• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Aug

VLFA hafnar að pumpa meira inní lífeyrishítina

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni sem og í fjölmiðlum þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá samkomulagi við Samband íslenskra sveitafélaga 23. júlí síðastliðinn.

Samkomulagið gekk út á m.a. að tryggja að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit fengu 105.000 króna eingreiðslu vegna þess hversu lengi hefur tekið að ganga frá nýjum kjarasamningi. En þessi eingreiðsla var fyrirframgreiðsla vegna þess dráttar sem orðið hefur á við að ganga frá nýjum samningi.

Samkomulagið laut einnig að Þeim ágreiningi sem önnur félögin innan Starfsgreinasambands Íslands hafa átt við Samband íslenskra sveitafélaga og lýtur að svokölluðum lífeyrisauka sem SGS telur að Sambandið hafi verið búið að skuldbinda sig til að greiða. Það er óhætt að segja að þetta sé afar flókið mál, en eina sem er öruggt í þessu máli er að Samband íslenskra sveitafélaga hefur viðurkennt að hafa verið búið að skuldbinda sig til að leggja til 1,5% til launabreytingar samkvæmt rammasamkomulagi sem gert var árið 2015. Hins vegar hafnar sambandið alfarið að hafa verið búið að samþykkja að þetta yrði gert með sambærilegum hætti og ríki og Reykjavíkurborg gerðu eða nánar tilgetið í gegnum svokallaðan lífeyrisauka.

Það er mat Verkalýðsfélags Akraness að enginn gögn liggi fyrir í málinu sem staðfestir að Samband íslenskra sveitafélaga hafi verið búið að samþykkja að fara sömu leið og ríki og Reykjavíkurborg. Það liggja hins vegar fyrir gögn að Samband íslenskra sveitafélaga hafnaði að fara slíka leið.

Það er hins vegar rétt að segja það strax í upphafi að Verkalýðsfélag Akraness vill ekki sjá að setja þessi 1,5% inn sem lífeyrisauka, en 1,5% er sú meðaltalshækkun sem það kostar að fara þá leið.

Félagið vill hins vegar nota þetta svigrúm til að hækka laun sinna félagsmanna sem starfa hjá áðurnefndum sveitafélögum og í samkomulaginu sem VLFA gerði 23 júlí er skýrt kveðið á um að sambandið er tilbúið að hækka launataxta um þessi 1,5% til viðbótar þeim launabreytingum sem samið verður um.

Þetta þýðir að t.d. skólaliði mun fá rúmar 5.000 króna hækkun á sínum grunnlaunum á mánuði vegna þessa 1,5% hækkunar eða sem nemur rúmum 60.000 á ári. Þessi 1,5% mun t.d. skila skólaliða sem vinnur alla sína starfsævi hjá sveitafélaginu um 5 milljónum.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á þessum staðreyndum, en ef þetta yrði sett inní lífeyrisauka eins og SGS vill gera þá myndu allir starfsmenn sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. Júní 2017 ekki fá neitt, en þeir sem voru fyrir þann tíma í starfi myndu njóta lífeyrisávinnings. VLFA er alls ekki tilbúið að skilja alla félagsmenn eftir sem hófu störf eftir umræddan tíma með ekki neitt og búa þannig í raun til tvöfalt lífeyriskerfi eftir því hvenær þú hófst störf. Rétt er að geta þess að starfsmannavelta hjá sveitafélögunum er umtalsverð.

Hins vegar vill VLFA að allir félagsmenn okkar fái þessa 1,5% hækkun og engum verði mismunað, enda mikilvægt að reyna allt sem hægt er til að lyfta kjörum starfsmanna sveitafélaganna upp enda kjör hjá sveitafélögunum ein þau lökustu sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði.

Það er einnig mat félagsins að það séu alveg takmörk fyrir því hversu gríðarlegum fjármunum eigi endalaust að pumpa inní þetta lífeyriskerfi, en nú þegar eru félagsmenn að greiða 15,5% og þeir sem eru með séreignasparnað uppá 6% eru að greiða 21,5% af sínum heildartekjum inní kerfið.

Það er mikilvægt að allir átti sig á því um hvað þetta mál snýst en 15,5% sem allir starfsmenn sveitafélaga hafa verið að greiða í lífeyrissjóð áttu að duga fyrir því að starfsmenn ættu að eiga rétt á 76% af meðaltekjum sínum á starfsævi frá sínum lífeyrissjóði. Hins vegar hefur komið í ljós að svo er ekki vegna tryggfræðilegs halla á sjóðunum og þessi lífeyrisauki á að nota til að uppfylla loforð sem búið var að gefa sjóðsfélögum. VLFA er alls ekki tilbúið eins og áður sagði að pumpa meira inní þessa lífeyrishít þar sem endalaust er verið að setja meiri fjármuni inn til að réttlæta „ágæti“ kerfisins.

Eins og áður sagði höfnum við þessari leið og viljum nýta þessa fjármuni sem standa til boða til að hækka strax laun allra félagsmanna okkar sem starfa hjá sveitafélögnum um þessi 1,5% sem skilar eins og áður sagði rúmum 60.000 krónum á ári og yfir starfsævina um 5 milljónum og munar um minna.

Félagið ítrekar einnig að það komi ekki til greina að skilja hluta okkar félagsmenna eftir eða eins og áður hefur komið fram nær þessi lífeyrisauki ekki til starfsmanna sem hófu störf hjá sveitafélögunum eftir 1. júní 2017.

Það er einnig rétt að geta þess að þeir félagsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit sem formaður hefur talað við eru algerlega sammála því að nota þessi 1,5% til að hækka launin strax en ekki setja þetta inní lífeyrishítina enn og aftur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image