem Ísland treysti sér ekki til að gera 4 til 5 ára kjarasamning við Verkalýðsfélag Akraness í síðasta mánuði vegna óvissu um raforkumál fyrirtækisins og gildir samningurinn því einungis fram til mars 2019.

 

Formaður greindi forsætisráðherra frá því að hann hefði verulegar áhyggjur af þessari stöðu og byggir hann áhyggjur sínar á skrifum Ketils Sigurjónssonar sem hefur verið launaður verktaki hjá Landsvirkjun en hann hefur skrifað að vel megi áætla að raforkusamningur Elkem Ísland muni hækka um 100% árið 2019.  Ketill hefur skrifað að raforkureikningur Elkem muni jafnvel hækka um 2 til 2,5 milljarða á ári, til viðbótar þeim 2 milljörðum sem fyrirtækið er að greiða fyrir raforkuna í dag. Ef eitthvað er að marka skrif Ketils sem titlar sig sérfræðing um orkumál og hefur verið eins og áður sagði á launaskrá hjá Landsvirkjun þá er ljóst að allur rekstrargrundvöllur fyrirtækisins verður lagður í rúst og vel það, ef af þessu verður.

 

Nægir að nefna í því samhengi að það sem Ketill áætlar að raforkusamningur Elkem muni hækka um er meira en allur launakostnaður fyrirtækisins á ári sem er í dag um 2 milljarðar. Þessu til viðbótar er meðaltalshagnaður Elkem rétt rúmar 500 milljónir á ári frá árinu 1998. Hvernig í himninum á rekstur Elkem að geta gengið upp ef hækka á raforkuna um 100% sem er uppundir 2 milljörðum meira en sem nemur meðaltalshagnaði fyrirtækisins á síðustu 20 árum?

 

Það þarf ekki neinn sérfræðing til að sjá að verið er að ógna rekstrarafkomu þessa fyrirtækis gróflega  ef spá Ketils Sigurjónssonar gengur eftir um 100% hækkun á raforkuverði, og jafnvel hægt að segja að henni verði hreinlega slátrað ef af verður. Formaður fór yfir það með forsætisráðherra að ef eitthvað er að marka þessi skrif sérfræðingsins í orkumálum um hækkun á raforkuverði um allt að 100% þá skjóti það skökku við í ljósi þess að raforkuverð í Kanada, Norðurlöndum og Þýskalandi hefur lækkað um 50% á liðnum misserum.

 

Formaður taldi mjög brýnt að fara yfir þessar áhyggjur vegna atvinnuöryggis okkar Akurnesinga með forsætisráðherra enda er það hlutverk stéttarfélaga að verja kjör og atvinnuöryggi sinna félagsmanna. Við Skagamenn höfum þurft að þola nóg hvað varðar skerðingar á atvinnumöguleikum okkar svo ekki bætist við óvissa um framtíð Grundartangasvæðisins vegna glórulausrar græðgi hjá einokunarfyrirtækinu Landsvirkjun!

 

Þetta var mjög góður fundur og mikilvægt að geta komið hagsmunamálum launafólks milliliðalaust til forsætisráðherra með þessum hætti og þetta framtak hans að heyra í fulltrúum launafólks til fyrirmyndar.

 

 

0
0