Sunnubraut 13 | 300 Akranes | Sími 4309900 | skrifstofa@vlfa.is
Stærra letur Minna letur
0

SÉRKJÖR OG AFSLÆTTIR

 • Apótek Vesturlands  
 • Brautin ehf
 • Galleri Ozone
 • LH bókhald ehf
 • Model
 • N1
 • Olís
 • Orkan
 • Omnis
 • Rafþjónusta Sigurdórs ehf
 • Snyrtistofan Dekur
 • Trésmiðjan Akur
 • VÍS 
 • Ökukennsla Sigga Trukks 
 • Ökukennsla Ágústu Friðriksd.
 • Knattspyrnufélag ÍA

0
0

LÖGFRÆÐIÞJÓNUSTA 

Félagsmenn geta fengið ókeypis lögfræðirágjöf hjá lögmanni félagsins með því að panta sér viðtalstíma á skrifstofu félagsins í síma 430-9900

 

0
28. mars 2017

HB Grandi áformar að leggja niður landvinnslu á Akranesi

Það er óhætt að segja að í gær hafi verið svartur dagur í sögu okkar Akurnesinga hvað atvinnumál svæðisins varðar. En í gær boðaði forstjóri HB Granda formann stéttarfélagsins og trúnaðarmenn til fundar í frystihúsinu hér á Akranesi þar sem hann tilkynnti áform fyrirtækisins um að hætta landvinnslu á Akranesi. Kom fram í máli hans að þessi ákvörðun myndi snerta upp undir 100 starfsmenn og tilkynnti hann formanni og trúnaðarmönnum að þessi fundur væri meðal annars haldinn til að uppfylla lög um hópuppsagnir, enda er fyrirtækinu óheimilt að segja upp þetta mörgum starfsmönnum án þess að hefja samráð við stéttarfélagið um það.

 

Eins og gefur að skilja er þetta gríðarlegt áfall fyrir samfélagið hér á Akranesi. Það er ekki aðeins og 93 störf í landvinnslu muni líklega tapast, heldur mun þetta hafa áhrif á önnur afleidd störf sem tengjast rekstrinum. Má fastlega gera ráð fyrir að þetta muni snerta upp undir 150 manns með einum eða öðrum hætti. Rétt er að benda á það að fyrirtækið Haraldur Böðvarsson, sem sameinaðist Granda árið 2004, var stofnað 1906 og hefur í einhverri mynd starfað óslitið síðan þá. Og þegar HB og co sameinaðist Granda árið 2004 þá lögðum við Skagamenn 23 þúsund þorskígildistonn inn í þá sameiningu á móti 24 þúsund tonnum Granda. Því er það dapurlegt að núna 13 árum síðar eigi að leggja niður landvinnslu á bolfiski hér á Akranesi og að fiskvinnsla bæjarins standi eftir berstrípuð.

 

Á fundinum í gær gerði formaður VLFA forstjóra HB Granda grein fyrir því að stéttarfélagið myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum láta þessa ákvörðun fyrirtækisins átölulaust, enda mun hún hafa gríðarlega neikvæð áhrif á samfélagið allt með margvíslegum hætti. Formaður minnti forstjórann einnig á þá samfélagslegu ábyrgð sem hvílir á herðum þeirra sem halda um stjórnartaumana í sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa tímabundin umráðarétt yfir auðlindinni, bæði gagnvart þeim byggðalögum sem þau starfa í svo og starfsmönnum þeirra.

 

Formaður kallaði ennfremur eftir skýringum á því hvers vegna ráðist væri í þessa aðgerð, í ljósi þess að HB Grandi er að opna nýja landvinnslu á Vopnafirði sem hefur kostað hundruði milljóna króna að koma upp, á sama tíma og þeir segja landvinnsluna ganga illa um þessar mundir. Einnig kallaði formaður eftir svörum við því hvaða hagræði væri fólgið til dæmis í því að landa uppsjávaraflanum að miklu leyti á Vopnafirði þegar stór hluti hans er veiddur hér við suðurströndina. Nægir að nefna síldina sem er veidd úti á Breiðafirði þaðan sem einungis 4-5 tíma sigling er til Akraness. Hins vegar kjósa forsvarsmenn HB Granda að sigla frekar með aflann hringinn í kringum landið til Vopnafjarðar og landa þar. Forsvarsmenn fyrirtækisins verða að vera samkvæmir sjálfum sér þegar þeir færa rök fyrir nauðsyn þess að grípa til aðgerða til hagræðingar eins og þeir gera núna, þau rök hljóta að gilda alls staðar en ekki bara gagnvart okkur Akurnesingum.

 

Í gærkvöldi var svo haldinn fundur með bæjaryfirvöldum og þingmönnum Norðvesturkjördæmis þar sem farið var yfir þessa alvarlegu stöðu og þar biðlaði formaður VLFA til Alþingismanna að skapa hér lagaramma sem komi í veg fyrir að einstaka útgerðir geti farið eins og skýstrókar um byggðir landsins og skilið þær eftir í sárum og fólkið án lífsviðurværis. Á þessu vandamáli verður að taka og það er í raun og veru Alþingi eitt sem gæti markað stefnu til að koma í veg fyrir að svona lagað gerist enn og aftur.

 

Sjávarútvegsráðherra hafði samband við formann félagsins í gær til að forvitnast um þær afleiðingar sem þessi áform myndu hafa á samfélagið og okkar félagsmenn og ítrekaði formaður þetta við ráðherra og hvatti til þess að stjórnvöld myndu taka á þessum málum, því hér á landi mun aldrei ríkja sátt um sjávarútvegsmál á meðan útgerðarmenn geta komið svona fram við sitt starfsfólk og samfélagið sem þeir starfa í eins og þeir hafa nú gert hér á Akranesi og hafa í gegnum tíðina víða gert í hinum dreifðu byggðum landsins. Ráðherra lýsti áhyggjum sínum af stöðunni og tilkynnti að hún hygðist taka málið upp á ríkisstjórnarfundi í dag.

 

Verkalýðsfélag Akraness mun ásamt bæjaryfirvöldum reyna allt til þess að þessari ákvörðun verði breytt. Við Akurnesingar höfum verið stolt af þessu glæsilega fyrirtæki sem HB Grandi er og viljum svo sannarlega áfram vera hluti af þessari sterku keðju. Og nú þarf að kalla eftir því hjá forsvarsmönnum HB Granda, hvað er það nákvæmlega sem þarf að gera til að fá þá til að hverfa frá þeirri ákvörðun að hætta landvinnslu á Akranesi? Þeirri spurningu geta forsvarsmenn HB Granda einir svarað, en félagið mun gera sitt til að þessi áform verði ekki að veruleika.

 

0
0