• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jan

Aðalmeðferð Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. verður 6. mars

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir félagsmann sinn, bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti gegn Hval hf.  Málið varðaði brot á atriðum sem fram komu í ráðningarsamningi sem og kröfu sem laut að svokölluðum vikulegum frídegi.  Vangöldin laun starfsmannsins námu því tæpum 500 þúsundum. Einnig var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum dráttarvexti frá 19. janúar 2016 og nam heildargreiðslan því tæpum 700.000 þúsundum fyrir þessa einu vertíð.

En strax eftir að dómurinn lá fyrir stefndi Verkalýðsfélags Akraness Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna sem höfðu starfað á vertíðunum árin 2013, 2014 og 2015 . Rétt er að geta þess að málið sem var staðfest með dómi frá Hæstarétti var prófmál og náði krafan einungis fyrir eina hvalvertíð eða nánar tiltekið vertíðina 2015. Það liggur fyrir að sérstöku greiðslunnar og svokallaður vikulegur frídagur er getið í öllum ráðningarsamningum starfsmanna fyrir vertíðirnar 2013,2014 og 2015 og því er fordæmisgildi þessa dóms ótvírætt.

Eftir dóm Hæstaréttar vonaði Verkalýðsfélag Akraness að Kristján Loftsson myndi greiða öllum starfsmönnum þau vangreiddu laun sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hf. ætti að greiða. En eins og áður sagði eru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins og því alls ekki ágreiningur um að Hvalur hf. braut á öllum starfsmönnum sínum.

Það kom því verulega á óvart að Hvalur hf. neitaði að greiða öðrum starfsmönnum eftir dóm Hæstaréttar og því þarf að fara með málefni annarra starfsmanna fyrir dómstóla. En það er ekki ágreiningur um hvort Hvalur hf.hafi brotið á starfsmönnum heldur ætlar Hvalur hf. að beita fyrir sér tómlæti starfsmanna sem verður að segjast alveg eins og er að sé lágkúruleg málsvörn enda ekki hægt að saka starfsmenn um tómlæti þegar þeir vissu ekki að verið væri að brjóta á þeim fyrr en þeir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness árið 2015.

Núna liggur fyrir að aðalmeðferð í þessu máli allra starfsmanna verður 6. mars 2019. En eins og áður sagði þá er eina málsvörn Hvals hf. að beita fyrir sér tómlæti því ekki getur Hvalur hf. beitt öðrum málsvörnum fyrir sig þar sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta brot fyrirtækisins á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Formaður VLFA trúir ekki öðru en að Héraðsdómur Vesturlands staðfesti dóm Hæstaréttar fyrir alla starfsmenn og hafni alfarið öllum málatilbúnaði er lýtur að tómlæti starfsmanna.

Það er ljóst að þessi dómur Hæstaréttar hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hvali hf. á vertíðunum árin 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 130 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur mun kosta Hval hf. á bilinu 200 til 300 milljónir.  Sjá dóm Hæstaréttar hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image