• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Jun

Samið við ríkið

Gengið var frá kjarasamningi við ríkið í gær. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var umtalsverður ágreiningur um að leiðrétta þyrfti launamun fyrir sömu störf og sömu starfsheiti en lengi vel hafnaði samninganefnd ríkisins því alfarið. Í gær tókst loksins að ganga frá samkomulagi þar sem fer fram ítarleg skoðun á þessum launamun og þar sem hann finnst verður hann leiðréttur og það afturvirkt frá 1. apríl.

Samningurinn er að öðru leyti hefðbundinn því sem ríkið hefur samið um að undanförnu en meðalhækkun starfsmanna í 100% starfshlutfalli á Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun nema rúmum 44.000 kr. á mánuði. Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka, orlofsuppbótin fer upp í 56.000 kr. og desemberuppbætur upp í 103.000 kr. Hér má sjá kjarasamninginn og stutta kynningu á honum.

Sameiginleg rafræn atkvæðagreiðsla félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa skv. kjarasamningnum hefst 16. júní kl. 15:00 og lýkur 21. júní kl. 09:00. Hægt er að fara inn á www.vlfa.is og þar verður linkur inn á rafræna kosningu.

12
May

Efling segir sig úr SGS

Í gær lauk kosningu Eflingar um úrsögn úr Starfsgreinasambandi Íslands en hótun um slíkt hefur vofað yfir sambandinu síðustu misserin. Það er ekki bara að það hafi legið fyrir hótun gagnvart SGS um úrsögn og nægir í því samhengi að nefna að formaður Eflingar hefur margoft talað um að það sé hennar skoðun að Efling fái enga þjónustu frá ASÍ og greiði þangað rúmar 100 milljónir án þess að fá neina þjónustu. Þetta er náttúrulega málflutningur sem stenst ekki nokkra einustu skoðun og er ekki svaraverður en það sem vakti athygli í þessari kosningu var afar dræm kosningaþátttaka. Um 21.000 félagsmenn voru á kjörskrá og einungis 733 greiddu atkvæði með tillögunni en 292 greiddu gegn úrsögn og 26 tóku ekki afstöðu. Heildarfjöldinn sem kaus var 1.051 sem þýðir að einungis 3,5% félagsmanna Eflingar kaus um úrsögn af heildarfélagafjölda sem er umhugsunarefni. Rétt er líka að geta þess að það vantaði einungis 34 atkvæði upp á að tillagan yrði felld sökum þess að það þarf 2/3 greiddra atkvæða til að svona veigamiklar ákvarðanir fari í gegn. 

Þetta mun ekki hafa mikil áhrif á Starfsgreinasamband Íslands sem verður ennþá stærsta landssambandið innan ASÍ. Það eina sem sambandið þarf að gera er að búa til nýja fjárhagsáætlun og halda áfram að vinna að þeim góðu og sterku málefnum sem sambandið vinnur að á degi hverjum en í SGS eru 44.000 félagsmenn og er sambandið eins og áður sagði stærsta landssambandið innan ASÍ þrátt fyrir úrsögn Eflingar. Þetta hefur ekki mikil áhrif eins og áður sagði vegna þess að Efling hefur tekið afskaplega takmarkaðan þátt í starfi sambandssins.

12
May

Ný forysta hjá ASÍ

45. framhaldsþing Alþýðusambands Íslands var haldið dagana 27. og 28. apríl á Grand Hóteli í Reykjavík. Á þessu þingi var mótuð stefna sambandsins varðandi hin ýmsu hagsmunamál félagsmanna ASÍ og einnig var kosinn forseti og í miðstjórn. Forseti var kosinn Finnbjörn Hermannsson en hann hefur lengi verið í hreyfingunni, meðal annars formaður Byggiðnar. Formaður VLFA var kosinn í miðstjórn fyrir hönd Starfsgreinasambandsins.

02
May

1. maí ræða formanns VLFA

Kæru félagar

 

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins.

Nú eru fimm mánuðir liðnir frá því við undirrituðum kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Kjarasamning sem gildir til skamms tíma en það var gert vegna þeirrar óvissu sem uppi var og er í íslensku efnahagslífi.

Kjarasamningur SGS var virkilega góður enda tryggði hann launahækkun á kauptöxtum upp á 11,28% og skilaði krónutöluhækkun til handa verkafólki frá 35 þúsundum upp í allt að 70 þúsund á mánuði.  Enda var hann samþykktur með 90% atkvæða þeirra sem kusu.

Hins vegar er rétt að geta þess að þessi kjarasamningur var byggður á því að verðbólga og vextir myndu lækka á samningstímanum. Við vorum t.d. að vinna með að verðbólga yrði komin niður í 6% í desember á þessu ári og einnig að vextir væru byrjaðir að lækka. Nú er hins vegar að verða ljóst að þessi spá mun alls ekki ganga eftir enda stendur verðbólgan enn í tæpum 10% og stýrivextir hafa hækkað frá undirritun um tæp 2% og standa núna í 7,5%

En eins og alltaf þá ætlast stjórnvöld og Seðlabankinn til að þeir einu sem sýni ábyrgð í íslensku samfélagi til að ná tökum á verðbólgunni sé launafólk. 

Öllum kostnaðarhækkunum er varpað viðstöðulaust yfir á neytendur og heimili og ekki nokkurn vilja né samfélagslega ábyrgð að finna hjá verslunareigendum, stjórnvöldum, sveitarfélögum, Seðlabankanum né öðrum þjónustuaðilum þegar kemur að því að halda aftur af hinum ýmsu kostnaðarhækkunum

Það er ömurlegt og dapurlegt að sjá að nánast allur ávinningur af þeim kjarasamningi sem við gerðum í desember er farinn vegna gríðarlegra kostnaðarhækkana á öllum sviðum.

Allt launafólk finnur fyrir þessum miklu kostnaðarhækkunum  og eins og alltaf eru það þeir tekjulægstu sem finna hvað mest fyrir þessu. En staðan í dag er orðin þannig að það eru ekki bara þeir tekjulægstu sem ná ekki saman endum frá mánuði til mánaðar heldur er venjulegt millitekjufólk að upplifa það að eiga ekki fyrir nauðþurftum í lok mánaðar vegna þessarar útgjaldaaukningar.

Hvar eru stjórnvöld? Er nema von að spurt sé enda stóð ekki á stjórnvöldum að koma með nokkra aðgerðapakka til stuðnings til handa fyrirtækjum vegna COVID á sínum tíma. Fjölmargir aðgerðapakkar voru kynntir til að styðja við fyrirtæki, ég man nú ekki nöfnin á þeim öllum en man eftir viðspyrnustyrkjum og lokunarstyrkjum en aðgerðapakkar til stuðnings fyrirtækjum kostuðu íslenska skattgreiðendur uppundir 300 milljarða ef ég man rétt.

Hvar er stuðningur stjórnvalda núna handa alþýðu og heimilum þessa lands þegar útgjaldaaukning margra heimila hefur aukist um tugi ef ekki vel á annað hundrað þúsund á nokkrum mánuðum vegna hækkana á öllum sviðum.

Allsstaðar í kringum okkur hafa ríki sem við berum okkur gjarnan saman við farið í fjölþættar aðgerðir til að bregðast við afkomukreppu fólks, hvort sem um er að ræða hóflegar vaxtahækkanir, leigubremsu eða ýmsar mikilvægar mótvægisaðgerðir eins og hvalrekaskatt á ofur hagnað fyrirtækja.

Sem betur fer hafði verkalýðshreyfingin skynsemi til þess að semja til skamms tíma og það er algjört lykilatriði að hún standi þétt saman í komandi átökum því oft hefur verið þörf en nú er það nauðsyn.

Það eru og verða svo miklar áskoranir í kjarasamningum á komandi vetri að það hálfa væri nóg því núna mun það ekki ganga enn og aftur að allri ábyrgð sé ætíð varpað á herðar launafólks.

Helsti slagkraftur launafólks er samstaða, það er með henni sem verkalýðshreyfingin vinnur sína stærstu sigra í þágu launafólks.

Við landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands ætlum svo sannarlega að standa þétt saman í komandi kjarasamningum. En á bakvið SGS eru 18 aðildarfélög vítt og breitt um landið með um 44 þúsund félagsmenn og erum við stærsta landssambandið innan ASÍ.

Það er og verður gríðarlega mikilvægt að SGS standi þétt saman í að verja hagsmuni félagsmanna sinna sem búa á landsbyggðinni. 

Við landsbyggðarfélögin þurfum og verðum að tryggja að öll áhersla verkalýðshreyfingarinnar einskorðist ekki við hagsmuni þeirra sem búa í Reykjavík. Þar gegna landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambands Íslands veigamiklu hlutverki.

Ágætu félagar.

Eins og áður sagði þá er það mikilvægt að stéttarfélög á landsbyggðinni gæti að hagsmunum sinna félagsmenna og í því samhengi get ég ekki annað en lýst yfir áhyggjum mínum af atvinnumálum hér á Akranesi. 

Við þurfum svo sem ekki að kvarta yfir því að okkur Akurnesingum fjölgar jafnt og þétt en í dag búa rúmlega 8000 manns á Akranesi. Í dag eru 292 íbúðir í byggingu eða á byggingarstigi skv. Húsnæðis og mannvirkjastofnun en það er ekki nóg að byggja íbúðir það þarf líka að tryggja fólki atvinnu í sínu sveitarfélagi. Enda þrífst ekkert sveitarfélag nema til staðar sé öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

Ég biðla til bæjaryfirvalda að taka atvinnumálin föstum tökum og laða hingað alvöru gjaldeyrisskapandi fyrirtæki. Ef ekkert verður að gert í atvinnumálum mun Akranes sogast endanlega í að verða algjör svefnbær og því er það lykilatriði að bæjaryfirvöld tryggi fleiri atvinnutækifæri fyrir bæjarbúa.

Það gengur ekki upp í mínum huga að 25 til 35% bæjarbúa þurfi að sækja daglega vinnu til Reykjavíkur eins og staðan er í dag. Sem dæmi þá eyðir aðili sem þarf að sækja vinnu til Reykjavíkur 25 klukkustundum á mánuði í keyrslu eða um 300 klukkustundum á ári.

Tökum höndum saman um að tryggja fjölbreyttari atvinnumöguleika hér á Akranesi bæjarbúum til hagsbóta og þar skiptir aðkoma bæjaryfirvalda öllu máli.

Kæru félagar.

Aftur að kjaramálum, við gengum frá skammtímakjarasamningi síðast og núna eru einungis 8 mánuðir þar til samningurinn rennur út. Við erum nú þegar byrjuð í viðræðum við Samtök atvinnulífsins hvað nýjan kjarasamning varðar og það er jú stefnt að því að gera langtímasamning næst. En trúið mér það verður alls ekki gert né framkvæmanlegt nema með umtalsverðri aðkomu stjórnvalda að slíkum langtímasamningi.

Við þurfum að halda áfram að leggja ofuráherslu á að samið verði í komandi kjarasamningum um krónutöluhækkanir eins og gert var í síðasta samningi. Enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og gera ekkert annað en að auka ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Það er skólabókardæmi hvernig prósentuhækkanir knýja fram misskiptingu og óréttlæti í samfélaginu.  Enda nægir að nefna að ef samið væri um launahækkun upp á 6% þá fær verkamaður sem er með 450 þúsund í laun 27 þúsund króna hækkun á sínum launum á mánuði. En forstjóri með 4 milljónir í mánaðarlaun hækkar um 240 þúsund á mánuði. Já, forstjórinn fær 213 þúsund meiri launahækkun en verkamaðurinn en báðir eiga að hafa fengið jafnmikið því báðir fengu 6% launahækkun.

Á þessu sést sú blekking sem á sér stað þegar samið er með prósentum og munum að ekkert okkar fer með prósentur út í búð. Við greiðum allt með krónum ekki prósentum!

Það er ljóst að við verðum að fá stjórnvöld myndarlega að borðinu í komandi kjarasamningum en í kjarasamningunum 2019 var aðgerðapakki stjórnvalda metinn á 80 milljarða. Í komandi kjarasamningum verðum við að vera með skýlausa kröfu á stjórnvöld um að létta enn frekar á skattbyrði lágtekjufólks og koma þarf mun betur til móts við tekjulágar fjölskyldur í formi hærri barnabóta, húsaleigubóta og vaxtabóta.

Það er morgunljóst að það þarf þjóðarátak í húsnæðismálum enda eru fasteignamarkaðurinn og leigumarkaðurinn eins og vígvellir um þessar mundir.

Við verðum einnig að tryggja að vaxtastig hér á landi verði stöðugt og að íslenskum neytendum standi til boða húsnæðiskjör eins og þekkjast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við eins og til dæmis á Norðurlöndunum, enda eru vaxtagjöld heimilanna afar stór kostnaðarliður.

Nú standa heimili í þeirri stöðu að vextir hafa rokið upp á undanförnum mánuðum með skelfilegum afleiðingum fyrir skuldsett heimili. Það liggur t.d. fyrir að vaxtabyrði hefur stökkbreyst hjá þeim sem eru t.d. með óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum.

Tökum dæmi af heimili með 40 milljóna króna húsnæðislán sem tekið var með 4% breytilegum vöxtum en vaxtabyrði var fyrir 18 mánuðum 133 þúsund á mánuði en í dag stendur vaxtabyrðin í 313 þúsundum og hefur því hækkað um 180 þúsund á mánuði.

Munum líka að tugþúsundir heimila eru með svokallaða fasta vexti sem munu koma til endurskoðunar á næstu 12 til 24 mánuðum og þá mun vaxtabyrði þeirra heimila hækka um tugi ef ekki hundruð þúsunda á mánuði. Já, íslensk heimili eru með 634 milljarða í formi húsnæðislána með fasta vexti sem koma til endurskoðunar á næstu 12 til 24 mánuðum og ef ekkert verður að gert mun vaxtabyrði á þessum 634 milljörðum rúmlega tvöfaldast og allir geta ímyndað sér hvaða afleiðingar það mun hafa í för með sér.

Ekki er hægt að gleyma leigjendum sem komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn sökum þess að þeir komast ekki í gegnum greiðslumat bankanna. Þar spila okurvextir fjármálakerfisins stóra rullu í því að fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn. En rétt er að geta þess að 9 af hverjum 10 vill komast í sitt eigið húsnæði og komast hjá því að þurfa að vera á leigumarkaðnum.

Munum að oftar en ekki er það lágtekjufólk sem er fast á leigumarkaði og þarf að greiða þetta 250 til 350 þúsund á mánuði í leigu. Það sér hvert mannsbarn að þessi staða getur alls ekki gengið upp.

Því liggur fyrir að aðkoma stjórnvalda að komandi kjarasamningum mun ráða úrslitum um hvort hér verði hægt að ganga frá kjarasamningum án átaka eða ekki. Það skiptir litlu máli fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að semja hér um 40, 50 eða 60 þúsund króna launahækkun á mánuði ef allt annað hækkar um miklu meira en það sem við erum að semja um. Því þarf að ráðast í róttækar kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem lúta að því að stjórnvöld hætti þessu dekri við fjármálaöflin og þá sem eiga fjármagnið hér á landi og standi vörð um alþýðu þessa lands.

Nægir að nefna að viðskiptabankarnir þrír skiluðu 70 milljörðum í hagnað á síðasta ári sem liggur við að sé meira en hagnaður hjá öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi og öllum stóriðjufyrirtækjum hér á landi.  Sem dæmi þá juku bankarnir vaxtatekjur sínar um 25 milljarða á síðasta ári og þjónustugjöld um 4 milljarða.

Það þurfa að koma til kerfisbreytingar þar sem hagsmunir almennings verða hafðir í fyrirrúmi.  Mitt mat er að við þurfum að halda áfram að stíga þétt skref í átt að því að lagfæra kjör verkafólks og þau skref þurfa svo sannarlega að verða fleiri og kröftugri á næstu misserum. En eitt er víst að launahækkanir einar og sér munu svo sannarlega ekki duga til og því er aðkoma stjórnvalda ekki bara nauðsynleg heldur bráðnauðsynleg.

Það er lýðheilsumál að laun verkafólks dugi frá mánuði til mánaðar og að lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn á launum sínum. Munum kæru félagar að það eru tíu þúsund börn á Íslandi sem búa við fátækt og það er hvorki stefna né áætlun til á Íslandi um að uppræta fátækt en þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla. Að hugsa sér að í einu ríkasta landi í heiminum skuli 13,1% barna búa við fátækt.

Kæru vinir. Já, það er svo sannarlega lýðheilsumál að lagfæra kjör verkafólks og þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Við getum ekki verið með launakjör sem duga ekki fyrir lágmarks framfærslu þegar að vöruverð, okurvextir og himinhátt leiguverð tæta allar ráðstöfunartekjur til sín. Í slíku er fólginn alger ómöguleiki.

Það segir sig sjálft að þegar lágtekjufólk nær ekki endum saman til að brauðfæða sig og sína þá getur það haft skelfilegar afleiðingar fyrir heilsu fólks. Lágtekjufólk sogast jafnvel inn í myrkur ótta og vonleysis sem getur leitt af sér hina ýmsu heilsufarskvilla jafnt líkamlega sem andlega.

 

Að laun dugi ekki fyrir nauðþurftum er dauðans alvara og það er ekki bara að hún geti leitt til aukinnar örorku heldur leiðir hún til aukins álags á velferðar-, heilbrigðis-, og félagslega kerfið.

Ég hef  sagt það áður og segi það enn og aftur, það er stjórnvöldum, Samtökum atvinnulífsins, verkalýðshreyfingunni og í raun og veru samfélaginu öllu til ævarandi skammar að vera með þannig lífsskilyrði að laun verkafólks og bætur almannatrygginga dugi ekki fyrir nauðþurftum á milli mánaða.

Ágætu félagar, Martin Luther King sagði þann 28. ágúst 1963 í einni frægustu ræðu sem flutt hefur verið: Ég á mér draum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að alþýða þessa lands og skuldsett heimili eiga sér draum.

  • • Draum um réttlæti, sanngirni og jöfnuð.
  • • Draum um að stjórnvöld taki stöðu með alþýðunni og skuldsettum heimilum.
  • • Já, draumur alþýðunnar liggur í því að dekri stjórnvalda við sérhagsmunaelítuna og fjármálaöflin linni í eitt skipti fyrir öll og að heimilum þessa lands verði ekki lengur fórnað á altari fjármálakerfisins.
  • • Já, draumur alþýðunnar er að tekið sé á spillingu, græðgi og óheiðarleika.
  • • Já, draumur alþýðunnar er að allir geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

Ágætu félagar.

Það er hlutverk okkar í verkalýðshreyfingunni að þessir draumar alþýðunnar náist fram og til að það sé hægt þarf að ríkja samstaða

En munum að öll þau réttindi sem íslenskt verkafólk telur í dag vera algerlega sjálfsögð, áunnust vegna þrotlausrar baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Réttindi eins og veikindaréttur, orlofsréttur, fæðingarorlof, uppsagnarfrestur, lágmarkshvíld, orlofs- og desemberuppbætur og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta réttindi sem hafa áunnist á liðnum árum og áratugum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar.

Stéttarfélögin gegna líka mjög veigamiklu hlutverki við að verja réttindi sinna félagsmanna, enda er leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup, kjör og önnur réttindi.

Sem betur fer eru langflestir atvinnurekendur heiðarlegir, en trúið mér inn á milli eru til atvinnurekendur sem eru algerir drullusokkar sem víla ekki fyrir sér að svína á sínum starfsmönnum eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég vil í þessu samhengi upplýsa ykkur um að frá árinu 2004 hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt um einn og hálfan milljarð vegna kjarasamningsbrota á okkar félagsmönnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki verið að taka tillit til þeirra margfeldisáhrifa sem sum málin héldu síðan áfram að hafa.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að verja réttindi okkar félagsmanna með kjafti og klóm ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum þeirra.

Hins vegar er rétt að geta þess að stundum koma upp ágreiningsmál þar sem félagið og fyrirtæki á okkar félagssvæði eru sammála um að vera ósammála og láta dómstóla skera úr um ágreiningsmál.

Félagið hefur á liðnum árum margoft þurft að stefna fyrirtækjum á okkar félagssvæði fyrir dómstóla vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun ákvæða í kjarasamningum

Á þessu sést að félagið vílar ekki fyrir sér að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna ef minnsti grunur leikur á að verið sé brjóta á réttindum þeirra. Það er rétt að geta þess að við höfum unnið nánast öll mál sem við höfum farið með fyrir dómstóla.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera aðili að öflugu stéttarfélagi til að verja hagsmuni sína og trúið mér Verkalýðsfélag Akraness lætur ekkert fyrirtæki fótum troða réttindi hjá sínum félagsmönnum.

Kæru félagar.

Að lokum þetta. Til að okkur takist að halda áfram að lagfæra kjör launafólks verður verkalýðshreyfingin að vera samstillt og sameinuð því án samstöðunnar erum við mun veikari og trúið mér að það eru öfl í íslensku samfélagi sem vilja draga úr vægi og getu verkalýðshreyfingarinnar. Því er mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi þétt saman, þannig eigum við mun betri möguleika á að tryggja okkar félagsmönnum réttlæti, jöfnuð og velferð!

27
Apr

1. maí 2023

Stéttarfélögin VLFA, FIT, Sameyki, VR, Kennarasamband íslands og Sjúkraliðafélag Íslands  standa saman að hátíðardagskrá :

Þann 1. maí kl. 14:00 verður safnast saman við skrifstofu VLFA að Þjóðbraut 1, þar sem hin frábæra trommusveit TOSKA undir stjórn Heiðrúnar Hámundsdóttur mun leiða kröfugöngu .

Gengið verður hringur sem endar við Bæjarskrifstofur Akraness, þar munum við fagna saman í sal eldri borgara á Akranesi.

Boðið verður upp á veitingar ásamt söngatriðum og ræðuhöldum.

Félögin bjóða upp á tvær sýningar á myndinni Super Mario Bros, fyrri kl 13:00 og seinni kl. 16:00

mariobros

 

Hér er hægt að nálgast frímiðana :)  

25
Apr

Aðalúthlutun orlofshúsa er lokið

Í gær þann 24. apríl fór fram fyrri úthlutun orlofshúsa sumarsins.

Félagsmenn ættu að kíkja í tölvupóstinn sinn  ef þeir sóttu um hjá okkur, en búið er að senda bæði staðfestingabréf sem og höfnunarbréf í tölvupósti til allra umsækjenda.

Ef ekkert hefur komið en sótt var um má endilega hafa samband við okkur á skrifstofunni til að kanna hvort að heppnin hafi verið með ykkur.

Eindagi fyrri úthlutunar er 2. maí, en endurúthlutun fer fram þann 3. maí.  

Endurúthlutun fer þannig fram að allar þær vikur sem eru ógreiddar eftir 2. maí eru settar aftur í úthlutun og kerfið okkar sér um að allar þær umsóknir sem ekki fengu í fyrri úthlutun raðast niður á ógreiddar viikur.

Við munum senda staðfestingarbréf í tölvupósti á þá sem fá í endurúthlutun.

Ef eitthvað er óljóst hvetjum við ykkur að hafa samband við okkur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image