• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Apr

Lífskjarasamingurinn samþykktur hjá félagsmönnum VLFA með 88% atkvæða

Rétt í þessu voru  úrslit í kosningum um lífskjarasamninginn gerðar opinberar og kom það formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að 88% félagsmanna VLFA sem kusu um samninginn hafi sagt já við samningum.

En rétt er að geta þess að lífskjarasamningurinn var samþykktur hjá öllum aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands en meðaltalið var 80%

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það mat formanns að lífkjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl síðastliðinn sé einn besti samningurinn sem formenn félaganna hafa gert fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi afgerandi kosning staðfestir að félagsmenn VLFA og reyndar verkafólk vítt og breitt um landið eru sammála því mati.

Þær nýju leiðir sem farnar voru við gerð lífskjarasamningsins munu svo sannarlega koma íslensku verkafólki til góða en í fyrsta skipti var eingöngu samið með krónutöluhækkunum en ekki prósentum. Ekki bara það heldur fær verkafólk á lægstu laununum hærri krónutöluhækkanir en þeir sem eru á hærri laununum.

Þessu til viðbótar var tryggt að launafólk fengi auknar krónutöluhækkanir ef hagvöxtur á mann verður frá 1% til 3% en með þessum hagvaxtarauka er verið að tryggja að aukna hlutdeild launafólks ef afkoma fyrirtækja verður góð. En aldrei hefur verið samið um slíkan hagvaxtarauka áður í kjarasamningum og er formaður félagsins afar stoltur að hafa átt stóran þátt í gerð þessa samnings með félögum okkar í VR, Eflingu, Framsýn og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Vissulega er það áhyggjuefni hversu lítil þátttaka í kosningunni var en einungis um 12% þeirra sem voru á kjörskrá greiddu atkvæði en þrátt fyrir það er niðurstaðan algerlega afdráttarlaus og endurspeglar það sem formaður hefur heyrt frá hinum almenna félagsmanni sem heyrir undir samninginn.

 

Hér er hægt að sjá nýja launatöflusem tók gildi 1. apríl 2019

 

En rétt er að ítreka það að þetta er hinn almenni samningur fyrir verkafólk, en ekki hjá þeim sem starfa hjá sveitarfélögum eða ríkinu.  Kjarasamningar við starfsmenn ríkis og sveitarfélaga runnu út þann 31. mars sl.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image