• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Apr

Lífskjarasamningar undirritaðir

Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, VR, LÍV, Efling-stéttarfélag, Framsýn og Starfsgreinasamband Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að hér sé um algjöran tímamótasamning að ræða, samning sem byggist á þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda.

Formaður félagsins hefur tekið þátt í að gera kjarasamninga í 15 ár og er það mat hans að þessi kjarasamningsgerð sé ein sú erfiðasta sem hann hefur tekið þátt í.

Þessi kjaradeila var mjög erfið og nægir að nefna í því samhengi að í miðri kjaradeilunni eða nánar tiltekið fyrir viku síðan varð efnahagslífið fyrir verulegu höggi, eins og allir vita þá varð flugfélagið WOW air gjaldþrota. Það leiddi til þess að upp undir 2000 þúsund félagsmenn félaganna misstu lífsviðurværi sitt á einni nóttu.

Þessi breytta staða gerði það að verkum að við urðum að endurskipuleggja og nálgast kjarasamningsgerðina með öðrum hætti vegna þessarra breyttu aðstæðna. Meðal annars á þessari forsendu ákváðum við að nálgast þetta verkefni með nýrri hugmyndafræði sem byggist á því að taka tillit til þeirra hjartsláttatruflanna sem hagkerfið okkar varð tímabundið fyrir.  En samt vorum við staðráðin í að halda okkur við megin markmið okkar sem var að hækka laun þeirra sem eru á lægstu launatöxtum mest og það tókst okkur svo sannarlega.

 

Þessi lífskjarasamningur byggist á því að samið var eingöngu með krónutölum en ekki prósentur en eins og formaður VLFA hefur margoft sagt þá eru prósentulaunahækkanir aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á ójöfnuð. Það er ekki bara það að samið sé í krónutölum heldur er svigrúm til launabreytinga nýtt meira til þeirra sem taka laun eftir launatöxtum en þeir sem taka ekki laun eftir launatöxtum fá ögn minni krónutöluhækkanir en þeir sem eru á launatöxtum.

Þessu til viðbótar tryggðum við í þessum lífskjarasamningi að þegar hagkerfið tekur við sér á nýjan leik þá komi svokallaður hagvaxtarauki til viðbótar almennum kauptaxta launahækkunum. Þessi hagvaxtarauki byggist á hagvexti á mann sem Hagstofan reiknar út á hverju ári.

Ég fullyrði að þessi lífskjarasamningur er albesti samningur sem ég hef komið að, hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar.

Hagvaxtaraukin virkar með eftirfarandi hætti:

  • 1% hagvöxtur á mann
    • + 3000 kr.
  • 1,5% hagvöxtur á mann
    • +5.500 kr.
  • 2% hagvöxtur á mann
    • +8000 kr.
  • 2,5% hagvöxtur á mann
    • 10.500 kr.
  • 3% hagvöxtur á mann
    • 13.000 kr.

Á þessu sést að með þessu erum við að tryggja launafólki um leið og afkoma fyrirtækja eykst og batnar þá er það tryggt í gegnum þennan hagvaxtarauka. Rétt er að geta þess að meðaltal hagvaxtar á mann frá árinu 1990 til 2018 er 1,84% en ef hrunárin eru tekin út þá er hagvöxtur á mann um 2,5% að meðaltali á ári. Á þessu sést að launafólk mun fá viðbótar ávinning með þessari hugmyndafræði.

Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að samningsaðilar eru sammála um að þessi lífskjarasamningur skapi forsendur fyrir Seðlabankann að lækka stýrivexti sem er eitt mesta hagsmunamál alþýðunnar og íslenskra heimila. Samningaaðilar gera sér hinsvegar grein fyrir að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun sem tekur sínar ákvarðanir frá sínum forsendum en við teljum að þessi samningur gefi tilefni til verulegar vaxtalækkunar. Rétt að geta þess að 1% vaxtalækkun getur skilað íslenskum heimilum um 20 milljarða ávinningi en heimilin skulda um 2000 þúsund milljarða.

Það er mat formanns að þessi nýja hugmyndafræði sem aldrei áður hefur verið framkvæmd við kjarasamningsgerð á Íslandi muni klárlega geta orðið öllu samfélaginu til hagsbóta.

Eins og áður sagði er þetta þríhliða samkomulag og því skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli við lausn á þessari deilu en um 40 atriði eru í yfirlýsingu stjórnvalda til að styðja við gerð lífskjarasamningsins. Helstu atriði yfirlýsingar stjórnvalda eru:

  • Skattalækkun til handa tekjulægsta fólkinu sem nemur 10.000 kr.
  • Hækkun skerðingamarka barnabóta uppí 325.000 kr.
  • Risastórt skerf til afnáms verðtryggingar
  • Átak í húsnæðismálum

Á öllu þessu sem hér hefur komið fram er alls ekki allt upptalið þá eru þessir lífskjarasamningar algjör tímamót við gerð kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.

Helstu atriði nýs kjarasamnings

  • Kjarasamningarnir gilda frá 1. apríl 2019 – 1. nóvember 2022
  • Krónutöluhækkanir – 17 þúsund kr. hækkun á öll mánaðarlaun frá 1. apríl 2019
  • Lægstu laun hækka mest – 30% hækkun á lægstu taxta
  • Aukið vinnustaðalýðræði með möguleika á verulegri styttingu vinnutímans (mestu breytingar í tæpa hálfa öld)
  • Eingreiðsla upp á 26 þúsund kr. sem kemur til útborgunar í byrjun maí 2019
  • Skilyrði sköpuð fyrir verulegri vaxtalækkun á samningstímanum
  • Skattbyrði hinna tekjulægstu lækkar um 10 þúsund kr. á mánuði


Almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf

  • apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
  • apríl 2020 18.000 kr.
  • janúar 2021 15.750 kr.
  • janúar 2022 17.250 kr.


Kauptaxtar hækka sérstaklega

  1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
    1. apríl 2020 24.000 kr.
    1. janúar 2021 23.000 kr.
    1. janúar 2022 26.000 kr.

Á árunum 2020-2023 komi til framkvæmda launaauki að gefinni ákveðinni þróun á vergri landsframleiðslu á hvern íbúa.

Tenging við hagvöxt (hagvaxtarauki) tryggir launafólki hlutdeild í verðmætasköpuninni. Þetta ákvæði nýtist best þeim tekjulægri þar sem þessi hækkun fer af fullum þunga á taxtakaup og ¾ á önnur laun. Hagvaxtarauki getur hækkað taxtalaun um 3-13 þúsund á ári eftir því hvað verg landsframleiðsla á mann hækkar mikið á tímabilinu.
2,5% hækkun á aðra liði kjarasamninganna eins og bónusa 2020-2022.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

  • apríl 2019: 317.000 kr. á mánuði
  • apríl 2020: 335.000 kr.
  • janúar 2021: 351.000 kr.
  • janúar 2022: 368.000 kr.

 

Desemberuppbót (var 89.000 kr. 2018)

  • 2019: 92.000 kr.
  • 2020: 94.000 kr.
  • 2021: 96.000 kr.
  • 2022: 98.000 kr.


Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (var 48.000 kr. 2018)

  • Maí 2019: 50.000 kr.
  • Maí 2020: 51.000 kr.
  • Maí 2021: 52.000 kr.
  • Maí 2022: 53.000 kr.

Eingreiðslan kemur sem sérstakt álag á orlofsuppbót árið 2019 uppá 26.000 kr. sem greiðist eigi síðar en 2. maí.

Hér er hægt að skoða kynningu á Lífskjarasamningnum

Skoða hér sjálfan lífkjarasamninginn

Umfjöllun RUV

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image