Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands  
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model
 • N1
 • Olís
 • Orkan
 • Omnis
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Ökukennsla Ágústu Friðriksd.
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
2. maí 2017

1. maí 2017 - Hátíðarræða Ólafs Arnarsonar, formanns Neytendasamtakanna

Frá kröfugöngunni 1. maí. Fremstir ganga Vilhjálmur Birgisson og Ólafur Arnarson.

Ljósmynd: Guðmundur Bjarki Halldórsson.

Góðir félagar!
 

Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að vera með ykkur hér í dag, á alþjóðlegum baráttudegi verkamanna, og flytja ávarp í nafni Neytendasamtakanna. Öll erum við neytendur og barátta fyrir bættum kjörum verkafólks er öðrum þræði barátta fyrir hagsmunum neytenda.

Ísland er gjöfult land og þjóðartekjur á hvern landsmann eru með því hæsta sem þekkist um víða veröld. Næstum alla 20. öldina var sjávarútvegurinn aðal aflgjafi verðmætasköpunar hér á landi. Síðustu áratugi hefur fjölbreytnin aukist. Fyrst kom stóriðjan og þó að nú séu blikur á lofti varðandi framtíð orkufrekrar stóriðju á Íslandi megum við ekki gleyma því að stóriðjan hefur fært þjóðinni viðbótarstoð undir gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins og skapað verðmæt störf á landsbyggðinni. Hugvitið leggur í dag sitt til og á síðustu árum hefur ferðaþjónustan vaxið eins og gorkúla, en sú staðreynd er óhnikuð að engin atvinnugrein hér á landi skapar jafn mikil verðmæti með jafn lítilli fjárfestingu og sjávarútvegurinn.

 

Undanfarin ár hafa verið gósentíð fyrir íslenskan sjávarútveg. Eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum hefur verið mikil erlendis og eftir hrunið var krónan verðlítil þannig að samkeppnisstaða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja var gríðarlega sterk.

En það er vitlaust gefið í íslenskum sjávarútvegi. Hér er ég ekki að tala um að ekki sé nauðsynlegt að vera með einhvers konar kvótakerfi. Það er ósköp eðlilegt að takmarka aðgengi að takmarkaðri auðlind en það er ekki eðlilegt – það er ekki réttlátt – að færa örfáum aðilum afnotaréttinn nánast án endurgjalds.

 

Frá hruni hefur stórútgerðin nýtt sér þessi hagstæðu skilyrði vel. Flotinn hefur verið endurnýjaður fyrir tugi milljarða og er það vel. En á sama tíma kaupir stórútgerðin upp hverja atvinnugreinina á fætur annarri með kvótagróða auk þess sem eigendur greiða sér tugi milljarða í arðgreiðslur.

Ekki er nóg með að útgerðin fái niðurgreiddan aðgang að auðlindinni í sjónum heldur fær hún einnig að selja aflann til eigin vinnslu á verði sem oft er tugum prósentum lægra en markaðsverð. Með því er verið að hlunnfara sjómenn því laun sjómanna reiknast af aflaverðmæti við skipshlið.

En eru þessi stóru og sterku fyrirtæki þá ekki kjölfestan í byggðarlögunum hringinn í kringum landið? Við getum spurt Þorlákshafnarbúa að því. Við getum spurt Ísfirðinga og Grímseyinga. Við getum spurt okkur sjálf þeirrar spurningar og svarið við henni er auðfundið.

Aldeilis ekki!

 

Þegar kvótahagsmunirnir rekast á hagsmuni fólksins sem í sveita síns andlits hefur stritað á gólfinu í fiskvinnslunni eru það alltaf hagsmunir fólksins á gólfinu sem víkja. Það þarf jú að borga eigendum arðinn sinn, annað væri samfélagslega óábyrgt segja menn. Hvernig ættu fjárfestar annars að fást til að leggja höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar til fjármagn? Gagnvart sérhagsmununum verða hagsmunir byggðarlaganna og fólksins sem þar býr léttvægir.

 

1. gr. laga um stjórnun fiskveiða hljóðar svo:

 

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

 

Er það í samræmi við þessa lagagrein að handhafar kvótans skilja hvert byggðarlagið á fætur öðru eftir kvótalaust í hlekkjum atvinnuleysis og vonleysis þegar það hentar í stað þess að vera ábyrgir samfélagsþegnar í sínum byggðarlögum? Er það þannig sem skal tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu?

 

Undanfarin misseri hefur mikið kapp verið lagt á Salek módelið fyrir íslenskan vinnumarkað. Það hefur verið kallað norrænt vinnumarkaðsmódel og stundum stöðugleikamódel. Stöðugleikinn á víst að vera fyrir launafólkið, fyrir neytendur í landinu.

En það er fullkomin fölsun að kenna Salek við norrænt vinnumarkaðsmódel. Trúir því annars einhver að norræn stöðugleiki byggi á þeim hornsteini að frysta laun almenns launafólks undir hungurmörkum?

 

Sú falsframsetning á norrænu stöðugleikamódeli sem hér á landi er nefnt Salek horfir algerlega fram hjá lykilatriðum norræns stöðugleika.

Norræn stöðugleiki byggir ekki á sultarlaunum almennings þó hann einkennist af hóflegum launahækkunum.

Það er stöðugleikinn sem framkallar hóflegar launahækkanir en ekki öfugt.

 

Áður en við komum á norrænum stöðugleika á íslenskum vinnumarkaði verðum við að byrja á því að koma vaxtaumhverfi í svipað horf hér á landi og er á Norðurlöndum.

Við verðum fyrst að tryggja fólki laun sem duga fyrir framfærslu og svo getum við farið að tala um stöðuleikamódel og hóflegar launahækkanir. Þetta snýst ekki bara um launin. Afnám verðtryggingar og vaxtaokurs skiptir jafnmiklu máli og launahækkanir.

Við verðum að tryggja almenningi traust framboð af húsnæði á eðlilegum kjörum. Það er ekki hægt í því verðtryggða vaxtaokurumhverfi sem íslenskum neytendum er boðið upp á! Það er ekki hægt á meðan skipulagsyfirvöld þjóna bröskurum en ekki heimilum landsins!

 

Það er með ólíkindum að árið 2017 skuli ástandið í húsnæðismálum á Íslandi vera orðið verra en það var fyrir 60 árum. Ungt launafólk getur ekki lengur fest kaup á húsnæði. Fjármagnskostnaður, lóðaskortur og samkrull skipulagsyfirvalda og braskara hefur gert þak yfir höfuðið að forréttindum hinna efnameiri. Og ekki er leigumarkaðurinn skjól fyrir þá sem ekki geta fest kaup á húsnæði. Það er dýrara að vera á leigumarkaði en að kaupa og fáir möguleikar á langtímaleigu en samt eiga margir engan annan kost en að leigja og oft til skamms tíma í senn.

 

Lífeyrissjóðum er lögum samkvæmt bannað að fjárfesta í húsnæði en þeir mega fjárfesta í fasteignafélögum sem braska á kostnað neytenda og almenns launafólks. Þeir mega fjármagna fasteignafélögin upp í topp en þeir mega ekki byggja húsnæði til að leigja sjóðsfélögum sínum. Það er kaldhæðnislegt að lög skuli leyfa lífeyrissjóðum að skaffa bröskurum eldsneyti á fasteignabálið en banni þeim að taka þátt í slökkvistarfinu til að skapa hér heilbrigðan og aðgengilegan húsnæðismarkað fyrir fólkið í landinu.

Það er ekki lögmál að bankar þurfi að hagnast um tugi og hundruð milljarða á hverju einasta ári í einu fámennasta landi veraldar! Okurvestir, verðtrygging og gjaldtökufrumskógur skapar ofurhagnað bankakerfisins og á kostnað íslenskra neytenda og launþega.

 

Íslendingar þurfa að borga hverja íbúð þrisvar vegna verðtryggingar og vaxtaokurs á meðan aðrir Norðurlandabúar þurfa bara að borga einu sinni eða svo fyrir sína íbúð. Á meðan svo er, er tómt mál að tala um norrænt stöðugleikamódel hér á landi.

 

Til eru þeir verkalýðsforingjar, þó þeim fari raunar fækkandi, sem telja það vera sitt hlutverk að halda niðri launum sinna félagsmanna í þágu stöðugleika. Þessir sömu leiðtogar hnussa og hneykslast yfir því að einhverjum skuli detta í hug að það sé hlutverk verkalýðsleiðtoga að skora vaxtaokur og verðtryggingu á hólm. Þessir verkalýðsforingjar eru risaeðlur. Þeir tilheyra liðinni tíð. Sem betur fer vex þeim mönnum nú fiskur um hrygg sem skilja að stærstu hagsmunamál íslenskrar alþýðu, íslenskra neytenda, felast í því að koma böndum á vaxtaokur og afnema verðtryggingu. Að tryggja nægilegt framboð af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Á þessu þarf að byrja og síðan fylgir norræni stöðugleikinn í kjölfarið.

 

Ykkar áræðni og kröftugi formaður og leiðtogi, Vilhjálmur Birgisson, hefur verið í brjósti þeirrar fylkingar sem barist hefur fyrir bættum kjörum og réttlæti til handa íslensku launafólki. Sú barátta er neytendabarátta. Í raun má segja að Vilhjálmur sé einhver ötulasti baráttu maður fyrir réttindum íslenskra neytenda sem fyrirfinnst. Ég hef fengið að ganga samhliða honum nokkurn spöl í þeirri löngu göngu, sem að lokum mun leiða okkur til sigurs fyrir íslenskan almenning – fyrir almannahagsmuni gegn sérhagsmunum.

Verkalýðsbarátta og baráttan fyrir réttindum og hagsmunum neytenda er barátta heildarinnar gegn sérhagsmunum. Baráttan gegn þeim áróðri að hungurlaun verkafólks séu nauðsynleg í þágu stöðugleikans og baráttan gegn því hugarfari að hægt sé að bjóða fólki upp á okur og skort á húsnæðismarkaði.

Ísland er gjöfult land og hér getur farið vel um okkur öll. Við megum aldrei falla fyrir fagurgala þeirra sem reyna að telja okkur trú um að stöðugleikinn verði helst byggður á bognum bökum íslenskrar alþýðu.

 

Það er ekki sósíalismi að krefjast þess að eigandi auðlindar fái greitt fullt verð fyrir afnot af henni. Það er ekki sósíalismi að hafna því að almannaeign sé gefin örfáum aðilum til afnota. Það er argasti pilsfaldakapitalismi að sömu fyrirtæki og fá gefins aðgang að þjóðarauðlindinni skuli svo geta skilið byggðarlögin eftir slypp og snauð þegar þeim hentar það.

Við skulum ekki gleyma því að brauðmolarnir sem hrökkva af stjórnarborðum stórfyrirtækjanna gagnast engum – þeir næra enga aðra en kjölturakkana sem liggja flatir undir þeim borðum.

 

Ísland er gjöfult land og við getum við öll dafnað vel. Það þarf hins vegar að skipta kökunni rétt. Það gerum við með því að rukka markaðsverð fyrir afnot að auðlindum þjóðarinnar. Það gerum við með því að þola ekki vaxtaokur og verðtryggingu í skjóli fákeppni á fjármálamarkaði. Það gerum við með því að hafna okri og skorti á húsnæðismarkaði. Þetta er ekki sósíalismi – þetta er réttlæti!

 

Með samstöðunni berjumst við til sigurs!

Ég óska ykkur til hamingju með baráttudag verkafólks!

 

0
0