• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
17
Mars

Fundur um ríkissamninginn

Fundur var haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag til fundarins fóru að hálfu félagsins formaður félagsins ásamt þeim Jónu Birnu og Önnu Signý, en þær eru fyrrverandi og núverandi trúnaðarmenn á sjúkrahúsi Akraness.  Tilefni fundarins voru þau sérákvæði sem í gildi eru í kjarasamningi milli heilsugæslu Akraness og Verkalýðsfélag Akraness. 

Kom skýrt fram í máli samningarnefndar ríkisins að verði gerður sameiginlegur ríkissamningur við öll félög innan Starfsgreinasambands Íslands þá verða starfsmenn viðkomandi félaga að láta frá sér þau sérákvæði sem eru í gildi .  Það er sameiginlegt mat okkar sem sátum þennan fund að til að geta sagt eitthvað til um það hvort við séum tilbúin til að láta eitthvað af þeim sérmálum sem við nú þegar erum með, þá verðum við að fá að sjá hvað þeir hafa fram að bjóða, en það verður að segjast  alveg eins og er, að það sem við náðum að toga uppúr samninganefnd ríkisins í dag þá lofar það ekki góðu.  Það er mitt persónulega mat að eftir þennan fund í dag að þá geti hugsanlega komið til átaka.  Því ófaglært starfsfólk á heilbrigðisstofnunum landsins hafa því miður setið langt á eftir öðrum  hópum sem starfa innan heilbrigðiskerfisins en nýleg skýrsla ríkisendurskoðunar sem lögð hefur verið fram staðfestir það svo ekki verður um villst.

12
Mars

Félagsfundurinn tókst vel

Félagsfundurinn um nýja kjarasamninginn var haldinn í gærkvöldi frá kl. 20:00 til 22:30.  Á fundinn mættu um 40 manns og tókst fundurinn í alla staði vel.  Kristján Bragason útskýrði fyrir fundarmönnum hvernig þeir raðast í nýja launatöflu og hvernig hún er uppbyggð.  Svaraði Kristján fjölmörgum spurningum á fundinum.

11
Mars

Félagsfundur í kvöld

Í kvöld  kl. 19 mun stjórn og trúnaðarráð Verkalýðfélags Akraness  koma saman til að yfirfara nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem félagið er aðili að.  Jafnframt verður ákveðið hvernig staðið verður að atkvæðagreiðslu um samninginn.  Síðan  kl. 20 hefst  opinn kynningarfundur félagsins á ný gerðum kjarasamningi.  Kristján Bragason fyrrverandi framkvæmdastjóri SGS mun sjá  um að kynna samninginn.

08
Mars

Samningar undirritaðir um miðnætti

Á miðnætti sunnudaginn 7. mars voru nýir kjarasamningar  Flóabandalagsins, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins undirritaðir. Samningurinn er til fjögurra ára og heildarlaunahækkun á samningstímanum er 14.%. Heildarkostnaðaráhrif samningsins er 15.7%.  Meðal mikilvægustu atriða samningsins er ný launatafla, lífeyrisframalag atvinnurekenda fer í 8% á samningstímanum og fræðslugjald festir fræðslusjóði í sessi til framtíðar með 0.15% fræðslusjóðsgjaldi. Slysatryggingar hækka um 40% að lágmarki í upphafi samningstímans.  Helstu atriði samningsins fara hér á eftir.

 

Grunnkaup hækkar þannig á samningstímanum

·           Almenn launahækkun 1. mars 2004      3,25%

·           Almenn launahækkun 1. janúar 2005    3,00%

·           Almenn launahækkun 1. janúar 2006    2,50%

·           Almenn launahækkun 1. janúar 2007    2,25%

 

Ný launatafla  treystir öryggisnetið

Tekin er upp ný 25 flokka launatafla með fimm starfsaldursþrepum. Miklar væntingar eru bundnar við þessa nýju töflu. Taflan gefur möguleika á auknu svigrúmi í launahækkunum og launaskriði.

Við innröðun í töflu var farin sama leið og 1997 við innfærslu á bónusum, yfirborgunum og ýmsum álagsgreiðslum. Sem dæmi var í fiskvinnslunni fært inn í taxtakerfið í tveimur áföngum, tvisvar sinnum 15% af bónus þó að hámarki 30 krónur í hvort sinn. Í öðrum tilvikum gat verið um að ræða innfærslu fæðisgjalds.

Markmiðið með þessari leið var að færa taxta nær greiddu kaupi og hækka dagvinnulaun. Um leið treystum við öryggisnet og hækkum  lægstu laun umtalsvert.

Sameiginlegt mat samningsaðila á kostnaðaráhrifum innfærslu í launatöflu er að frá undirritun samnings sé kostnaður 1,00% og aftur 1,00% hinn 1. janúar 2006.

 

Tekjutrygging

Tekjutrygging hækkar  verulega á samningstímanum. Tekjutrygging fyrir fulla dagvinnu verður frá gildistöku samnings kr. 100.000 á mánuði, árið 2005 kr. 103.500, árið 2006 kr. 106.000 og árið 2007 kr. 108.000.

                 

Sameignarsjóður / séreignarsjóður

Frá 1. janúar 2005 hækkar framlag atvinnurekenda í sameignarsjóð í 7,00% og á sama tíma fellur niður skylda til að greiða 1,00% fast í séreignasjóð óháð framlagi starfsmanns.         Frá 1. janúar 2007 verður iðgjald atvinnurekenda til sameignarsjóðs 8% um leið og tryggingagjald lækkar um 0,45%.

Áfram á launamaður rétt á 2% mótframlagi atvinnurekanda í séreignarsjóð ef launamaður sparar sjálfur 2% af launum eða meira.

 

Starfsmenntamál treyst til framtíðar – framlag atvinnurekenda samningsbundið

Með þessum samningum innsigla samningsaðilar þann mikla árangur sem náðist á síðasta samningstímabili í starfsmenntamálum með því að festa starfsmenntasjóði almenns launafólks í sessi til framtíðar.

Ásamt áframhaldandi framlagi stjórnvalda til starfsmenntamála, 190 milljónir á samningstímabilinu, munu atvinnurekendur hefja greiðslur í starfsmenntasjóð á samningstímabilinu. Með þessu er í fyrsta sinn skotið varanlegum stoðum undir starfsmenntun almenns launafólks til framtíðar. Frá 1. janúar 2006 greiða atvinnurekendur 0,05% í sjóði til fræðslumála og 0,10% til viðbótar frá 1. janúar 2007, þ.e. samtals 0,15% frá þeim tíma.

 

Menntareikningar – bókun

Ásamt starfsmenntasjóðum skrifuðu aðilar undir bókun um menntareikninga. Með þessari bókun lýsa samningsaðilar sig tilbúna til að vinna að því gagnvart stjórnvöldum að slíkir reikningar fái sömu skattalegu meðferð og séreignasjóðir lífeyrissjóðanna. Sett verður á nefnd samningsaðila sem mun vinna að málinu á samningstímabilinu.

Með þessari bókun er kominn grundvöllur að því að fyrirtæki og launafólk geti tekið málið upp í samningum sín á milli.

 

Hækkun slysatryggingar – a.m.k. 40% hækkun

Slysatryggingar launafólks taka verulegum hækkunum við þessa samningsgerð. Gert er ráð fyrir að farið verði í endurskoðun á slysatryggingarákvæðum með það að markmiði að stórhækka tryggingarvernd starfsmanna. Þessari endurskoðun skal vera lokið fyrir 15. júní 2004.

Að lágmarki munu slysatryggingar samkvæmt samningum hækka um 40%.

 

Uppsagnarfrestur samræmdur og einfaldaður

Samkvæmt samningnum verður uppsagnarfrestur og einfaldaður til mikilla muna. Þannig mun allt verkafólk hafa uppsagnarfrest samkvæmt einni einfaldri reglu:

Eftir tveggja vikna samfellt starf hjá sama atvinnurekenda er uppsagnarfrestur 12 almanaksdagar. Eftir þriggja mánaða samfellt starf er uppsagnarfrestur 1 mánuður miðað við mánaðamót og eftir þriggja ára samfellt starf  hjá sama atvinnurekanda er uppsagnarfrestur 3 mánuðir miðað við mánaðamót en áður tók 5 ár að ávinna sér þennan rétt.

 

Desemberuppbót

Desemberuppbót verður kr. 38.500 árið 2004, kr. 39.700 árið 2005, kr 40.700 árið 2006 og kr. 41.800 árið 2007.

 

Orlofsuppbót

Orlofsuppbót verður kr. 21.100  á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2004, kr. 21.800 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2005, kr. 22.400 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2006 og kr. 23.000 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2007.

 

Starfsmannaviðtöl

Með þessum samningi eru fest niður réttindi til reglubundinna starfsmannaviðtala, en samkvæmt könnunum félaganna hafa starfsmannaviðtöl skilað árangri. Þetta gildir þegar atvinnurekandi skipuleggur reglubundin starfsmannaviðtöl á vinnustað.

 

Tilflutningur á fimmtudagsfrídögum samkvæmt fyrirtækjaþætti

Samkvæmt samningnum er heimilt að semja svo um á vinnustað að samningsbundin frí sem lenda á fimmtudögum (uppstigningadagur og sumardagurinn fyrsti) verði færð á föstudag eða mánudag. Um þetta verði samið á hverjum vinnustað.

 

Mæðraskoðun á vinnutíma

Í samningnum er staðfest að barnshafandi konur skuli eiga rétt á nauðsynlegum fríum vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

 

Atvinnuleysisbætur hækka

Með samningnum og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er staðfest að atvinnuleysisbætur  hækki strax frá 1. mars í kr. 88.767 en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, og 2,5% frá 1. janúar 2006, og 2,25% frá 1. janúar 2007.

  

Erlendir starfsmenn – aðkoma trúnaðarmanna

Trúnaðarmenn eiga nú á grundvelli samkomulags aðila samningsins rétt á upplýsingum þegar um rökstuddan grun er að ræða á brotum gegn kjarasamningnum eða lögum er varða starfskjör erlends launafólks. Trúnaðarmaður skal hafa aðgang að launaseðlum og öðrum gögnum er staðfesti launagreiðslur og önnur starfskjör hlutaðeigandi starfsmanna. Trúnaðarmanni er heimilt að ráðfæra sig við viðkomandi stéttarfélag um þessar upplýsingar.

 

Samningsforsendur

Forsendur samninganna eru tvær. Annars vegar að verðlag þróist í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands en hins vegar að sú launastefna og þær kostnaðarhækkanir sem í samningnum felast verði almennt stefnumarkandi fyrir aðra í samningagerð á vinnumarkaði.

 

Sérkjarasamningar

Til viðbótar við aðalkjarasamning voru gerðir fjölmargir sérkjarasamningar þar sem tekið er á sérmálum viðkomandi starfsgreinar eða vinnustaðar.

07
Mars

Kjarasamningar

Laun hækka um 15% á samningstímanum samkvæmt drögum að nýjum kjarasamningi Flóabandalagsins og Starfsgreinasambandsins við atvinnurekendur. Ef niðurstaða fæst í viðræður við ríkisstjórnina í dag er gert ráð fyrir að kjarasamningar verði undirritaðir síðdegis eða í kvöld.

 

Hjólin byrjuðu að snúast í gær í Karphúsinu þegar alvöru viðræður um hækkun almennra launa og lífeyrismál byrjuðu. Þegar samningafundum laun á níunda tímanum sagði Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari að vel hefði miðað í viðræðunum og að hann væri vongóður um að samningar yrðu undirritaðir í dag. Þó að mörg atriði sé óljós sem snúa að ríkisstjórn ríkir bjartsýni um að samningarnir verði undirritaðir í kvöld.

Stóra samninganefnd sambandsins hefur verið boðið i Karphúsið klukkan fimm í dag og Flóabandalagið hefur boðað sína 130 manna samninganefnd í Kiwanishúsið við Engjateig klukkan 18 þar sem samningarnir verða kynntir. Samkvæmt drögunum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að almenn laun hækki strax um 3,25% og að auki um 1% sem felst í nýrri launatöflu. Á næsta ári eiga laun að hækka um 3%, 2006 um 2,5% en þá bætist líka við 1% vegna launatöflunnar. Á síðasta árinu hækka svo laun um 2,25%.

Samanlagt hljóða þessar hækkanir upp á um 14% á samningstímanum. Við bætast svo hækkanir á mótframlagi atvinnurekenda á samningstímanum um 1og hálft prósentustig eða úr 6% í 7,5%. Ef þessi hækkun er talin með hækka laun kringum 15 af hundraði. Hækkunin verður í tvennulagi, 2005 og 2007. Kostnaður atvinnurekenda verður þó ekki sem svarar til 1,5% hækkunar því breytingar verða á reglum sem gilda um framlag þeirra í séreignasjóði. Atvinnurekendur greiða 2% í séreignasjóði á móti 2% launþega á verður sú regla áfram við lýði. Hins vegar hefur þeim borið að greiða annað prósentið til launamanna sem ekki greiða í séreignasjóði og verður fallið frá því.

Þá eru hugmyndir um að hluti af tryggingagjaldi verði notaður til að styrkja sjóðina. Ríkisstjórnin þarf að ákveða það og atvinnurekendum þykir þessi kostur ekki fýsilegur. En framhaldi ræðast af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við kröfum verkalýðshreyfingarinnar sem meðal annar eru um að ríkissjóður taki að sér að greiða örorkubætur, atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og staða starfsmenntunarsjóðs verði tryggð.

ruv.is.

06
Mars

Samningar að takast ?

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins hefur verið boðuð til fundar á morgun klukkan 17 í húsakynnum ríkissáttasemjara. Í samninganefnd SGS eru formenn aðildarfélaga sambandsins, alls 27 formenn utan við aðildarfélög Flóans. Kynnt verður á þessum fundi drög að nýjum samningi milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands en í seinni partinn í dag náðist samkomulag sem samningarnefnd SGS telur að sé grundvöllur að samningi. Það mun því koma í hlut þessara 27 formanna að ákveða hvort gengið verði frá samningi á þeim forsendum sem kynntar verða á morgun,  en eins og staðan er nú er alls óvíst að spá um niðurstöðu þeirra fundar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image