• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Apr

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær á Gamla kaupfélaginu og fór hann fram með hefðbundnu sniði samkvæmt auglýstri dagskrá. Fundarstjóri var Vilhjálmur Birgisson og ritarar fundarins voru Ólöf Vigdís Guðnadóttir og Inga Maren Ágústsdóttir

Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, kynnti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og helstu mál sem komið hafa á borð félagsins síðasta árið. Í skýrslu stjórnar var farið ítarlega yfir nýgerðan lífskjarasamning sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði og kom fram í máli formanns að honum væri algjörlega til efs að jafn innhaldsríkur kjarasamningur hafi verið gerður fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. Hann tilgreindi í því samhengi sérstaklega að nú hefði tekist að semja eingöngu í formi krónutöluhækkana og einnig hafi launafólki verið tryggð auknar launahækkanir í gegnum svokallaðan hagvaxtarauka.

Einnig fór Vilhjálmur yfir þau verkefni sem eru framundan og var þar af nógu að taka, enda eru nú þegar kjarasamningar starfsmanna Akraneskaupstaðar og starfsmanna ríkisins runnir út. Vinna við að ná fram kjarasamningum fyrir þá félagsmenn sem tilheyra þessum samningum er nú þegar hafinn af fullum þunga. Fram kom í máli formanns að mjög líklega verður samið með sambærilegum hætti og gert var í lífskjarasamningum fyrir starfsmenn sveitafélagana og ríkis. 

Einnig fór formaður yfir að um næstu áramót losna kjarasamningar í stóriðjunum og nauðsynlegt að undirbúa þá baráttu vel og tímanlega

Fram kom í skýrslu stjórnar að félagsmenn VLFA hafa verið duglegir að nýta sér þjónustu og styrki félagsins, en í máli Vilhjálms kom fram að á síðasta ári fengu 1294 manns greiðslu úr sjúkrasjóði, 344 fengu einstaklingsstyrki greidda úr menntasjóðum, tæplega 300 manns keyptu sér Veiðikort, Útilegukort, gistimiða og slíkt og um 100 manns fóru í dagsferð eldri borgara í boði félagsins. En um 70% greiðenda í félagið nýttu sér þjónustu félagsins með einum eða öðrum hætti.

Ársreikningar félagsins voru lagðir fyrir aðalfundinn en afkoma félagsins á síðasta ári var afar góð, en rekstrarafgangur var tæpar 146 milljónir. Eignir félagsins eru 1.516 milljónir og þar af handbært fé um 1.278 milljónir.

Fyrir fundinn var lögð tillaga stjórnar að breytingum 14 og 29. grein laga félagsins. Vilhjálmur fór yfir breytingartillöguna og útskýrði tilgang hennar . Eftir umræður var tillagan borin undir fundinn og samþykkt samhljóða.

Á fundinum kynnti formaður einnig ákvörðun stjórnar sjúkrasjóðs um hækkun á nokkrum strykjum úr sjúkrasjóði og ber helst að nefna að frá og með 1. Maí munu fæðingarstyrkur hækka úr 100.000 kr. í 150.000 krónur og ef báðir foreldrar eru félagsmenn nemur styrkurinn 300.000 kr. Einnig hækkaði heilsueflingarstyrkurinn úr 25.000 kr. í 30.000 kr. sem og gleraugnastyrkurinn úr 45.000 í 50.000 kr. En þessi hækkun á styrkjum er tilkomin vegna góðrar afkomu félagsins enda er það stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti.

Á aðalfundinum var einnig samþykkt tillaga um að styrkja Sjúkrahús Akranes um kaup á þremur sjúkrarúmum og nemur styrkurinn 1,5 milljón króna. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Verkalýðsfélag Akraness styrkir sjúkrahúsið á Akranesi en félagið styrkti kaup á sneiðmyndatæki upp á eina milljón árið 2015. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness telur mjög mikilvægt okkar félagsmenn búi við öfluga heilbrigðisþjónustu þar sem aðbúnaður og tækjakostur sé eins góður og kostur er.



Í fundarlok þakkaði Vilhjálmur stjórn félagsins og starfsmönnum kærlega fyrir gott samstarf á síðasta ári.

Eftir fundinn bauð félagið fundargestum upp á kvöldverð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image