• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Mar

Þingflokkur Miðflokksins óskar eftir að funda með formönnum VLFA, VR og Eflingar

Þingflokkur Miðflokksins hefur óskað eftir að funda með formönnum Verkalýðsfélags Akraness, VR og Eflingar og verður fundurinn haldinn í dag.

Væntanlega verður til umræðu sú staða sem upp er komin í íslenskri verkalýðshreyfingu með tilkomu meirihluta VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar. En það er morgunljóst að með þessum nýja meirihluta innan ASÍ eru komnar fram nýjar áherslur og stefnur og varða þessar áherslubreytingar hin ýmsu mál sem lúta að hagsmunum launafólks.

Það er ljóst að þessi félög vilja kalla eftir verulegum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir lágtekju-og millitekjufólks verði hafðir að leiðarljósi og allt verði gert til að auka ráðstöfunartekjur þeirra eins og kostur er. Þessi félög hafa margvíslegar hugmyndir um hvernig hægt er að gera það og ef það mun kalla á að verkalýðshreyfingin þurfi að fara í róttækar aðgerðir til að knýja þær fram þá eru þessi félög tilbúin að láta kné fylgja kviði til þess.

Það er mat þessara félaga að gera þurfi samfélagssáttmála á okkar forsendum þar sem hagsmunir hins vinnandi manns verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins og þeirrar grímu-og taumlausu græðgisvæðingar sem enn og aftur hefur skotið rótum á meðal margra stjórnenda íslenskra fyrirtækja.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image