• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
30
Apríl

Samiðn samdi í gær

Samiðn og Samtök atvinnulífsins gengu frá nýjum kjarasamningi í kvöld. Iðnaðarmenn í Verkalýðsfélagi Akraness geta fengið samninginn á Skrifstofu félagsins. Nánar verður fjallað um samninginn og atkvæðagreiðslu um hann á Heimasíðu félagsins á næstunni.

29
Apríl

Samningum að ljúka hjá Samiðn

Eftir fund með viðsemjendum okkar sem lauk um miðnætti, kynnti viðræðunefnd Samiðnar samninganefndinni drög að samningi.  Eftir ítarlega umfjöllun heimilaði hún viðræðunefndinni að ljúka samningum á þeim megin forsendum sem drögin kváðu á um. 
 
Sjá nánar vef Samiðnar www.samidn.is
28
Apríl

Samningaviðræður við Samiðn

Í gær kl. 13 hófust viðræður að nýju við SA og stóðu þær fram til kl. 2 í nótt.  Á fundinum var farið yfir flest þau mál sem ágreininngur hefur verið um og eru komin drög að texta varðandi flesta þá þætti.  Engin niðurstaða liggur fyrir varðandi kauptaxtana.
 
Sjá nánar á vef Samiðnar www.samidn.is
23
Apríl

Úrslitatilraun um helgina

Viðræðunefnd Samiðnar hefur setið á fundum með Samtökum atvinnulífsins undanfarna tvo daga. Rætt hefur verið um nýja kauptaxta en ekkert samkomulag liggur fyrir og seinni partinn í gær var ákveðið að gera hlé á viðræðum og skoða í dag hvort forsendur væru til að halda áfram. Ákveðið hefur verið að kalla samninganefnd Samiðnar saman kl. 15 í dag til að fara yfir stöðuna og meta framhaldið. Gert er ráð fyrir að nefndin verði tiltæk eitthvað fram í helgina. Það er sameiginlegur áhugi samningsaðila að gera nú úrslitatilraun en töluvert skilur enn á milli. 

20
Apríl

Svar við áskorun Georgs Þorvaldssonar

Georg óskar eftir því að stjórn félagsins fari að lögum og leggi fram ársreikninga fyrir árin 2002 og 2003 og haldi aðalfund.

Eins og fram kemur á heimasíðu félagsins þá verður aðalfundur fyrir árin 2002 og 2003 haldinn 29. apríl nk. 

Sú stjórn sem var við völd í félaginu á vormánuðum 2003 hefði að sjálfsögðu átt að leggja fram reikninga félagsins fyrir árið 2002, annað var brot á lögum félagsins.  En við þetta bætist einnig að með skipun tilsjónarmanns axlaði Alþýðusamband Íslands þá ábyrgð samkvæmt eigin lögum að halda aðalfund innan 3ja mánaða.  Eftir 6 mánaða valdasetu tilsjónarmanns og starfsháttarnefndar ASÍ var loks í nóvember s.l. haldinn framhaldsaðalfundur ársins 2001.  Engir reikningar lágu þá fyrir vegna ársins 2002 og endurskoðandi félagsins er fyrst nú að leggja á þá lokahönd.  Tvær meginástæður eru fyrir þessum drætti.  Í fyrsta lagi var ekki þegar núverandi stjórn tók við, búið að færa allt iðgjaldabókhald félagsins fyrir árið 2002 né endurskoða það og í öðru lagi hefur endurskoðanda félagsins ekki tekist þrátt fyrir margítrekaðar óskir að fá fyrrverandi formann félagsins til að útskýra ýmsa gjaldaliði sem snúa að rekstri félagsins árið 2002.  Að öllu þessu athuguðu er ljóst að núverandi stjórn getur ekki litið svo á að þessi seinkun sé af hennar völdum eða hafi verið á hennar valdi að koma í veg fyrir hana.

Hvað varðar reikninga ársins 2003 hefur stjórnin frest samkvæmt lögum félagsins til loka júní að leggja þá fram, en mun eins og áður er getið, leggja þá fram á aðalfundinum 29. apríl.  Það er í fyrsta skipti í fjöldamörg ár, sem haldinn er aðalfundur í Verkalýðsfélaginu í aprílmánuði og reikningar ársins á undan lagðir fram.

Varðandi lýðræðisleg vinnubrögð þá eru þau svo sannarlega viðhöfð í félaginu.  Því til staðfestingar má nefna það að stjórn félagsins ákvað að varamenn skyldu einnig sitja stjórnarfundi og því eru 18 manns sem taka þátt í umræðum innan stjórnar félagsins og varamenn því ávallt inni íöllum málum.

Í áskorun Georgs er einnig gefið í skyn að vart séu haldnir fundir í félaginu.  Á þeim 5 mánuðum sem liðnir eru frá því að núverandi stjórn tók við, hafa verið haldnir 21 stjórnarfundir, 3 stjórnar- og trúnaðarráðsfundir, 2 í stjórn sjúkrasjóðs, 2 félagsfundir, 6 aðalfundir deilda og 2 námskeið fyrir trúnaðarmenn. Ef Georg Þorvaldsson getur beint stjórn VLFA á eitthvað verkalýðsfélag sem hefur fundað meira s.l 5 mánuði þá væru þær upplýsingar vel þegnar.

Georg hefði getað sparað sér vinnu og fyrirhöfn með því að leita sér upplýsinga á skrifstofu eða á heimasíðu félagsins þar sem nánast er hægt að fylgjast með allri starfsemi félagsins.  En honum og öðrum félagsmönnum til fróðleiks vill stjórnin rekja helstu þætti í starfinu frá því að hún tók við.

Útistandandi kröfur félagsins voru hátt í tuttugu milljónir króna og áttu sumar skuldir rætur sínar að rekja til ársins 1997.  Stjórn og starfsmönnum félagsins hefur á þessum skamma tíma tekist að innheimta um 10 milljónir af þessum kröfum. Allar skilagreinar frá árinu 2002 og fram til þessa dags hafa verið færðar. Jólatrésskemmtun var haldin í desember fyrir börn félagsmanna.  Heimasíða félagsins hefur verið tekin í notkun og nánast daglegar fréttir á henni.  Ennfremur var boðið upp á ókeypis framtalsaðstoð fyrir félagsmenn sem tugir manna nýttu sér.  Stjórn og starfsmenn félagsins hafa leyst úr ágreiningsmálum fyrir marga félagsmenn og ber það hæst sá árangur sem náðist fyrir tímakaupsfólk sem starfar hjá Akraneskaupstað.  Leiðrétting til þeirra starfsmanna nam hundruðum þúsunda króna.  Nokkur mál eru auk þessa í vinnslu sem ekki er hægt að tíunda hér.  Ofan á allt þetta bætist mikil vinna við gerð kjarasamninga eins og öllum ætti að vera ljóst.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á Georg Þorvaldsson, sem og aðra félagsmenn, að hafa samband við skrifstofu félagsins óski menn eftir upplýsingum um starfsemi félagsins.  Því enginn félagsmaður eða stjórnarmaður mun þurfa að fara fyrir dómstóla eða skrifa í blöðin ef vilji er til að fá upplýsingar.  

Að lokum skorum við á alla félagsmenn að nýta sér heimasíðu félagsins til upplýsingaöflunar.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness. www.akranes.sgs.is

19
Apríl

Dagskrá aðalfundar

VERKALÝÐSFÉLAG AKRANESS

AÐALFUNDUR.

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 19:00, að Kirkjubraut 40, 3. hæð.

 

Dagskrá:

 

1.                 Fundargerð síðasta framhaldsaðalfundar.

2.                 Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.

3.                 Ársreikningar félagsins fyrir 2002 og 2003 lagðir fram.

4.                 Breytingar á reglugerðum félagsins:

 

Tillögur um breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs félagsins.

5.                 Kosningar sem fram þurfa að fara á aðalfundi:

 

a)                 Kosning stjórnar Sjúkrasjóðs.

b)                Kosning stjórnar Orlofssjóðs.

c)                 Kosning kjörstjórnar.

d)                Kosning skoðunarmanna reikninga.

6.                 Ákörðun félagsgjalda.

7.                 Önnur mál

 

Ársreikningar félagsins vegna áranna 2002 og 2003 munu liggja frammi á skrifstofu félagsins eftir kl. 13:00 miðvikudaginn 21. apríl 2004.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image