• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
01
Feb

Áttundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara

Áttundi fundur Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, VR og Eflingar stéttarfélags með Samtökum atvinnulífsins var haldinn hjá ríkissáttasemjara í morgun.

Það verður að viðurkennast að þessar kjarasamningsviðræður við SA þokast afar hægt og er það vægt til orða tekið. Enn er verið að fara yfir hinar ýmsu kröfur sem eru í kröfugerð áðurnefndra stéttarfélaga en lítið sem ekkert hefur verið farið inn á það sem öllu máli skiptir, sem er þær launabreytingar sem koma þurfa til að ná saman samningum.

Vissulega mun aðkoma stjórnvalda skipta gríðarlega miklu máli um framhaldið enda meginmarkmið stéttarfélaganna að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðneytið hefur gefið út. En eins og allir vita er slíku ekki til að dreifa í dag og vantar tugi þúsunda upp á til að svo sé. Það liggur fyrir að hægt er að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með margvíslegum aðgerðum stjórnvalda eins og t.d. að létta á skattbyrgði, auka barnabætur og koma á aukinni leiguvernd gagnvart þeim sem eru á leigumarkaði í dag.

Auk þessa geta stjórnvöld skapað heilbrigðan og réttlátan fjármálamarkað þar sem hagsmunir neytenda og íslenskra heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins eins og t.d. með því að taka hér á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar, og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Forsetateymi ASÍ átti fund með stjórnvöldum í gær þar sem lagt var fram vinnuskjal þar sem helstu áhersluatriði komu fram og gerðu forsetar forsvarsmönnum ríkisstjórnar grein fyrir þessum áherslupunktum.

Þessir áherslupunktar eru eftirfarandi:

  • Skattamál
  • Húsnæðismál
  • Vextir, verðtrygging og húsnæðisliðurinn
  • Lífeyrismál
  • Jafnréttismál
  • Félagsleg undirboð

 

Eins og sést á þessum áherslupunktum þá eru fjölmörg atriði sem við munum kalla eftir að fá svör við frá stjórnvöldum og ljóst er að stjórnvöld munu þurfa að bregðast fljótt við þannig að við getum metið okkar stöðu betur gagnvart SA. Yfirmarkmið okkar er eins og áður sagði að auka ráðstöfunartekjur okkar fólks og því skiptir aðkoma stjórnvalda miklu máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image