• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
20
Des

Verkalýðsfélag Akraness afturkallar samningsumboð sitt til SGS

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur tilkynnt Birni Snæbjörnssyni formanni Starfsgreinasambands Íslands með formlegu bréfi að VLFA hafi ákveðið að draga samningsumboð sitt til baka frá SGS.

Það liggur fyrir að það er einlægur vilji innan Verkalýðsfélags Akraness að mynda sameiginlega samninganefnd með VR og Eflingu og jafnvel fleiri félögum innan SGS.

Það er ljóst að verkefnið framundan er gríðarlega erfitt en það er okkar hlutverk og ábyrgð að ná fram kjarasamningum þar sem lágtekjufólk getur látið laun sín duga fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðuneytið hefur gefið út. En það er meginkrafa okkar í verkalýðshreyfingunni enda ætti hreyfing sem ekki gerir svoleiðis kröfu að finna sér eitthvað annað að gera.

Nú liggur líka fyrir að VLFA og mjög líklega VR og Efling muni vísa deilunni til ríkissáttasemjara í dag eða í síðasta lagi á morgun.

Ástæða þess að mikilvægt er að vísa deilunni strax til sáttasemjara liggur í því að ef kjarasamningsgerð dregst um einn mánuð þá getur launafólk á hinum almenna vinnumarkaði orðið af allt að 4 milljörðum króna ef samningurinn er ekki afturvirkur frá 1. janúar.

Eins og staðan er núna þá er ljóst að himinn og haf eru á milli samningsaðila ekki bara hvað lýtur að Samtökum atvinnulífsins heldur er skeytingarleysi og aðgerðaleysi stjórnvalda algjört.

Það er ljóst að framundan er gríðarlega harður kjaravetur þar sem aðalkrafan er að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðarráðuneytið hefur gefið út.

Einnig að ráðist verði í róttækar kerfisbreytingar íslenskum almenningi til hagsbóta. Kerfisbreytingar sem byggjast á þjóðarátaki í húsnæðismálum, tekið verði á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu, ásamt því að skattbyrði verði létt af lág-og millitekjufólki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image