• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Mar

Stoðar lítt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum ef ekki á að nýta þau þegar forsendur eru brostnar

Formannafundur ASÍ sem haldinn var fimmtudaginn 28. febrúar 2018, samþykkti í atkvæðagreiðslu að segja ekki upp kjarasamningum. Alls greiddu 49 atkvæði en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig.

 

Niðurstaða formanna: 

Já, vil segja upp 21 (42,9%)

Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)

 

Vægiskosning:

Já 52.890 (66,9%)

Nei 26.172 (33,1%)

Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka.

 

Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að hann hefur verið mjög hugsi eftir þennan formannafund. Hann er hugsi yfir því af hverju myndaðist ekki breið samstaða um uppsögn kjarasamninga. Sérstaklega í ljósi þess að degi fyrir formannafundinn fékk almenningur í þessu landi fréttir af því að laun forstjóra Landsvirkjunar hafi verið hækkuð um 800 þúsund á mánuði. Það má líka segja að það stoði lítt að vera með forsenduákvæði í kjarasamningum og fara síðan ekkert eftir þeim þegar forsendur eru brostnar.

Þessu til viðbótar kom líka frétt í gær sem kvað á um að launakostnaður 26 lykilstjórnenda viðskiptabankanna þriggja hafi numið rúmum 1 milljarði í fyrra. Þessu öllu til viðbótar hefur legið fyrir að kjararáð hefur hækkað embættismenn og æðstu ráðamenn þjóðarinnar í launum frá árinu 2013 frá 500 þúsundum á mánuði upp í allt að 750 þúsund eða sem nemur 64% uppí tæp 75%

Á sama tíma hafa lágmarkslaunataxtar verkafólks hækkað um 65 þúsund á mánuði eða sem nemur 34%. Þetta þýðir að ef lágmarkslaun hefðu tekið sömu breytingum og kjararáð gaf æðstu ráðamönnum þjóðarinnar frá árinu 2013 þá væru lágmarkslaun ekki 280 þúsund á mánuði heldur 356 þúsund í dag, hér munar 76 þúsundum á mánuði.

Atburðir síðustu daga voru því svo sannarlega kornið sem fyllti mælirinn hjá okkur í Verkalýðsfélagi Akraness og því töldum við ekkert annað í stöðunni en að segja þessum kjarasamningum upp enda fordæmalaus forsendubrestur búinn að eiga sér stað.

Það voru því gríðarleg vonbrigði að ekki skyldi nást meirihluti hjá formönnum fyrir uppsögn þótt rétt sé að geta þess að þeir formenn sem vildu segja samningum upp voru með um 70% félagsmanna að baki sér.

Formaður VLFA gerði grein fyrir  afstöðu stjórnar á formannafundinum og færði góð og gild rök fyrir því af hverju ætti að segja kjarasamningum upp og rakti m.a. allt þetta sem hér kemur fram á fundinum í dag.

Formaðurinn kom líka inn á þann skefjalausa blekkingarleik sem stundaður er þegar talað er um að það sé búin að eiga sér stað fordæmalaus kaupmáttaraukning og þá sérstaklega hjá þeim tekjulægstu.Hann benti á þá bláköldu staðreynd að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu og víðar hefur samkvæmt opinberum gögnum hækkað um 75% frá árinu 2011, en á sama tíma hafa lágmarks launataxtar hækkað um 64%. Semsagt bullandi kaupmáttarskerðing hjá lágtekjufólki sem er á leigumarkaði en ekki kaupmáttaraukning eins reynt er að halda fram af Samtökum atvinnulífsins og fleirum.

Formaðurinn sagði líka hátt og skýrt á fundinum að Verkalýðsfélag Akraness muni aldrei taka þátt í nýju vinnumarkaðsmódeli að norrænni fyrirmynd sem gengur út á að skerða og takmarka samningsfrelsi stéttarfélaga og beisla möguleika launafólks að sækja sér alvöru kjarabætur. Hann sagðist vita að Samtök atvinnulífsins, hluti af forystu ASÍ og stjórnvalda hafi verið og muni halda áfram að reyna að koma þessu „fjandans“ vinnumarkaðsmódeli á.

Á þessari forsendu m.a. er formaður afar hugsi og gríðarlega svekktur yfir því að formannafundurinn hafi ekki sameinast um að segja samningum upp og krefja atvinnurekendur um leiðréttingar á forsendubrestinum og einnig krafið stjórnvöld um aðgerðir vegna okurvaxta, afnáms verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn færi úr lögum um vexti og verðtryggingu sem og að hækka persónuafsláttinn sem kemur þeim tekjulægstu best. Öll Þessi atriði sem formaður kom inn á í sinni ræðu á formannafundinum, skipta öll miklu máli fyrir launafólk og heimili þessa lands.

Núna þarf að hugsa hvaða leikir eru í stöðunni og formaður ætlar rétt að vona að menn fari ekki að vinna bakvið tjöldin að nýju vinnumarkaðsmódeli en því miður grunar formanni VLFA að svo verði. En eitt er víst að VLFA mun beita sér af alefli gegn öllum slíkum hugmyndum er lúta að nýju Salek samkomulagi!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image