• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Oct

Formaður VLFA fundaði með atvinnuveganefnd Alþingis

Formaður félagsins var boðaður á fund hjá atvinnumálanefnd Alþingis þar sem umræðuefnið var m.a. sú mikla aukning sem er að eiga sér stað hvað varðar útflutning á óunnum fiski.

En samkvæmt gögnum sem formaður aflaði sér hjá Fiskistofu fyrir fundinn þá var útflutningur á fiski árið 2016 tæp 24 þúsund tonn, árið 2017 var útflutningur 33 þúsund tonn og árið 2018 var útflutningur kominn í 47 þúsund tonn en áætlað er að útflutningur fyrir árið 2019 verð rúmlega 50 þúsund tonn.

Það er morgunljóst að það er sorglegt að verið sé að flytja svona mikið magn af óunnum fiski á erlenda markaði enda liggur fyrir að hægt væri að skapa allt að 500 ný störf í fiskvinnslu ef þessi fiskur yrði unninn hér á landi.

Formaður fór víða í máli sínu á fundinum með atvinnuveganefnd Alþingis, m.a. vék hann að þeirri staðreynd að á 25 árum hefur störfum í fiskvinnslu fækkað um 6700,  en fyrir 25 árum voru 9600 manns sem höfðu fiskvinnslu að aðalstarfi en í fyrra var þessi fjöldi kominn niður í 2900.

Formaður vék einnig að því hvernig fyrirkomulag við stjórn fiskveiða hefur leikið hinar ýmsu sjávarbyggðir afar grátt og tók sem dæmi að á Akranesi hafi 350 manns haft atvinnu af veiðum og vinnslu hjá útgerðafyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni árið 2004 og það ár hafi 129 þúsundum tonna verið landað á Akranesi og fyrirtækið greiddi um 2,2 milljarða í laun.

Árið 2004 sameinaðist HB&CO útgerðafyrirtækinu Granda í Reykjavík en við sameininguna fór HB&CO með um 20 þúsund tonn af bolfiski inní sameininguna en núna er allt farið! Formaður gagnrýndi stjórnmálamenn harðlega þar sem skýrt er kveðið á um í 1 gr. laga um stjórn fiskveiða að markmið lagana sé m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. 

 

Það getur ekki verið í anda laganna að nánast á einni nóttu er allt lífsviðurværi fólks flutt úr sveitafélaginu yfir í annað og það með skelfilegum afleiðingum fyrir alla sem fyrir því urðu sem og samfélagið allt.

Formaður félagsins vék einnig sérstaklega að verðlagningu á uppsjávarafla en það er að mati formanns ástundað stórfellt svindl enda hefur Verðlagsstofa skiptaverðs bent á það í skýrslu sem gefin var út að frá árinu 2012 til 2018 hafi verðmunur á ferskum makríl milli Íslands og Noregs verið að meðaltali 226% Íslandi í óhag.

Formaður benti einnig á að þetta ætti ekki eingöngu við makríl enda hefði íslenskt skip sem nýverið landaði síld í Noregi fengið 82 krónur fyrir kílóið, á meðan útgerðir hér á landi greiða einungis í kringum 36 krónur. Útgerðir sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi hafa á ótrúlegan hátt komist upp með að greiða langt um lægra fiskverð miðað við Noreg og Færeyjar.

Með þessu er ekki bara verið að hafa fé af sjómönnum heldur benti formaður þingmönnum sem sitja í atvinnuveganefnd á þá staðreynd að með þessu væri verið að hafa skatttekjur af ríkissjóði og sveitafélögum sem og hafnargjöld, enda miðast þau við aflaverðmæti.

Formaður nefndi á fundinum að hann teldi fulla þörf á að t.d. atvinnuveganefnd myndi láta fara fram óháða rannsókn á þessu þótt vissulega megi segja að sú rannsókn hafi nú þegar verið framkvæmd af Verðlagstofu skiptaverðs sem sýndi og sannaði að svindlið og svínaríið á verðlagningu á uppsjávarafla ríður ekki við einteyming.

Á óskiljanlegan hátt virtust þingmenn ekki hafa nokkurn áhuga á þessum upplýsingum þrátt fyrir að formaður telji að frá árinu 2012 til 2018 hafi ríki og sveitafélög orðið af nokkrum milljörðum í skatttekjur vegna þess að ekki er verið að greiða rétt fiskverð miðað við það sem önnur lönd eru að greiða fyrir sömu fisktegundir.

 

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image