• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Feb

Níundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara haldinn í gær

Níundi sáttafundurinn í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, Eflingar og VR við Samtök atvinnulífsins var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær.

Á þessum fundi kröfðust Samtök atvinnulífsins enn og aftur afstöðu frá stéttarfélögunum um hvort þau væru virkilega ekki tilbúin að ræða enn frekar um vinnustundabreytingu í þessum kjaraviðræðum.

En eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá lúta þessar pælingar SA út á að atvinnurekendur geti keypt kaffitíma af launafólki og að deilitala í dagvinnu fari úr 173,33 tímum í 160 tíma og yfirvinnuálag breytist úr 80% í 66%. Þessu til viðbótar liggur fyrir að SA vill að dagvinnutímabilið lengist með þeim hætti að hægt sé að vinna á dagvinnu á tímabilinu 06:00 til 19:00 á kvöldin og einnig hafa þeir nefnt að uppgjörstímabil til útreiknings á yfirvinnu verða á þriggja mánaða tímabili.

Á þessum fundi var öllum þessum hugmyndum enn og aftur hafnað og er það bjargföst von fulltrúa stéttarfélaganna að núna loksins sé það orðið ljóst af hálfu fulltrúa SA að þessar hugmyndir verða alls ekki ræddar frekar í þessum kjaraviðræðum.

Næsti fundur verður haldinn á næsta miðvikudag. Ekki var hægt að fá fund fyrr vegna anna hjá fulltrúum SA en á þeim fundi eiga fulltrúar SA að leggja fram tillögur er lúta að launabreytingum á launaliðnum.

Á þessu sést að nú fer að koma að ögurstund í þessum viðræðum. Ekki er hægt að halda þessum viðræðum áfram með þessum hætti enda liðinn einn og hálfur mánuður frá því að samningar runnu út. Það liggur einnig fyrir að viðræður við fulltrúa stjórnvalda eru komnar af stað og er það mat formanns að í kringum 20. febrúar liggi fyrir hvort samningar náist án átaka.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image